Verðbólgan í sumarfrí – spáum óbreyttri vísitölu neysluverðs í júlí

Verðbólgan í sumarfrí – spáum óbreyttri vísitölu neysluverðs í júlí

Við spáum óbreyttri vísitölu neysluverðs í júlí, sem er í takt við bráðabirgðaspá okkar frá síðasta mánuði. Samkvæmt spánni stendur ársverðbólgan í stað í 3,3%. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir, eða nánar tiltekið 8. til 12. Júlí, og niðurstaða mælingarinnar verður birt mánudaginn 22. júlí.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Af helstu liðum spárinnar má nefna að gert er ráð fyrir að flugfargjöld hækki um tæp 24%, sem er hærra en meðalbreyting í júlí undanfarin fimm ár (21,3%). Á móti eru sumarútsölur gengnar í garð sem leiðir til þess að gert er ráð fyrir rúmlega 12% verðlækkunum á fatnaði og skóm (-0,63% áhrif á VNV) og 0,4% lækkun á verði húsgagna. Aðrir liðir hafa minni áhrif að sinni en hafa samtals um 0,2% áhrif til hækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensínverð óbreytt en hækkanir á erlendum mörkuðum

Síðan í júní hefur orðið smávægileg lækkun á verði bensíns og dísil. Bensínverð hefur lækkað um 0,6% en dísil um rúmlega 0,2% (-0,03% áhrif á VNV). Nánast óbreytt verð á bensíni er áhugavert þar sem Brent-olían hefur hækkað um tæp 10% m.v. sama tíma mánuðinn á undan, gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal haldist nánast óbreytt og framvirkir samningar með bensín erlendis benda til um 15% hækkunar. Að vísu hafði olíuverð lækkað hressilega í lok maí/byrjun júní sem hugsanlega skýrir af hverju verðin hérlendis hafa ekki hækkað á milli mánaða.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Verðhjöðnun án flugfargjalda

Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld hækki um tæplega 24% (0,4% áhrif á VNV) í júlí, sem er á milli þess sem tölfræðilíkanið okkar og verðmælingar okkar á netinu benda til um. Tölfræðilíkanið, sem notar söguleg gögn til að spá fyrir um þróun næsta mánaðar, gerir ráð fyrir 18,8% hækkun en verðmæling á netinu sýnir 28% hækkun á verði flugfargjalda.

Nú þegar sjáum við verðlækkun á verði flugfargjalda í ágúst þar sem Hagstofan mælir verðin með 1-2 mánaða fyrirvara. Verðmæling okkar bendir til 32% verðlækkunar í ágúst sem gæti haft um 0,55% áhrif á vísitöluna til lækkunar. Undanfarin fimm ár hafa flugfargjöld lækkað um tæplega 10% að meðaltali í ágúst og því er ólíklegt að lækkunin verði svo mikil sem mælingin gefur til kynna, fyrst og fremst vegna minna flugframboðs til landsins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ásett verð fjölbýlis bendir til raunlækkana

Mæling okkar á þróun ásetts verðs bendir til þess að ásett verð fjölbýlis hafi hækkað um 1% undanfarna 12 mánuði, en á sama tíma hefur verðbólgan verið 3,3%. Ásett verð sérbýlis hefur hækkað um 4% og ásett íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um 9,5%, sem er mikið stökk m.v. síðasta mánuð. Gerð er tilraun til að reikna þróun ásetts verðs eftir því hvort um sé að ræða nýbygginu eða ekki, og benda þeir útreikningar til að fjölbýli sem byggt hefur verið á undanförnum tveimur árum hafi lækkað um 10% m.v. árið á undan. Ásett verð nýlegs húsnæðis, þ.e.a.s. sem hefur verið byggt á undanförnum tíu árum, bendir einnig til verðlækkunar en hún er minni eða um 4%. Hafa skal í huga að samkvæmt mælingum Íbúðalánasjóðs er hlutfall kaupsamninga sem eru undir ásettu verði hátt og hefur hækkað m.v. sama tíma fyrir ári, sem segir okkur að líklega er hér um ofmat að ræða, þ.e. verðhækkanir eru minni/verðlækkanir meiri.

Við gerum því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,25% (0,05% áhrif á VNV) milli mánaða í júlí. Við teljum að draga muni enn frekar úr verðhækkunum fasteignaverðs á næstu misserum en óvíst er hvenær það kemur fram í opinberu mælingunum.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Hvort hefur yfirhöndina, atvinnuleysi eða verðbólga?

Samkvæmt bráðabirgðaspánni helst verðbólgan á bilinu 3,3-3,7% fram á haust. Krónan hefur nú verið nánast óbreytt á móti evru undanfarin mánuð eftir nokkra veikingu á vormánuðum, þróun sem ætti að hafa áhrif til hækkunar verðlags. Á móti fara flugfargjöld nú lækkandi næstu tvo mánuði og verðbólguáhrif fasteignamarkaðar eru hverfandi. Aukinn slaki í hagkerfinu, sem mun líklega ekki koma fram af fullum þunga fyrr en í haust, getur dregið úr eftirspurn í hagkerfinu og haldið aftur af verðhækkunum. Þá hafa verðbólguvæntingar í okkar helstu viðskiptalöndum verið að lækka sem gæti endurspeglast í þróun verðbólgu hér á landi.

  • Ágúst 0,4%: Útsölur ganga til baka, flugfargjöld lækka
  • September 0,4%: Útsölur ganga að fullu til baka, flugfargjöld lækka
  • Október 0,45%: Flugfargjöld hækka og aðrir liðir hækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka