Hæð yfir landinu, lægð yfir verðbólgunni

Hæð yfir landinu, lægð yfir verðbólgunni

Við spáum 0,35% hækkun á vísitölu neysluverðs í júní, sem er eilítil hækkun frá bráðabirgðaspá okkar sem hljóðaði upp á 0,3% hækkun vísitölunnar. Samkvæmt spánni lækkar ársverðbólgan í 3,3%, úr 3,6% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir eða nánar tiltekið 6. til 13. júní og niðurstaða mælingarinnar verður birt miðvikudaginn 26. júní.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spáin gerir ráð fyrir að flugfargjöld bregði ekki út af vana sínum og hækki, eins og þau hafa gert undanfarin fimm ár í júní, matarkarfan verði óbreytt, sami lági taktur haldist á hækkun fasteignaverðs, auk ýmissa liða sem hækka. Á móti vegur að bensínverðið lækkar, sem er kannski það eina óvenjulega að þessu sinni, þar sem bensínliðurinn hefur hækkað í yfir 80% tilvika á milli mánaða undanfarin tvö ár.

Verðstríð (á höfuðborgarsvæðinu) og vísitalan

Þann 3. júní síðastliðinn hófst „verðstríð“ á olíumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Atlantsolía jók þá samkeppni sína við Costco um eina stöð, sem hristi svo um munaði upp í markaðinum. Þá má ekki gleyma að verð á hráolíu hefur hríðlækkað undanfarna daga. Engu að síður hafa borist fréttir þess efnis á síðustu dögum að verðhækkanir hafi gengið til baka í einhverjum tilfellum, og því spurning hvort full áhrif verðstríðsins rati inn í vísitöluna að þessu sinni. Verðmæling okkar bendir til að verð á bensíni hafi lækkað um 0,7% en dísilverð um 1,9%. Á heildina litið er gert ráð fyrir að eldsneyti hafi lækkað um 0,9% á milli mánaða (-0,03% áhrif á VNV) þar sem bensín vegur meira en dísil í mælingunni. Í ljósi þess að einhverjar lækkanir hafa nú þegar gengið til baka veltum við því fyrir okkur hvort verðstríðið sé tímabundið og muni því ýta undir verðbólguna á næstu mánuðum.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Fljúgðu (ó)dýrt í sumar

Í spánni er gert ráð fyrir að flugfargjöld hækki um 7,7% milli mánaða (0,15% áhrif á VNV), en flugfargjöld hafa hækkað í júní síðastliðin fimm ár, enda háönn ferðamannatímabilsins að ganga í garð. Talsverðrar óvissu gætir að þessu sinni um verðbreytingu á flugliðnum í ljósi þess að flugmarkaðurinn til og frá landinu hefur tekið stakkaskiptum sl. mánuði. Mæling okkar á netinu bendir til 22% verðhækkunar milli mánaða í júní og enn meiri hækkunar í júlí, eða 28% milli mánaða. Hagstofan framkvæmir verðmælingar á flugliðnum hálfum til tveimur mánuðum fyrir mælingarviku vísitölunnar, og þess vegna höfum við nú þegar tvo þriðju af mælingarpunktunum fyrir júlí. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samanburð á þróun á verði flugfargjalda fram til júlí eftir því hvort tölfræðilíkanið sé notað eða niðustaða netmælingar. Samkvæmt tölfræðilíkaninu munu flugfargjöld hækka um 28% fram í júlí á meðan netmælingin bendir til 56% verðhækkunar yfir sama tímabil. Ef við miðum við vægi flugfargjalda í síðustu mælingu þá gætu áhrifin á vísitöluna fram í júlí verið á bilinu 0,5-1,1% áður en verð lækka síðan í ágúst. Líklegasta niðurstaðan er að verðhækkanirnar verði einhversstaðar fyrir ofan spá tölfræðilíkansins. Tölfræðilíkanið byggir á sögulegum gögnum og eins og fyrr segir þá er markaðurinn að breytast í átt til minna framboðs sem ætti að ýta verðum upp á við, að öðru óbreyttu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þyngdaraflið togar í húsnæðisverð

Mæling okkar á þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu, sem og húsnæðis á landsbyggðinni, hafi lækkað á milli mánaða, en að árstaktur sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað. Hins vegar benda útreikningar Íbúðalánasjóðs til þess að hlutfall kaupsamninga sem fara undir ásettu verði, hafi farið hækkandi í apríl, sem bendir til að þróun fasteignaverðs sé ofspáð í ásettu verði. Við gerum því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,25% (0,05% áhrif á VNV) sem er eilítið minni hækkun en ásett verð gefur til kynna.

 

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Hvort hefur yfirhöndina, atvinnuleysi eða verðbólga?

Þó árstakturinn fari lækkandi að þessu sinni vantar ekki eldiviðinn til að kynda í verðbólgunni á næstu mánuðum og stuðla að meiri hækkunum en hér er gert ráð fyrir. Í fyrsta lagi hefur krónan veikst undanfarið og er hún nú jafn veik og hún fór lægst í vetur. Í  öðru lagi gæti hækkun á verði flugfargjalda næstu mánuði orðið meiri en hér er gert ráð fyrir. Þó að áhættan liggi meira upp á við að okkar mati gæti svo farið að verðbólgan þróist á hagstæðari máta en bráðabirgðaspáin gerir ráð fyrir. Aukinn slaki í hagkerfinu, sem mun líklega ekki koma fram af fullum þunga fyrr en í haust, getur dregið úr eftirspurn í hagkerfinu og haldið aftur af verðhækkunum, bensínverð hefur lækkað skarpt á heimsmarkaði og hlutfall kaupsamninga á húsnæði sem eru undir ásettu verði er að hækka. Þá hafa verðbólguvæntingar í okkar helstu viðskiptalöndum verið lækka sem gæti endurspeglast í þróun verðbólgu hér á landi.

  • Júlí 0,0%: Útsölur á fatnaði og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun)
  • Ágúst 0,35%: Útsölur ganga til baka, flugfargjöld lækka
  • September 0,35%: Útsölur ganga til baka, flugfargjöld lækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka