Varnarsigur íslenskrar ferðaþjónustu á vormánuðum

Varnarsigur íslenskrar ferðaþjónustu á vormánuðum

Eins og flestir vita hefur ferðaþjónustan átt erfitt uppdráttar undanfarna mánuði, ferðamönnum hefur fækkað mikið og mörg ferðaþjónustufyrirtæki í kröggum. Nýjustu tölur um kortaveltu og gistinætur ferðamanna benda hins vegar til þess að róðurinn sé ekki jafn þungur og margir, þar á meðal við, óttuðumst.

Kortaveltutölur Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) rötuðu í fréttirnar fyrir skemmstu m.a. undir fyrirsögninni Minni samdráttur í kortaveltu en fjölda ferðamanna. Tölurnar voru sterkari en á horfðist, aðeins 13,1% samdráttur milli ára í maí, og það þrátt fyrir 23,6% fækkun ferðamanna. Hafa ber í huga að kortaveltutölur RSV eru án flugsamganga. Það fór minna fyrir uppfærslu á tölunum, þrátt fyrir að um stór tíðindi hafi verið að ræða. Samkvæmt uppfærðum tölum dróst heildarkortavelta erlendra ferðamanna hér á landi aðeins saman um 0,7% í maímánuði, í krónum talið, eftir 4,5% aukningu í apríl. Að því gefnu að þetta sé endanleg niðurstaða um kortanotkun ferðamanna þá verður svo lítill samdráttur í maí og vöxtur í apríl að teljast mikill varnarsigur fyrir íslenska ferðaþjónustu, í ljósi þess að ferðamönnum fækkaði um 18,5% í apríl og 23,6% í maí. Meiri samdráttur mælist í maí (og allt frá febrúar sl.) ef kortaveltan er leiðrétt fyrir gengisbreytingum, enda krónan umtalsvert veikari en fyrir ári síðan. 

 

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hver ferðamaður eyðir.. og eyðir… og eyðir

Það sem vekur einna helst athygli okkar er hvað eyðsla hvers og eins ferðamanns virðist hafa aukist mikið milli ára. Það var viðbúið að kortavelta á hvern ferðamann í krónum talið myndi aukast sökum gengisveikingar krónunnar, en hversu mikil aukningin virðist vera eru óvænt gleðitíðindi. Þannig ráðstafaði hver ferðamaður 28% fleiri krónum hér á landi í apríl en fyrir ári síðan og 30% fleiri krónum í maí, en kortavelta á hvern ferðamann hefur aldrei verið jafn mikil og í maí. Ekki nóg með það, þá sýna tölurnar að hver og einn ferðamaður ráðstafaði mun meiru í sinni eigin mynt en áður, þróun sem skiptir tekjusköpun þjóðarbúsins gríðarlega miklu máli. Í apríl ráðstafaði hver ferðamaður 13% meiru í eigin mynt en fyrir ári síðan og 15% meira í maí. Leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna svo mikla aukningu milli ára, en það má segja að það ár hafi verið gullvaxtarár ferðaþjónustunnar, enda fjölgaði þá erlendum ferðamönnum um 40%.

 

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Þegar kortavelta á hvern ferðamann er brotin upp eftir þjóðernum má sjá að Spánverjar og Bandaríkjamenn bera höfuð og herðar yfir önnur þjóðerni þegar kemur að eyðsluaukningu í apríl og maí. Þannig var hver Spánverji að eyða rúmlega 31% fleiri evrum í apríl og maí samanlagt, samanborið við sama tíma fyrir ári síðan, og hver Bandaríkjamaður tæplega 27% fleiri dollurum. Þessi mikla aukning í kortaveltu hvers og eins Bandaríkjamanns er sérstaklega ánægjuleg þar sem fimmti hver ferðamaður er sótt hefur landið heim í ár er Bandaríkjamaður og alla jafna er um hlutfallslega verðmæta ferðamenn að ræða (m.ö.o. þeir eyða meira en flest önnur þjóðerni).

Kortavelta Breta og Rússa hefur að sama skapi aukist töluvert á milli ára. Bretland er næst mikilvægasti markaður íslenskrar ferðaþjónustu í höfðatölu ferðamanna talið, á eftir Bandaríkjunum, og því fagnaðarefni að sjá svo mikla aukningu í kortaveltu hvers og eins Breta, mælt í pundum. Saman eru breskir og bandarískir ferðamenn rúmlega 40% allra ferðamanna er sótt hafa landið heim það sem af er ári.

 

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Lengri dvalartími = meiri neysla

Stutt er síðan WOW air var lýst gjaldþrota og því fáar hagtölur og vísbendingar í hendi sem geta varpað ljósi á ástæðuna fyrir aukinni eyðslugleði ferðamanna. Vísi að svari má hins vegar finna í nýbirtum gistináttatölum Hagstofunnar, en samkvæmt þeim hefur dvalartími ferðamanna á landinu lengst. Þannig fækkaði heildargistinóttum, skráðum og óskráðum, aðeins um rúm 9% í maí á meðan erlendum ferðamönnum fækkaði um 23,6%. Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Norðurlandi fjölgaði í maí, en samtals gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum fækkaði aðeins um 1% milli ára.

Séu skráðar og óskráðar (t.d. Airbnb) gistinætur teknar saman og deilt niður á fjölda ferðamanna, líkt og gert er á grafinu hér að neðan, sést að hver ferðamaður dvaldi mun lengur á landinu í apríl og maí en fyrir ári síðan. Þannig var dvalartíminn 19,6% lengri í apríl og 18,7% í maí, sem er nálægt sólarhrings lengri dvalartími!

Hvað veldur þessari ævintýralegu breytingu? Hefur samsetning ferðamanna tekið svona miklum stakkaskiptum á einu ári? Líklega er það hluti af skýringunni, en samkvæmt könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna dvöldu ferðamenn með WOW air skemur en aðrir ferðamenn og eyddu minna að meðaltali en t.d. ferðamenn með Icelandair. Þá flutti WOW air hlutfallslega fleiri ferðamenn sem stöldruðu aðeins í skamma stund á landinu án þess að gista en önnur flugfélög. Einnig má vera að aukið vægi erlendra flugfélaga í flugframboði til landsins skipti hér máli, en erlend flugfélög fljúga alla jafna sjaldnar í viku til landsins. Þá hefur samsetning farþega með Icelandair tekið miklum breytingum. Hvað svo sem veldur er ljóst að tölurnar eru virkilega jákvæðar fyrir íslenska ferðaþjónustu og íslenskan þjóðarbúskap í heild sinni.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Líklega minni útflutningssamdráttur en áður var talið

Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi hefur alla jafna gott forspárgildi fyrir undirliðinn ferðalög í þjónustuútflutningi. Á síðasta ári nam kortavelta erlendra ferðamanna 237 ma.kr., á breytilegu gengi, á meðan ferðalög í þjónustuútflutningi námu 367 ma.kr. Kortaveltan nam þar af leiðandi 65% af ferðalögum, eða heildarneyslu ferðamanna hér á landi. Ef við tökum þetta eitt skref áfram þá er undirliðurinn ferðalög veigamestur í þjónustuútflutningi og var tæplega helmingur þjónustuútflutningstekna í fyrra. Þar af leiðandi getum við notað kortaveltutölurnar til að leggja gróft mat á þjónustuútflutning á öðrum ársfjórðungi (2F).

Bráðabirgðatölur apríl mánaðar liggja nú þegar fyrir. Útflutt þjónusta nam 44 ma.kr. og innflutt þjónusta tæpum 35 ma.kr., sem þýðir að afgangur af þjónustuviðskiptum nam 9,6 ma.kr., samanborið við 12 ma.kr. afgang á sama tíma í fyrra, á föstu gengi. Á breytilegu gengi er munurinn milli ára mun minni, rétt tæp 2%. Miðað við kortaveltu- og gistináttatölur maí mánaðar sjáum við ekki betur en að útflutt þjónusta verði nokkuð umfram væntingar okkar á 2F. Í hagspá okkar er gert ráð fyrir að tekjur vegna útfluttrar þjónustu nemi 153 ma.kr. Í ljósi kortaveltutalnanna teljum við að endanleg niðurstaða gæti orðið nær 160 ma.kr. eða rúmlega það. Sé þróunin síðustu tvo mánuði vísir að árinu er líklegt að útflutningssamdrátturinn verði nokkuð minni en við væntum í lok mars, þegar höggið skall á, sem ætti að öðru óbreyttu að vera jákvætt fyrir útflutningstekjur þjóðarbúsins, hagvöxt og krónuna.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka