Verðbólgan flýgur undir væntingum - 3,1% verðbólga í júlí

Verðbólgan flýgur undir væntingum - 3,1% verðbólga í júlí

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,21% á milli mánaða í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólgan lækkar þar með í 3,1%, úr 3,3% í júní. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu -0,3% til 0,0% breytingar milli mánaða, en meðalspá þeirra sem birta spár opinberlega var -0,15%. Við spáðum óbreyttri vísitölu. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,42% á milli mánaða og mælist verðbólga án húsnæðisliðarins því 2,8%. 

Að þessu sinni eru það fyrst og fremst tveir undirliðir sem skýra muninn á okkar spá og mælingu Hagstofunnar. Í fyrsta lagi hækkuðu flugfargjöld mun minna en við gerðum ráð fyrir (6,3% í stað 23,9%), sem verður að teljast áhugavert í ljósi þróunar flugframboðs og sætanýtingar t.d. hjá Icelandair. Í öðru lagi lækkaði verð húsgagna og heimilisbúnaðar langtum meira en við væntum (7,8% í stað 0,4% lækkunar), en útsölur á fatnaði og skóm þróuðust í takti við væntingar. 
Af öðrum liðum má nefna að verð á hótelum og veitingastöðum hækkaði nokkuð umfram spá okkar (1,83% í stað 0,6%), sem mögulega má túlka sem leiðréttingu á undirliðnum eftir óvænta verðlækkun í júní. Þá hækkuðu bílar nokkuð meira í verði en við reiknuðum með (1,2% í stað 0%). Aðrir undirliðir þróuðust nokkurn veginn í takti við okkar spá.


 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Minnsta júlíhækkun flugfargjalda til útlanda frá 2013

Flugfargjöld til útlanda hafa lengi reynst greiningaraðilum óþægur ljár í þúfu, enda undirliðurinn mikið ólíkindatól og erfitt að spá í þróun hans milli mánaða. Til þess að spá fyrir um þróun flugfargjalda höfum við notast við verðmælingar á netinu og söguleg gögn. Að þessu sinni gaf verðmæling okkar á netinu til kynna 28% hækkun á verði flugfargjalda á milli mánaða en tölfræðilíkan okkar, sem byggir á sögulegum gögnum, spáði 19% hækkun. Raunin varð hins vegar 6,3% hækkun á verði flugfargjalda til útlanda í júlí, sem er minnsta júlíhækkun frá árinu 2013, þegar flugfargjöld lækkuðu í verði. Þessi niðurstaða úr mælingu Hagstofunnar kemur okkur í opna skjöldu, enda á skjön við væntingar okkar og hornstein hagfræðinnar um framboð og eftirspurn.

Frá falli Wow air í lok mars hefur verðmæling Hagstofunnar gefið til kynna að flugfargjöld fari hækkandi. Í apríl mældist í fyrsta skipti hækkun á verði flugfargjalda á milli ára, en fram að því hafði árstakturinn lækkað í hverjum einasta mánuði frá september 2015. Í júlí mældist aftur lækkun á verði flugfargjalda til útlanda milli ára, þvert á væntingar okkar. Erfitt er að segja til um hvað veldur og hvort um sé að ræða vísi að þróun næstu mánaða. Miðað við stöðuna á flugmarkaði um þessar mundir, fréttir af fækkun flugferða og varnarbaráttu flugfélaga myndi maður ætla að flugfargjöld muni halda áfram að hækka og að júlímánuður gefi ekki forsmekk af því sem koma skal.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Dúndurtilboð á húsgögnum og heimilisbúnaði

Sumarútsölur á fatnaði, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði setja alltaf svip sinn á júlímælingu Hagstofunnar og varð engin breyting þar á í þetta sinn. Séu útsöluáhrifin tekin saman höfðu þau 0,65% áhrif á VNV í júlí til lækkunar. Verð á fatnaði vegur hér þyngst, fyrst og fremst vegna meira vægis í VNV, en alls lækkuðu föt um 11,5% í júlí. Þetta er svipuð lækkun og síðustu ár og í góðum takti við væntingar okkar. Sama er upp á teningnum þegar kemur að útsölum á skóm. Útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði eru hins vegar önnur saga. Alls lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um 7,8% í verði í júlí, sem er hvorki meira né minna en mesta júlílækkun sem mælst hefur frá upphafi mælinga Hagstofunnar á þessum undirlið (2002)! Erfitt er að festa fingur á hvað nákvæmlega veldur þessari þróun, en m.v. hana er að hægt er að gera kjarakaup um þessar mundir ef verið er að taka heimilið að gegn að innan.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðismarkaðurinn í jafnvægi?

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,43% í júlí og þar með lækkar árshækkunartakturinn úr 4,2% niður í 3,5%. Þessi breyting er í takt við tölur Þjóðskrár sem birtar voru í síðustu viku og í raun er útlit fyrir að húsnæðismarkaðurinn sé kominn í ágætis jafnvægi, ef svo má að orði komast. Undanfarna 16 mánuði hefur húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkað hraðar en á höfuðborgarsvæðinu en það skýrist helst af húsnæðisverðshækkunum í “Kraganum” eða gróflega skilgreint bæjarfélögum í, um eða innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborginni. Nú hefur hækkunartaktur húsnæðisverðs utan höfuðborgarsvæðisins hins vegar hefur lækkað nokkuð hratt eða úr 10,3% í maí í 4,9% nú í júlí og því virðist verðlagning á staðsetningu vera að komast í betra jafnvægi.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Horft fram á veginn mun þróun húsnæðisverðs ráðast m.a. af minnkandi nettó útlánum, stígandi atvinnuleysi, auknu framboði og hægari fólksfjölgun. Þrátt fyrir að hreyfing allra þessara stærða undanfarið verið til þess fallin að kæla húsnæðisverð hefur þróunin þó verið mildari en við bjuggumst við. Þrátt fyrri að að skráð atvinnuleysi hafi ekki verið hærra í júní síðan árið 2013 stendur það aðeins í 3,4%, að meðaltali hafa tæplega 380 erlendir ríkisborgarar flutt til landsins, umfram brottflutta, í mánuði sem samsvarar u.þ.b. 4.500 manns á ársgrunni og þó að hægt hafi á útlánum þá hefur dregið mun meira úr útlánum til fyrirtækja en heimila.
Nú þegar að lögbundnar eiginfjárkröfur eru farnar að herða að bankakerfinu er meira svigrúm til vaxtar í íbúðalánum sem binda að jafnaði minna eigið fé en önnur útlán. Þetta endurspeglast í því að ef útlánahraðinn verður sá sami út árið og fyrstu fimm mánuði ársins munu nettó ný útlán banka og lífeyrissjóða til fyrirtækja dragast saman um 38% en aðeins um 12% til heimila. Því er í raun líklegt að minnkandi útlán hafi mun minni, ef einhver neikvæð áhrif á húsnæðisverð, þar sem þessi þróun er til þess fallin að draga meira úr framboði en eftirspurn. Þrátt fyrir það teljum við að dagar húsnæðisliðarins sem stórstjörnu verðbólguteymisins séu liðnir og framundan séu mjög hóflegar húsnæðisverðshækkanir.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innfluttar vörur bera ábyrgð á rúmlega þriðjungi verðbólgunnar

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig verðbólgan er samsett. Á þessu ári hefur vægi húsnæðisliðarins í verðbólgunni minnkað með hverjum mánuði, og er svo komið að húsnæðisliðurinn er ábyrgur fyrir tæplega 0,7 prósentustigum af árstaktinum. Á sama tíma hefur vægi innfluttra vara aukist, og ekki að undra þar sem gengi krónunnar hefur veikst töluvert frá síðasta hausti. Innfluttar vörur eru nú ábyrgar fyrir rúmlega þriðjungi verðbólgunnar, og þar af leiðandi dráttarklár verðbólgunnar. Húsnæðisliðurinn, sem hefur haldið öðru sætinu síðustu mánuði, þarf hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir innlendum vörum og grænmeti, sem bera ábyrgð á 0,7 prósentustigum af árstaktinum, og hafa ekki vegið jafn mikið frá árinu 2013.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Stöðugar horfur

Horft fram á veginn má ætla að dyntir flugliðarins muni hafa þó nokkur áhrif á verðbólguna. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkuðu flugfargjöld lítið í júní og júlí, þvert á væntingar okkar, og því teljum við að þessi liður eigi inni hækkun á komandi mánuðum. Flugfargjöld hafa verið sögulega lág síðustu ár og fréttir af flugmarkaðinum benda til þess að flugfélög horfi nú frekar til flugfargjalda en framboðsaukningar. Sem fyrr þá breytist flugmarkaðurinn hratt og aukið framboð t.d. með nýjum flugfélögum eða flugtaki Boeing Max 737 véla myndi breyta myndinni. Hvort, hvernig og þá hvenær það gerist er hins vegar erfitt fyrir okkur að spá fyrir um.

Að okkar mati eru litlar fasteignaverðshækkanir í farvatninu og lækkun vaxta gæti áfram haft áhrif á reiknaða húsaleigu til lækkunar vegna lækkandi greiðslubyrði á nýjum lánum. Innfluttar vörur hafa undanfarið tekið við keflinu af húsnæðisliðnum sem stærsti áhrifavaldurinn í VNV, fyrst og fremst vegna veikingar krónunnar. Styrking krónunnar um rúmlega prósent frá byrjun síðustu viku er hins vegar til þess fallin að hægja á verðhækkunum innlendra vara, ásamt útliti fyrir hægari efnahagsumsvifum í helstu viðskiptalöndum okkar og lítilli verðbólgu.

Við teljum að verðbólgan muni haldast fyrir ofan 3% fram á haust en bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði lítur svona út:

  • Ágúst 0,45%: Útsöluáhrif ganga til baka, flugfargjöld lækka í lok sumars.
  • September 0,40%: Útsölur ganga til baka, flugfargjöld lækka.
  • Október 0,45%: Flugfargjöld hækka.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka