Hagspá að sumri: Bót með böli

Hagspá að sumri: Bót með böli

Þrátt fyrir bjartari horfur í ár eru skilaboðin þau sömu og í mars, þegar síðasta hagspá Greiningardeildar var kynnt: Útlit er fyrir að hagvaxtartímabilið líði undir lok á þessu ári og að viðsnúningurinn á því næsta fari hægt af stað. Helstu niðurstöður uppfærðrar hagspár eru: 

  • Við spáum 0,9% efnahagssamdrætti í ár, fyrst og fremst vegna útflutningssamdráttar. Til samanburðar spáðum við 1,9% samdrætti í mars, en ýmislegt hefur þróast á hagfelldari hátt en við reiknuðum með síðan þá.
  • Stærstu breytingarnar frá síðustu hagspá eru að tekjusamdráttur ferðaþjónustunnar virðist minni en við óttuðumst, samið var um hóflegri beinar launahækkanir en við væntum og leiðréttar kortaveltutölur Seðlabankans benda til kraftmeiri einkaneyslu en áður var talið. Þá var hagvöxtur á fyrsta fjórðungi kröftugri en við spáðum.
  • Við gerum ráð fyrir að viðsnúningurinn fari hægt af stað og að landsframleiðslan vaxi um 1,0% á næsta ári. Einkaneyslan verður ein helsta driffjöður hagvaxtar, studd áfram af raunlaunahækkunum á meðan stígandi atvinnuleysi vinnur á móti. 
  • Ferðamannaspá okkar hefur tekið litlum breytingum frá því í mars. Gert er ráð fyrir 15% samdrætti í komum erlendra ferðamanna.
  • Þrátt fyrir kröftugan vöxt íbúðafjárfestingar í ár teljum við að fjárfesting muni dragast saman, fyrst og fremst vegna samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu. Reiknað er með óverulegum fjárfestingarvexti út spátímann.
  • Við spáum jákvæðum viðskiptajöfnuði út spátímann. Útlit er fyrir að innflutningur dragist saman í ár, sem endurspeglar hægari innlendan neysluvöxt.
  • Við reiknum með að krónan sveiflist á þröngu bili út árið, þar sem búið er að verðleggja efnahagssamdráttinn að mestu inn í gengi krónunnar, en styrkist lítilsháttar á næsta ári.
  • Verðbólguhorfur hafa batnað umtalsvert frá því í mars, bæði vegna sterkari krónu og hóflegri launahækkana. Þrátt fyrir að verðbólgan verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans helst hún vel innan vikmarka, sem opnar á frekari vaxtalækkanir.

Hagspá: Bót með böli