Már kveður með 25 punktum - markaðurinn vildi mýkri tón

Már kveður með 25 punktum - markaðurinn vildi mýkri tón

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,25 prósentustig, úr 4% niður í 3,75%, ákvörðun sem er í takt við væntingar greiningaraðila. Þrátt fyrir vaxtalækkun er yfirlýsingin í styttri kantinum, aðeins 231 orð, en lumar engu að síður á góðgætum sem greiningaraðilar geta japlað á. Ástæðan fyrir vaxtalækkuninni að þessu sinni er ekki versnandi efnahagshorfur eða batnandi verðbólguhorfur, heldur einfaldlega aukið taumhald peningastefnunnar milli funda vegna lækkandi verðbólguvæntinga. Um er að ræða síðustu stýrivaxtaákvörðun Más Guðmundssonar, a.m.k. í starfi seðlabankastjóra. Krafa á skuldabréfamarkaði hefur hækkað um 8-12 punkta en markaðurinn virðist hafa vonast eftir enn mýkri tón frá nefndinni.

Líkt og á undanförnum vaxtaákvörðunum eru raunvextir í aðalhlutverki, þar sem hækkun þeirra miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða vegur þyngra en líkur á versnandi verðbólguþróun. Það vekur athygli að nefndin ýjar að því að verðbólguspá Seðlabankans sé of bjartsýn sökum veikingar krónunnar að undanförnu, en samkvæmt henni hefur verðbólgan nú þegar náð hámarki. Fari svo að verðbólgan stígi meira en Seðlabankinn gerir ráð fyrir getur það dregið úr svigrúmi peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum, sér í lagi ef verðbólguvæntingar fylgja. Engu að síður teljum við að nefndin muni halda áfram að lækka vexti þegar líður á árið, þó dúfnakurrið sé örlítið lægra en við væntum fyrirfram.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Samtök atvinnulífsins, Greiningardeild Arion banka

Innlend eftirspurn glímir við fækkun ferðamanna

Efnahagsmálin eru nefndinni einkar hugleikin að þessu sinni, skiljanlega, þar sem útlit er fyrir efnahagssamdrátt í ár. Í maí sl. birti Seðlabankinn nýja þjóðhags- og verðbólguspá, sína fyrstu eftir gjaldþrot WOW air. Spáð er 0,4% efnahagssamdrætti í ár, stígandi atvinnuleysi og hægari vexti innlendrar eftirspurnar. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að nýjustu tölur breyti ekki sýn bankans á efnahagshorfurnar þar sem vísbendingar um meiri undirliggjandi þrótt innlendar eftirspurnar vega á móti horfum um meiri samdrátt í ferðaþjónustunni. Það vekur athygli að vísað er sérstaklega til einkaneysluvaxtar á fyrsta fjórðungi, sem nam 2,8%, en að okkar mati eru tölur fyrsta fjórðungs nú þegar orðnar sagnfræði, þær segja lítið um stöðu hagkerfisins í dag.

Á kynningarfundi vaxtaákvörðunar í morgun kom fram í máli aðstoðarseðlabankastjóra að kortaveltutölur og væntingar heimila og fyrirtækja benda til meiri seiglu innlendrar eftirspurnar en áður var talið. Við deilum þeirri skoðun, í ljósi þess að kortavelta Íslendinga jókst um 2,3%, á föstu gengi og verðlagi, milli ára í apríl og maí og væntingar fyrirtækja til næstu mánaða hafa skánað lítið eitt. Vísbendingar fyrir annan ársfjórðung eru því lítilsháttar betri en á horfðist. Að því sögðu teljum við að síðari helmingur ársins muni reynast heimilum og fyrirtækjum þungur í skauti, sérstaklega þegar háannatími ferðaþjónustunnar er um garð genginn. Einkaneysluspá Seðlabankans, er hljóðar upp á 1,6% vöxt á þessu ári, er að okkar mati því ekki ósennileg niðurstaða. Hvað varðar horfur í ferðaþjónustunni erum við enn þeirrar skoðunar að ferðamannaspá Seðlabankans sé of varfærin, skoðun sem er endurspegluð í yfirlýsingu nefndarinnar. Fráviksspá Seðlabankans, er byggir á 15% fækkun ferðamanna og gerir ráð fyrir 1,2% efnahagssamdrætti í ár, er þar af leiðandi enn þá líklegasta niðurstaðan að okkar mati, að svo stöddu.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Kortaveltan á 2F 2019 er áætluð út frá kortaveltu í apríl og maí.

Lekur verðbólguskipið úti á krónusjó?

Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að verðbólgan sé enn sem komið er í samræmi við síðustu spá Seðlabankans en þó er sérstaklega tekið fram að gengi krónunnar geti sett strik í reikninginn. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að meðalverðbólga annars og þriðja fjórðungs verði 3,4% en lækki svo frekar ört og verði komin undir markmið fyrir lok árs 2020. Að okkar mati er ýjað að því í yfirlýsingu nefndarinnar að þessi spá gæti verið of bjartsýn. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að verðbólgan hjaðni hægar og ef verðbólguspá Seðlabankans verður færð upp á við þegar þjóðhagsspá bankans verður uppfærð í ágúst dregur það úr taumhaldi peningastefnunnar, sem að öðru óbreyttu dregur úr svigrúmi til vaxtalækkana. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Þessar vangaveltur ráðast að mestu af þróun gengis krónunnar en stundargengi hennar er nú um 4,2% veikara en spá Seðlabankans, sem kom út fyrir rúmum mánuði, gerir ráð fyrir að ársmeðaltal hennar verði. Krónan veiktist nokkuð í kjölfar birtingu talna um 24% fækkun ferðamanna í maí enda nemur fækkunin nú á fyrstu fimm mánuðum ársins 11,2% þrátt fyrir að aðeins séu komnir tveir mánuðir án WOW air. Áður en þessar tölur komu fram hafði Seðlabankinn spáð 10,5% samdrætti í komum ferðamanna, sem að okkar mati var býsna bjartsýnt og teljum við ólíklegt að sú spá gangi eftir úr þessu. Það má leiða líkur að því að nýjustu ferðamannatölur hafi haft áhrif á væntingar þátttakenda á gjaldeyrismarkaði með tilheyrandi veikingaráhrifum á krónuna. Auk þess sýnast okkur tölur um innlenda fjárfestingu erlendra aðila gefa til kynna minna innstreymi í innlenda vexti heldur en við mátti búast við lækkun bindiskyldu í 0% sem skýrist þó e.t.v. m.a. af minnkandi vaxtamun. Ásamt því hefur útflæði aflandskróna upp á 15 ma.kr í kjölfar þess að aflandskrónufrumvarpið var samþykkt í byrjun mars ýtt undir veikingu krónunnar, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi stutt við hana með inngripum fyrir um helming þeirrar upphæðar. 

Þeir þættir sem gætu aftur á móti stutt við krónuna þegar litið er fram á veginn eru minna útflæði lífeyrissjóða í erlendar eignir, minni kaup Íslendinga á erlendum verðbréfum, horfur á meiri viðskiptaafgangi en við höfðum gert ráð fyrir og auðvitað beiting gjaldeyrisforðans. Að okkar mati er krónan í veikara lagi m.v. undirliggjandi efnahagsstærðir en gengisþróun næstu mánaða mun ráðast af samspili þessara flæðistærða. 

Mun verðbólgan standa í vaxtalækkunum?

Með síðustu tveimur vaxtalækkunum hefur peningastefnunefnd haldið áfram að feta sig eftir Taylor-ferlinum. Líkt og við höfum áður bent á er Taylor-ferillinn ekki vaxtaspá heldur eitt af fjölmörgum greiningartækjum peningastefnunefndar. Ferillinn hér að neðan, sem byggir á nýjustu þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans, bendir til þess að frekari vaxtalækkanir séu í farvatninu, eða allt að 75 punktar til viðbótar á þessu ári. Ef áhyggjur peningastefnunefndar um áhrif veikari krónu á verðbólguþróunina verða að veruleika, sem við óttumst, getur það dregið úr svigrúmi til vaxtalækkana. Á móti vegur að framleiðsluslakinn gæti reynst meiri en Seðlabankinn gerir ráð fyrir vegna meiri samdráttar í ferðaþjónustunni. Erfitt er að leggja mat á hvort mun vega þyngra í augum nefndarinnar, sem er jú á verðbólgumarkmiði, en eins og staðan er í dag drögum við frekari 75 punkta vaxtalækkun á árinu í efa.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Fram á mitt ár 2015 er miðað við 3% jafnvægisraunvexti en þeir fara lækkandi eftir það