Segðu mér sögu af hagkerfi sem var: 1,7% hagvöxtur á 1F

Segðu mér sögu af hagkerfi sem var: 1,7% hagvöxtur á 1F

Hagstofa Íslands birti núna í morgun landsframleiðslutölur fyrir fyrsta ársfjórðung (1F) 2019. Það verður að segjast eins og er að tölurnar fyrir fjórðunginn eru dálítið eins og upphitunaratriðið sem enginn kom til að horfa á, heldur bíða allir með öndina í hálsinum eftir aðalatriðinu, íslensku hagkerfi eftir gjaldþrot WOW air. Spenningurinn fyrirfram var þar af leiðandi lítill þar sem tölurnar lýsa efnahagslegum veruleika sem á ekki lengur við. Að því sögðu, þá bera tölurnar það skýrt með sér að gósentíð síðustu ára er liðin undir lok, og var það strax á 1F jafnvel þó tvö innlend flugfélög hafi verið starfrækt. Landsframleiðslan jókst um 1,7% milli ára á 1F og þarf að leita aftur til 2014 til að finna slakari tölur.

Þrátt fyrir lítinn hagvöxt sögulega séð, er hann nokkuð umfram væntingar okkar, þar sem spá okkar hljóðaði upp á 0,5% hagvöxt á 1F. Það er fyrst og fremst tvennt sem skýrir þetta frávik. Í fyrsta lagi jókst íbúðafjárfesting langtum meira en við höfðum áætlað, eða um 58% samanborið við spá upp á 4%. Í öðru lagi reyndist vöruútflutningur nokkuð þrautseigari en við reiknuðum með. Aðrir undirliðir þróuðust nokkurn veginn í takt við okkar væntingar. Það er rétt að benda á að eftir útgáfu hagspár okkar bættist verulegur flugvélaútflutningur við utanríkisverslunartölur Hagstofunnar. Við vissum þar af leiðandi fyrir að þróun útflutnings og fjárfestingar yrði nokkuð frábrugðin okkar spá. Um er að ræða fjórar WOW air vélar sem seldar voru til Air Canada undir lok síðasta árs og afhentar í janúar. Áhrifin á hagvöxt eru lítil sem engin, þar sem salan er skráð sem vöruútflutningur en á móti minnkar atvinnuvegafjárfesting. Ef við leiðréttum okkar spá fyrir þessari flugvélasölu breytist útflutningsspáin fyrir fjórðunginn, úr 7,6% samdrætti í 0,5% samdrátt. Það er því ennþá nokkuð í 2,6% útflutningsvöxtinn sem tölur Hagstofunnar sýna, en munurinn felst í vöruútflutningi sem, eins og áður sagði, reyndist þrautseigari en við reiknuðum með.

Seðlabankinn birti nýja þjóðhagsspá í síðustu viku. Ekki var gefið upp hver hagvaxtarspá bankans er fyrir 1F, annað en að búist var við minnkandi hagvexti. Sú spá raungerðist og teljum við ólíklegt að þessar tölur hreyfi við peningastefnunefndinni, enda eru þær ekki lýsandi fyrir núverandi efnahagsástand.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Að þessu sinni var einkaneyslan ekki dráttarklár hagvaxtar, heldur var utanríkisverslun spennt fyrir vagninn. Ástæðan fyrir svo verulega jákvæðu framlagi utanríkisverslunar til hagvaxtar er fyrst og fremst umræddur flugvélaútflutningur sem og verulegur innflutningssamdráttur. Fjárfesting og birgðabreytingar vógu hins vegar á móti, þá sérstaklega birgðabreytingar þar sem gengið var á birgðir í sjávarútvegi í kjölfar loðnubrests. Í fréttatilkynningu Hagstofunnar kemur einnig fram að birgðir olíu og annarra rekstrarvara drógust saman á tímabilinu eftir birgðaaukningu fjórða fjórðungs.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Íbúðafjárfesting komin í leitirnar

Í umfjöllun okkar um hagvöxt á seinni hluta síðasta árs veltum við fyrir okkur af hverju íbúðafjárfesting væri ekki að aukast meira (hún jókst um 1,2% á 2H 2018 samanborið við 2H 2017), enda prýða kranar sjóndeildarhringinn og ný íbúðarhús spretta upp eins og blóm í haga. Það má segja að ráðgátan um íbúðafjárfestinguna hafi verið leyst á 1F, þar sem aukningin milli ára nam hvorki meira né minna en 58,4%. Íbúðafjárfestingin kom því svo sannarlega í leitirnar, en hún hefur aldrei mælst jafn mikil á einum fjórðungi, mælt á raunvirði. Síðasta met átti 4F árið 2007, en 1F 2019 sló það og gott betur, eða 4,12% betur. Á verðlagi ársins í ár nemur íbúðafjárfesting hvorki meira né minna en 51 ma.kr., sem samsvarar yfir þúsund íbúðum! Íbúðafjárfesting er aftur á móti alltaf nokkuð sveiflukennd, sérstaklega á milli ársfjórðunga. Sögulega séð hefur mesta fjárfestingin fallið til á fjórða fjórðungi, þar sem byggingaraðilar klára að skrá eignir eða breyta um byggingarstig fyrir lok árs. Að þessu sinni virðist breytingin hafa fallið til á 1F, það er að segja, mikið af fjárfestingunni hefur eflaust átt sér stað á seinni hluta síðasta árs, en ekki verið skráð fyrr en á 1F, sem skýrir mikinn vöxt nú. Engu að síður gerum við ráð fyrir kraftmikilli íbúðafjárfestingu í ár, þrátt fyrir kólnun í hagkerfinu.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Atvinnuvegafjárfesting dróst nokkuð meira saman en við gerðum ráð fyrir. Fyrrgreind flugvélasala á hér hlut að máli, þar sem sala vélanna dregst frá atvinnuvegafjárfestingu. Ef við lítum hinsvegar undir húdd atvinnuvegafjárfestingarinnar sést að hér er meira á seyði. Það sem vekur sérstaka athygli okkar er að hefbundin atvinnuvegafjárfesting, þ.e.a.s. atvinnuvegagfjárfesting án skipa, flugvéla og stóriðju, dróst saman um 5,4% milli ára. Þetta er fimmti ársfjórðungurinn í röð sem hefðbundin atvinnuvegafjárfesting dregst saman, en færsla Hvalfjarðarganganna frá Speli til ríkisins á síðasta ári skýrir að einhverju leyti samdrátt síðasta árs. Áframhaldandi samdráttur hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar er að okkar mati eitt skýrasta merkið um kólnun hagkerfisins á 1F, en líklegt er að óvissan varðandi fjárhagsstöðu WOW air sem hófst á síðasta ári og vopnaskak á vinnumarkaði hafi haft áhrif á fjárfestingaákvarðanir að undanförnu.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands

Eru heimilin að spara bara?

Síðustu ár hefur einkaneyslan átt stóran þátt í miklum hagvexti, enda íslensk heimili upplifað nær fordæmalausa kaupmáttaraukningu. Með styrkingu krónunnar hefur kaupmáttur í erlendri mynt sömuleiðis vaxið hratt og heimilin því beint neyslu sinni í meira mæli út fyrir landsteinana, þróun sem hefur endurspeglast í miklum innflutningsvexti. Hægt hefur verulega á einkaneysluvextinum síðastliðna fjórðunga, og teljum við að sú þróun haldi áfram. Þeirri kenningu hefur verið haldið á lofti að óvissan á 1F, bæði vegna bágrar stöðu WOW air og kjaradeilunnar á vinnumarkaði, hafi haft áhrif á neysluhegðun heimilanna og leitt til aukins sparnaðar. Eflaust á sú kenning við rök að styðjast, en að okkar mati er líklegra að einkaneysluvöxturinn haldi áfram að minnka þegar líður á árið og atvinnuleysi stígur. Sérstaklega teljum við að haustmánuðirnir geti orðið þungbærir fyrir íslensk heimili, þegar háönn ferðaþjónustunnar lýkur.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Snertilending eða magaskellur?

Undanfarnar vikur hafa greiningaraðilar setið sveittir við að uppfæra hagspár sínar. Við riðum á vaðið, örfáum dögum eftir fall WOW air, og birtum hagspá sem ber heitið Hagkerfið kyrrsett. Miðað við titilinn kemur kannski ekki á óvart að okkar spá er talsvert svartsýnni en aðrar sem hafa fylgt í kjölfarið, s.s. nýjar þjóðhagspár Hagstofunnar og Seðlabankans. Eins og við höfum talað opinskátt um er hægt að færa rök fyrir því að við höfum verið full svartsýn á framgang hagkerfisins í ár, en eftir að hagspá okkar var birt var skrifað undir hóflegri kjarasamninga en væntingar stóðu til um, kortaveltutölur leiðréttar upp á við og leiðarkerfi Icelandair reynst sveigjanlegra en okkur óraði fyrir. Þrátt fyrir það teljum við aðra greiningaraðila full bjartsýna á stöðu mála.

Í nýjasta hefti Peningamála birti Seðlabankinn tvær fráviksspár, eina þar sem ferðamönnum fækkar um 15% og aðra þar sem Bretar yfirgefa ESB án samnings. Síðan þjóðhagsspá þeirra var birt hafa líkurnar á báðum þessum frávikum aukist. Það er því líklegt 0,4% efnahagssamdráttur í ár sé full varfærið mat. Jafnvel þó okkar hagspá sé í svartsýnni kantinum teljum við að niðurstaðan verði nær henni og fráviksspám Seðlabankans, þ.e.a.s. að samdrátturinn fari yfir 1%.

 

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, hagspár greiningaraðila