Minnkandi útlán á erfiðum tíma

Minnkandi útlán á erfiðum tíma

Seðlabankinn breytti nýverið reglum um viðskipti sín við fjármálafyrirtæki og gerði sértryggð skuldabréf, sem eru tryggð með húsnæðislánum einstaklinga í íslenskum krónum, hæf til tryggingar. Breytingin er tímabær, til þess fallin að lækka vaxtastig, örva útlán, milda efnahagssamdrátt og endurspeglar sýn Seðlabankans á kólnun hagkerfisins. Önnur nýleg ákvörðun, hækkun á eiginfjárkröfum bankanna, gengur hins vegar í aðra átt. Þessar ákvarðanir geta haft töluverð áhrif á fjármálamarkaði og þar með hagkerfið þó ekki fari mikið fyrir þeim í almennri umræðu þar sem nær öll áhersla er á stýrivexti Seðlabankans. 
Seðlabankinn hefur ekki veitt lán í reglubundnum markaðsviðskiptum síðan árið 2012 enda hefur lausafjárstaða bankanna verið rúm. Því eru í raun aðeins væntingadrifin áhrif af reglubreytingunni enn sem komið er. 
Aðstæður á markaði ráða því hvort Seðlabankinn býður fjármálafyrirtækjum að taka lán hjá bankanum eða að binda krónur á innlánsreikningi í umsamin tíma. Seðlabankinn segist hafa þá meginreglu að bjóða ekki útlán og innlán á sama tíma. Ef það stenst þýðir það að ef banka vantar laust fé þá fjármagnar hann sig með lánsfé frá öðrum bönkum á millibankamarkaði þar til innstæður bankanna í Seðlabankanum eru uppurnar, en gerist það þá veitir Seðlabankinn veðlán. Seðlabankinn hefur þá hreinar tekjur af lánviðskiptum í stað þess að greiða hrein vaxtagjöld eins og verið hefur síðustu ár. Hér að neðan má sjá eignir fjármálastofnana hjá Seðlabankanum nema u.þ.b. 390 ma.kr. en þar af falla rúmir 40 ma.kr. undir bindiskyldu. Þessi háa lausafjáreign í Seðlabankanum, í sögulegu samhengi, helgast fyrst og fremst af stífari lausafjárkröfum ásamt því sem mjög lítið framboð hefur hingað til verið af sambærilegum eignum, þ.e. ríkistryggðum bréfum og öðrum veðhæfum skuldabréfum.  


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þrátt fyrir að ekki hafi verið eftirspurn eftir veðlánum síðustu ár þá lækkaði ávöxtunarkrafa sértryggðu bréfanna við reglubreytinguna. Hagstæðari fjármögnunarkjör stuðla að lækkun vaxta á húsnæðismarkaði en einnig að óbreyttu að hærri arðsemi útlána.


Heimildir: Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka 

Útlán bankanna takmarkast ekki aðeins af lausafjárstöðu heldur vega eiginfjárkröfur ekki síður þungt. Eiginfjárkröfur móta stefnu bankanna um eigið fé og ávöxtunarkrafa til eigin fjár mótar útlánakjör. Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið segir: „Krafa um hátt eigið fé sem hlutfall af eignum getur leitt til þess að fjármálaþjónusta verði dýrari en ella þar sem eigið fé er almennt dýrara form fjármögnunar en lántaka. Að öllu jöfnu þurfa bankar að auka vaxtamun þegar eiginfjárkröfur eru auknar.“ Það kann að skjóta skökku við að í sömu mund og reynt er að milda efnahagssamdrátt með lækkun stýrivaxta og rýmkun veðheimilda í veðlánsviðskiptum þá eru eiginfjárkröfur hækkaðar sem eykur aðhald og dregur úr útlánagetu bankakerfisins. 

Eiginfjárkröfur og útlánageta


Heimildir: Englandsbanki, Greiningardeild Arion banka

Þegar að bankar veita lán fer lánsfjárhæðin á skuldahlið bankans en um leið færist skuld lántakanda á eignahliðina. Útlán geta þar með leitt til aukins peningamagns í umferð sem virkar eins og innspýting í hagkerfið en lækkun stýrivaxta á t.a.m. að hafa þau áhrif að örva útlán til viðskiptavina.
Eins og sjá má hér að ofan stækkar efnahagsreikningur banka við aukningu útlána og þar með lækkar eiginfjárhlutfall hans að öðru óbreyttu. Seðlabankinn getur því aðeins aukið hvatann til útlána upp af því marki sem eiginfjárkröfur leyfa. 

Útlánavöxtur veltur á arðsemi

Ef litið er á útlánagetu bankakerfisins að teknu tilliti til eiginfjárkrafna og gert ráð fyrir að eigið fé vaxi ekki, bendir flest til að hægja muni talsvert á útlánavexti. Útlánageta bankanna veltur því að miklu leyti af vexti eiginfjár á næstu misserum en hann þyrfti að vera töluvert meiri en undanfarið til hægt yrði að viðhalda sama útlánavexti. 


Heimildir: Ársreikningar bankanna, Greiningardeild Arion banka

Aukinheldur hefur arðsemi eiginfjár bankanna verið undir arðsemisviðmiðum undanfarið og því ekki fýsilegt frá sjónarhóli eigenda bankanna að viðhalda samskonar útlánavexti og undanfarin ár. Lág arðsemi og hækkun eiginfjárkrafna hefur m.a. stuðlað að því að það sem af er ári hefur hægt töluvert á útlánum bankakerfisins.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þegar að hagkerfið kólnar, arðsemi lána dregst saman og vanskil aukast er hætt við að bæði dragi úr eftirspurn eftir útlánum sem og útlánavilja bankakerfisins sem að öðru óbreyttu eykur hagsveifluna. 
Þar af leiðandi hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti um samtals 75 punkta í vor og sumar og gert sértryggð bréf veðhæf til að vinna á móti þessu og hvetja til frekari útlána sem að óbreyttu eykur peningamagn í umferð.  

Áhrif peninga

Þegar að auka á framleiðslu með auknu peningamagni í umferð koma
mörgum í hug fleyg orð Miltons Friedman um að verðbólga sé alltaf og alls staðar peningalegs eðlis. Friedman var andlit fylgismanna peningastefnu (e. Monetarists) sem varð hvað vinsælust á 8. áratugnum en meginhugsun þeirra má lýsa með einfaldri formúlu: 
MV=PY,
þar sem M er peningamagn í umferð, V er veltuhraði, P er verðlag og Y er VLF að raunvirði. Út frá formúlunni má sjá að aukið peningamagn, að gefnum föstum veltuhraða, leiðir til hagvaxtar, verðbólgu eða bæði. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ef litið er á þróun verðbólgu og breytingu peningamagns í umferð má sjá að sögulega hefur verið nokkur fylgni þar á milli. Fyrir hrun var útlánavöxtur bankanna með ólíkindum sem leiddi til mikils vaxtar peningamagns í umferð á þenslutíma sem ásamt fleiru leiddi til verðbólgu. Ef aftur á móti er litið á vöxt peningamagns í umferð frá 2013-2015 má sjá að verðbólguáhrifin voru mun minni sem skýrist af minni spennu í þjóðarbúinu en fyrir hrun og auðvitað líka styrkingu krónunnar. 

Peningamagn í lágspennu

Verðbólgumarkmið Seðlabankans leiðir til þess að Seðlabankinn er einungis tilbúinn að stíga á bensíngjöfina svo framarlega sem verðbólgan og verðbólguvæntingar eru til friðs. Eins og glöggir lesendur sjá á formúlunni að ofan er verðbólga meðal þeirra þátta sem geta truflað leiðni aukins peningamagns út í aukna landsframleiðslu. Fræðilega ræður staða þjóðarbúsins hverju sinni hvorn farveginn aukið peningamagn tekur. Þegar framleiðsluspenna er mikil ýtir aukið peningamagn undir verðbólgu en þegar hún er á niðurleið eða lítil getur aukið peningamagn leitt til aukins hagvaxtar. 
Nú slaknar mjög hratt á framleiðsluspennu hér á landi og horfur á vinnumarkaði hafa dökknað. Aukið peningamagn hefur því alla burði til að koma að meira leyti fram í auknum hagvexti en aukinni verðbólgu. 
Að lokum þarf svo að taka tillit til veltuhraða en veltuhraði segir einfaldlega hve oft hverri krónu sem er í umferð er eytt yfir ákveðið tímabil. 

 
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þegar að peningamagn tók að vaxa nokkuð hratt upp úr aldamótum dró umtalsvert úr veltuhraðanum. Eftir hrun hefur vöxtur peningamagns verið mun hóflegri og veltuhraðinn haldist nokkuð stöðugur en þó vaxandi. Síðustu tvo ársfjórðunga hefur veltuhraðinn hins vegar farið minnkandi sem er merki um að þátttakendur hagkerfisins sitji lengur á krónunum sínum. Það má ekki lesa of mikið í tvo gagnapunkta enda má sjá að það hefur hægt áður á veltuhraða peninga en svo hefur hann tekið við sér á ný. Það er hins vegar ljóst út frá jöfnunni að ofan að ef veltuhraðinn heldur áfram að minnka mun Seðlabankinn þurfa að ýta undir enn frekari aukningu peningamagns til að ná tilætluðum áhrifum á hagvöxt. Það er því einkar óheppilegt að það sé að hægja jafn hratt og raun ber vitni á útlánavexti bankakerfisins á sama tíma og hagkerfið horfir fram á efnahagssamdrátt.  

Rangur eiginfjárauki á röngum tíma?

Þó er vert að hafa í huga að það er ekki markmið Fjármálaeftirlitsins eða Fjármálastöðugleikaráðs að stuðla að hagvexti heldur að tryggja fjármálastöðugleika. Hækkun eiginfjárkröfu helgast af hækkun svokallaðs sveiflujöfnunarauka en breyting á honum á að taka mið af stöðu fjármálasveiflunnar.
Fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans telur að fjármálasveiflan sé ekki í takt við hagsveifluna og sé í raun enn á uppleið. Þess vegna hafa kröfur um eiginfjárauka vaxið jafnt og þétt síðan árið 2015, núna síðast með 50 punkta hækkun sveiflujöfnunarauka í maí, beint ofan í tíðindi af efnahagssamdrætti, en ákvörðunin hafði verið tekin 12 mánuðum fyrr. Ákvörðunin er skiljanleg í ljósi kröftugs útlánavaxtar um það leyti og fjórðungana á undan. Hins vegar drögum við í efa að fjármálasveiflan sé nú á þeim stað að hægja þurfi á uppsveiflu. Efnahagshorfur hafa snúist býsna hratt eins og t.d. vaxtalækkanir Seðlabankans bera með sér.

Í kjölfar hrunsins jókst áhugi á fjármálasveiflum og þjóðhagsvarúð til muna. Í ljósi þess hve stutt er síðan að akademían sýndi þessu virkilegan áhuga eru kenningarnar enn á nokkru reiki. Eðlilega eykur það óvissuna í kringum mat á fjármálsveiflunni sem til að byrja með er býsna snúið. Almennt hefur þó verið litið á miklar húsnæðisverðshækkanir og aukin útlán sem fyrirboða beygjuskila í fjármálasveiflunni. Því má velta fyrir sér hvort að minnkandi nettó ný útlán bankakerfisins ásamt kólnandi húsnæðismarkaði í kjölfar mikils útlánavaxtar og húsnæðisverðhækkana bendi til að fjármálsveiflan sé að snúa niður á við. 

Tímasetning á lækkun sveiflujöfnunaraukans er jafn mikilvæg og sú tímasetning sem valin er til að auka hann. Sé brugðist of seint við verður fjármálasveiflan meiri en ella og ýkir þar með hagvaxtarsveifluna með tilheyrandi neikvæðum áhrifum. Nú stendur hins vegar til  að sveiflujöfnunaraukinn hækki úr 1,75% í 2% þann 1. febrúar 2020 en sú ákvörðun var tekin 1. febrúar sl. en síðan þá hafa efnahagshorfur gjörbreyst.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vissulega er fjármálasveiflan og hagsveiflan ekki það sama en ofangreindar vísbendingar benda sterklega til að þær séu á sömu leið um þessar mundir. Ef það er hægt að komast hjá hemlun útlána ofan í kólnandi hagkerfi er a.m.k. til mikils að vinna fyrir þjóðarbúið.