Gengislekinn inn, húsnæðisliðurinn út – verðbólgan 3,3%

Gengislekinn inn, húsnæðisliðurinn út – verðbólgan 3,3%

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,38% á milli mánaða í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólgan lækkar þar með í 3,3%, úr 3,6% í maí. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,35% til 0,40% hækkunar milli mánaða, en meðalspá þeirra sem birta spár opinberlega var 0,38%. Við spáðum 0,35% hækkun. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% á milli mánaða og mælist verðbólga án húsnæðisliðarins því 3,0%.

Tölurnar virðast draga dám af kröggum ferðaþjónustunnar um þessar mundir, en flugfargjöld til útlanda hækkuðu minna en við gerðum ráð fyrir (6,5% í stað 7,7%) og verð á hótelum og veitingastöðum lækkaði um 1%, og það í upphafi háannarinnar í ferðaþjónustu, en undanfarin ár hafa báðir þessir liðir hækkað í júní. Annað sem kemur á óvart að þessu sinni er að reiknuð húsaleiga lækkaði á milli mánaða (-0,21% í stað 0,25%).  Út frá þessum þremur liðum vorum við því að vanspá mánaðarverðbólgunni um rúmlega 0,2%, en þar sem mánaðarspáin er nánast í takt við niðurstöðuna er ljóst að aðrir undirliðir hækkuðu meira en við gerðum ráð fyrir.

Þeir liðir sem draga hækkunarvagninn eru viðhaldskostnaður húsnæðis sem hækkaði um 2,3% (0,11% áhrif á VNV), greidd húsaleiga sem hækkaði um 0,5% (0,02% áhrif á VNV), aðrar vörur og þjónusta sem hækkaði um 0,8% (0,05% áhrif á VNV) og matarkarfan, sem hækkaði um 0,35% (0,05% áhrif á VNV). Þó spáin sé í takt við niðurstöðuna þá sýnir framangreint að verðbólgan er að brjótast annarsstaðar fram en gert var ráð fyrir.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðismarkaðurinn fer frá hálendinu niður á sléttuna

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% og sérbýli um 0,2% á meðan fasteignaverð á landsbyggðinni lækkaði um 0,8%. Árstaktur hækkana heldur því áfram að lækka og nemur árstaktur fjölbýlis 3,5%, sérbýlis 3,7% en árstaktur landsbyggðarinnar stendur í 6,9%, samanborið við 14,5% fyrir sex mánuðum. Á heildina litið lækkaði markaðsverð húsnæðis um 0,07% í mánuðinum. Á sama tíma fyrir ári nam hækkunin á milli mánaða 1,1%.  Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar kostnað við eigið húsnæði, lækkaði hins vegar meira en 0,07%, sem skýrist a.m.k. að hluta af því að vextir fasteignalána hafa lækkað sem dregur úr vaxtakostnaði og þar með kostnaði við eigin húsnæði.

Á myndinni hér fyrir neðan sést að árstakturinn hefur farið lækkandi undanfarin tvö ár, þ.e. þó mánaðarbreytingar séu jákvæðar þá hefur að meðaltali hver mánaðarbreyting verið lægri en ársins á undan.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innfluttar vörur spenntar fyrir verðbólguvagninn

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig verðbólgan er samsett. Allt frá september 2013 hefur húsnæðisverð verið í hlutverki dráttarklársins en að undanförnu hafa innfluttar vörur leyst það af hólmi. Það er þó ekki að undra þar sem gengi krónunnar hefur veikst um u.þ.b. 15% síðan í haust á meðan að húsnæðismarkaðurinn hefur kólnað umtalsvert. Innfluttar vörur bera nú ábyrgð á um 1,3 prósentustigi af árstaktinum eða tæplega 40% af verðbólgunni á meðan að húsnæðisliðurinn skýrir um fjórðung hennar, en áhrif húsnæðis hafa ekki verið minni í 8 ár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Setur gengi krónunnar strik í reikninginn?

Horft nokkra mánuði fram í tímann má gera ráð fyrir að liðir tengdir ferðamannaiðnaðinum leiði til minni verðhækkana nú en í venjulegu árferði. Ef við horfum til næsta mánaðar má gera ráð fyrir að flugfargjöld hækki mikið, fyrst og fremst vegna minna flugframboðs en undanfarin ár sem og vegna árstíðasveiflu í verði flugfargjalda, en einnig vegna þess að hækkunin í júní var minni en gert var ráð fyrir. Slík hækkun væri einungis tímabundin, að minnsta kosti að stórum hluta, þó einhver hækkun geti setið eftir ef samkeppni eykst ekki. Fasteignaverð er líklegt til að haldast nánast óbreytt á komandi misserum en lækkun vaxta gæti áfram haft áhrif á reiknaða húsaleigu til lækkunar vegna lækkandi greiðslubyrði á nýjum lánum. Það er því margt sem mælir með því að árstaktur reiknaðrar húsaleigu ætti að fara lækkandi þegar líður á næsta vetur.

Samkvæmt bráðabirgðaspám er verðbólgan hins vegar líkleg til að vera fyrir ofan 3% fram á haust, og veiking krónu í maí og júní ætti að hækka bráðabirgðaspárnar ef gengi krónu helst þar sem það er þessa stundina.

Bráðabirgðaspár fyrir næstu mánuði:

  • Júlí 0,0%: Útsölur á verði fatnaðar og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun)
  • Ágúst 0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka, flugfargjöld lækka í lok sumars
  • September 0,35%: Útsölur ganga til baka, flugfargjöld lækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka