Viðskiptaafgangur á 1F fellur í skuggann af erlendri stöðu þjóðarbúsins

Viðskiptaafgangur á 1F fellur í skuggann af erlendri stöðu þjóðarbúsins

Seðlabanki Íslands birti í morgun greiðslujafnaðartölur fyrir fyrsta ársfjórðung (1F) 2019, sem og erlenda stöðu þjóðarbúsins undir lok fjórðungsins. Allajafna hlýtur viðskiptajöfnuðurinn meiri athygli en aðrar stærðir en að þessu sinni reyndist erlenda staðan senuþjófurinn, þar sem hún var jákvæð um hvorki meira né minna en 21% af vergri landsframleiðslu (VLF)! Þar sem greiðslujöfnuðurinn tengist erlendu stöðunni beint, og greiðslujöfnuðurinn á það til að vefjast fyrir fólki, hefjum við umfjöllunina á byrjuninni, viðskiptajöfnuði, jafnvel þó erlenda staðan sé að okkar mati það frásagnarverðasta að þessu sinni.

Viðskiptaafgangur við útlönd á 1F var 35,1 ma.kr., sem er í senn umtalsvert meiri afgangur en á sama tíma í fyrra og mesti afgangur á fyrsta ársfjórðungi frá því Seðlabankinn hóf að birta ársfjórðungslegar tölur (1995). Tölurnar fóru langt fram úr væntingum okkar, en við gerðum ráð fyrir 2,6 ma.kr. viðskiptahalla á 1F. Líkt og við höfum áður fjallað um, sem dæmi í síðastliðinni viku, liggur munurinn í vöruútflutningi, en sala fjögurra WOW air véla til Air Canada var ekki bókfærð í útflutningstölum Hagstofunnar fyrr en eftir að okkar spá kom út. Rekstrarframlög voru lítilsháttar meiri en við væntum, en á móti vegur að frumþáttatekjur voru jákvæðari en spá okkar gerði ráð fyrir. 

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og áður kom fram var viðskiptaafgangurinn á 1F mun meiri en á sama tíma árið áður. Hér að neðan má sjá í hverju munurinn felst. Að þessu sinni eru tvær neikvæðar breytingar á milli ára og tvær jákvæðar. Ýmsar rannsóknir benda til þess að flestir vilji fá slæmu fréttirnar á undan góðu fréttunum, og byrjum við því á neikvæðu breytingunum. Í fyrsta lagi voru rekstrarframlög neikvæðari en fyrir ári síðan. Munurinn milli ára skýrist nær alfarið af auknum peningasendingum milli einstaklinga, þ.e.a.s. peningasendingum til erlendra aðila, sem námu hvorki meira né minna en 7,4 ma.kr. á 1F, og hafa aldrei mælst meiri. Peningasendingar til einstaklinga hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu eftir því sem erlendu vinnuafli fjölgar, en þann 1. apríl voru 45.518 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi. Í öðru lagi minnkaði þjónustuafgangur milli ára, fyrst og fremst vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu. Hafa ber í huga að tölurnar lýsa hagkerfi þar sem tvö innlend flugfélög voru starfrækt og því má reikna með að afgangurinn af þjónustuviðskiptum eigi eftir að minnka ennþá meira þegar tölur fyrir 2F verða birtar.

Veigamesta breytingin milli ára er viðsnúningurinn úr vöruskiptahalla í vöruskiptaafgang. Þessi þróun gefur hinsvegar ekki fyrirheit um framhaldið þar sem flugvélasala WOW air litar tölurnar á 1F. Þrátt fyrir samdrátt í vöruinnflutningi gerum við ráð fyrir vöruskiptahalla út árið. Að lokum eru frumþáttatekjurnar að aukast milli ára, þriðja fjórðunginn í röð, en til þeirra teljast aðallega laun og fjárfestingatekjur. Aukning nettó frumþáttatekna er hinsvegar tvíeggja sverð, þar sem ástæðan fyrir breytingunni er ekki endilega af jákvæðum meiði. Tekjur Íslendinga, þá fyrst og fremst fjárfestingatekjur, eru að aukast á milli ára, sem er vissulega jákvæð þróun, en á sama tíma eru gjöldin að dragast saman, sem rekja má til afkomu innlendra félaga. Með öðrum orðum, innlend fyrirtæki eru að skila erlendum aðilum minni hagnaði, eða tapi, sem skýrir þennan samdrátt á gjaldahlið frumþáttatekna, þ.e. það sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum. 

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vinsæl verðbréf

Í hinum fullkomna heimi ættu fjármagnsjöfnuður og viðskiptajöfnuður að núlla hvorn annan út. Til útskýringar, segjum sem svo að einstaklingur eða fyrirtæki flytji inn bíl, viðskipti sem ættu að vera færð bæði í viðskiptajöfnuðinn sem vöruinnflutningur, á meðan greiðslan er bókuð í fjármagnsjöfnuðinn. Hver viðskipti hafa þannig tvær færslur, sem ættu að hafa sömu fjárhæð svo summan sé núll. Heimur greiðslujafnaðar er hinsvegar langt því frá að vera jafn klipptur og skorinn og hagfræðibækurnar segja til um, t.d. vegna tímaskekkju, verðskekkju og magnskekkju, svo fátt eitt sé nefnt.

Að því sögðu var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um 98 ma.kr. Erlend eign Íslendinga jókst um tæpa 59 ma.kr. á meðan innlend eign erlendra aðila (einnig hægt að túlka sem skuld innlendra aðila) dróst saman um 39 ma.kr. Þetta er þriðji fjórðungurinn í röð þar sem þróunin er á þennan veg. Hvað varðar eignahlið innlendra aðila munar mestu um aukna verðbréfafjárfestingu, sem jókst um 52 ma.kr. á fjórðungnum, sem skiptist nokkuð jafnt milli hlutabréfa og skuldaskjala. Þá jókst önnur fjárfesting umtalsvert, sem fyrst og fremst má rekja til aukinna innistæða. Á móti vegur að gjaldeyrisforðinn minnkaði á fjórðungnum, en Seðlabankinn greip alls sjö sinnum inn á gjaldeyrismarkaðinn á fjórðungnum og keypti krónur.

Þegar kemur að skuldahliðinni, eða eignum erlendra aðila hér á landi eins og merkt er á myndinni hér að neðan, þá vegur þyngst samdráttur í beinni fjárfestingu, en samdráttur í annarri fjárfestingu leggur lóð sín einnig á vogaskálarnar. Að miklu leyti má rekja þessar breytingar til skuldaniðurgreiðslu innlendra aðila. Sem dæmi, flugvélasala WOW air ætti að minnka skuldir innlendra aðila, að öðru óbreyttu. Erlendir aðilar juku hinsvegar verðbréfafjárfestingu sína um 24 ma.kr á fjórðungnum, sem eflaust má rekja að miklu leyti til innstreymis í Marel. Það sem vekur meiri athygli er aukin ásókn erlendra aðila í innlend skuldaskjöl, eða sem nemur tæpum 10 ma.kr. Eflaust á lækkun bindiskyldunnar niður í 0% hlut að máli.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Áhrifin af því að lækka bindiskylduna niður í 0% eru sérstaklega greinileg ef mánaðarlegar tölur Seðlabankans yfir verðbréfafjárfestingu eru skoðaðar. Það var ekki fyrr en í mars sem nettó verðbréfafjárfesting erlendra aðila varð aftur jákvæð, eftir neikvæða átta mánuði, en bindiskyldan var færð niður í 0% þann 6. mars sl.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Söguleg erlend staða

Loksins er komið að því frásagnaverðasta að okkar mati, rúsínunni í pylsuendanum, ævintýralegri erlendri stöðu! Áður en lengra er haldið er rétt að skýra tengslin á milli fjármagnsjafnaðar og ætlum við í þeim tilgangi að vitna í lýsigögn Seðlabankans á greiðslujöfnuði, sem skýrir hvernig erlend staða þjóðarbúsins breytist milli fjórðunga:

Staða í upphafi fjórðungs + viðskipti í fjármagnsjöfnuði + gengis- og verðbreytingar + aðrar breytingar = staða í lok fjórðungs

 Eins og áður sagði var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um 98 ma.kr. á fjórðungnum, og bætir þar af leiðandi erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nemur þeirri upphæð. Krónan veiktist um 4,5% á fjórðungnum, sem hefur jákvæð áhrif á erlendu stöðuna, en það sem skiptir mestu máli er 12% verðhækkun á erlendum verðbréfamörkuðum á fjórðungnum. Gengis- og verðbreytingar höfðu þar af leiðandi jákvæð áhrif á erlendu stöðunum um 182 ma.kr. Erlenda staðan batnaði því um hvorki meira né minna en 270 ma.kr. á fjórðungnum, eða 9,5% af VLF. Undir lok fyrsta ársfjórðungs nam hrein erlend staða þjóðarbúsins 597 ma.kr., eða 21% af VLF, og hefur aldrei verið betri! Allez, allez, allez!

Á árunum fyrir hrun var þessu þveröfugt farið, þ.a.e.s. Íslendingar voru nettó lántakendur. Sterk erlend staða er eitt af styrkleikamerkjum íslensks þjóðarbúskapar um þessar mundir, og sýnir, ásamt öðru, að hagkerfið er vel í stakk búið til að takast á við þann efnahagssamdrátt sem flestir vænta á þessu ári. 

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka