Útsölur dragast á langinn - spáum 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í ágúst

Útsölur dragast á langinn - spáum 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í ágúst

Við spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í ágúst, sem er lækkun frá bráðabirgðaspá okkar sem hljóðaði upp á 0,4% hækkun vísitölunnar. Samkvæmt spánni hækkar ársverðbólgan í 3,2%, úr 3,1%. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir, eða nánar tiltekið 12. til 16. ágúst, og niðurstaða mælingarinnar verður birt mánudaginn 29. ágúst.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Af helstu hækkunarliðum spárinnar má nefna að útsöluáhrif ganga lítillega til baka, bæði á verði fatnaðar og húsgagna, greidd og reiknuð húsaleiga hafa áfram jákvæð áhrif á vísitöluna til hækkunar, þrátt fyrir að dregið hafi úr framlaginu m.v. undanfarin ár, matarkarfan hækkar og verðmæling á netinu bendir til að listaverð á nýjum bílum hafi hækkað hjá bílaumboðum. Þó verðmæling okkar bendi til 0,4% hækkunar á verði nýrra bíla veltum við fyrir okkur hvort mælingin endurspegli stöðuna á markaðnum í heild sinni. Þannig virðist sala á bílum vera að dragast saman og einhver bílaumboð hafa gripið til uppsagna, sem dregur úr líkunum á verðhækkunum.

Aðeins tveir undirliðir vinna til lækkunar á vísitölunni að þessu sinni, en við teljum að  verð á flugfargjöldum lækki um 5% og verð á eldsneyti um rúmlega 1%.

Verður útsölulokum frestað?

Sögulega séð ganga sumarútsöluáhrif fatnaðar til baka í ágúst-september, þegar haustlínurnar fylla smátt og smátt búðir og útsölurekkarnir hverfa. Fram til ársins 2016 gekk rúmlega helmingur af útsöluáhrifum til baka í ágúst og afgangurinn hvarf í september. Undanfarin tvö ár hefur hins vegar annað verið upp á teningnum, útsölulok virðist seinni á ferðinni og því aðeins um fimmtungur útsöluáhrifa sem hefur gengið til baka í ágúst á undanförnum tveimur árum. Við teljum að árið í ár verði einhverskonar millivegur farinn og gerum því ráð fyrir að um þriðjungur af útsöluáhrifunum gangi til baka nú í ágúst, eða um 4%, sem hefur 0,17% áhrif til hækkunar vísitölunnar. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samanburð á sumarútsöluáhrifum og þess hluta sem gengur til baka í ágúst hvers árs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensínverð lækkar og eltir lækkanir á erlendum mörkuðum

Síðan í júlí hefur krónan styrkst á móti dollar um 1,6%. Á sama tíma hefur framvirkt verð á bensíni í Bandaríkjunum lækkað um 9,6% og verð á norðursjávarolíu lækkað um 6,4%. Samkvæmt verðmælingu okkar hefur smásöluverð á bensíni lækkað um 1% og verð á dísil lækkaði um 1,4% (-0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Gestaþrautin þennan mánuðinn:  Breyting á verði flugfargjalda

Í síðasta mánuði spáðum við því að verð á flugfargjöldum myndi hækka um 18,8% en mæling Hagstofunnar nam 6,3%, sem samsvarar um þriðjungi af væntri hækkun.  Mælingin er langt frá þróun undanfarinna ára, en síðustu 5 ár hefur verð á flugfargjöldum hækkað um 21% að meðaltali í júlí. Í ljósi lítillar verðhækkunar í júlí gerum við ráð fyrir að lækkunin sem á sér stað í ágúst og í haust verði einnig minni en undanfarin ár.

Spáin gerir ráð fyrir að flugfargjöld lækki um tæplega 5,5% (0,1% áhrif á VNV) í ágúst, sem er í takt við tölfræðilíkanið okkar á meðan verðmæling á netinu bendir til meiri lækkunar. Undanfarin fimm ár hefur lækkun flugfargjalda í ágúst verið að meðaltali 7,6%.

Nú þegar sjáum við verðlækkun á verði flugfargjalda í september þar sem Hagstofan mælir verðin með 1-2 mánaða fyrirvara. Verðmæling okkar bendir til 4% verðlækkunar í september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ásett verð fjölbýlis bendir til raunlækkana

Mæling okkar á þróun ásetts verðs bendir til þess að ásett verð fjölbýlis hafi hækkað um 2,5% undanfarna 12 mánuði. Á sama tíma hefur verðbólgan verið 3,1%, sem þýðir að þróun ásetts verðs bendir til raunlækkana. Ásett verð sérbýlis hefur hækkað um 4% og íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um 5,5%, sem er stökk niður á við m.v. síðasta mánuð. Hafa skal í huga að samkvæmt mælingum Íbúðalánasjóðs er hlutfall kaupsamninga sem eru undir ásettu verði hátt og hefur hækkað m.v. sama tíma fyrir ári, sem segir okkur að líklega er hér um ofmat að ræða, þ.e. verðhækkanir eru minni en þróun ásetts verðs gefur tilefni til að ætla.

Við gerum því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,25% (0,05% áhrif á VNV). Við teljum að draga muni enn frekar úr verðhækkunum fasteignaverðs á næstu misserum en óvíst er hvenær það kemur fram í opinberu mælingunum.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Gerð er tilraun til að reikna þróun ásetts verðs eftir því hvort um sé að ræða nýbygginu eða ekki, og benda þeir útreikningar til að ásett verð fjölbýlis sem byggt hefur verið á undanförnum tveimur árum hafi lækkað um 8% m.v. árið á undan. Ásett verð nýlegs húsnæðis, sem hefur verið byggt á undanförnum tíu árum, bendir til að ásett verð hafi staðið í stað undanfarna 12 mánuði. Ekki er gæðaleiðrétt heldur einungis horft til byggingarárs og hver þróun ásetts verðs var.

Heimildir: fasteignir.is, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Hvort hefur yfirhöndina, atvinnuleysi eða verðbólga?

Gengisvísitala krónunnar hefur styrkst um 3% undanfarinn mánuðinn og hátíðni vísbendingar benda frekar til að samdrátturinn verði styttri og grynnri en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að ferðamönnum sé að fækka þá dvelur hver og einn lengur að jafnaði og neytir meiru, bæði í krónum og erlendri mynt samanborið við síðasta ár.  Að vísu hefur atvinnuleysi farið hækkandi, og hefur ekki verið meira atvinnuleysi í júlí síðan 2013.

Aukinn slaki í hagkerfinu, sem mun líklega ekki koma fram af fullum þunga fyrr en í haust, getur dregið úr eftirspurn og haldið aftur af verðhækkunum. Þá hafa verðbólguvæntingar í okkar helstu viðskiptalöndum verið að lækka sem gæti endurspeglast í þróun verðbólgu hér á landi, en sem dæmi þá hefur verðbólguálag á bandarískum ríkisskuldabréfum til fimm ára, lækkað um 0,25% síðan um miðjan júlí, í tæplega 1,4%.

Samkvæmt spánni helst árstakturinn á bilinu 3,2-3,4% fram á haust, sem er lægra en bráðabirgðaspáin gerði ráð fyrir í síðasta mánuði, en þá var gert ráð fyrri að hún myndi fara hæst í 3,7%.

  • September 0,4%: Útsölur ganga að fullu til baka, flugfargjöld lækka, ýmsir liðir eiga það til að hækka á haustin
  • Október 0,4%: Flugfargjöld hækka og ýmsar hausthækkanir
  • Nóvember 0,0%: Litlar verðbreytingar

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka