Seðlabankastjóri stimplar sig inn með vaxtalækkun

Seðlabankastjóri stimplar sig inn með vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun koma saman í byrjun næstu viku og ákveða meginvexti bankans. Þetta er fyrsti fundur nefndarinnar eftir sumarfrí, og það sem meira er, fyrsti fundur með nýjan skipstjóra í brúnni þar sem Ásgeir Jónsson tók við embætti Seðlabankastjóra sl. þriðjudag. Þó yfirbragð nefndarinnar hafi tekið breytingum frá síðasta fundi, sem var í lok júní, hefur stóra myndin í efnahagsmálum lítið breyst. Nýjustu tölur úr ferðaþjónustunni benda enn þá til þess að samdráttur í greininni verði meiri en Seðlabankinn spáði í maí, verðbólga og verðbólguvæntingar eru enn þá yfir verðbólgumarkmiði og kjarasamningum við opinbera starfsmenn er ólokið. Sökum þessa teljum við að sömu valkostir standa nefndinni til boða og í júní, að lækka vexti um 25 punkta eða að staldra frekar við og halda vöxtum óbreyttum. Miðað við innkomu nýs seðlabankastjóra og ummæla hans í fjölmiðlum síðastliðna daga teljum við að hann muni leggja til 25 punkta vaxtalækkun, sem nefndin muni samþykkja, þó ekki einróma frekar en raunin varð í júní.

Jafnvel þó flest af þeim rökum sem tínd voru til í júní eigi enn þá við, bæði til lækkunar og óbreyttra vaxta, hafa nýjustu tölur verið vaxtadúfum hliðhollari. Þannig hefur gengi krónunnar styrkst frá síðasta fundi, verðbólgan hjaðnað, verðbólguvæntingar markaðsaðila lækkað og taumhald peningastefnunnar aukist. Þá kæmi okkur ekki á óvart ef Seðlabankinn færir efnahagsspá sína, sem birt verður samhliða vaxtaákvörðuninni, niður á við í ljósi meiri fækkunar ferðamanna en spáð var í maí. Vaxtadúfurnar koma því betur undan sumri en haukarnir, ásamt því að hafa fengið góðan liðsauka með skipan nýs seðlabankastjóra.

 

Tónninn og taumhaldið

Síðasta yfirlýsing nefndarinnar vakti nokkra athygli fyrir harðan tón og kjarnyrtan texta. Fyrirfram töldum við, ásamt markaðinum að því virðist, að dúfnakurrið yrði í forgrunni og að 50 punkta lækkun á boðstólnum. Haukslegri valkostir og orðaval nefndarinnar komu okkur því dálítið á óvart, sérstaklega þar sem líkurnar á meiri samdrætti en grunnspá Seðlabankans gerði ráð fyrir höfðu aukist. Fróðlegt verður að sjá hvort koma nýs seðlabankastjóra setji svip sinn á yfirlýsingu nefndarinnar og hvort sumarsólin hafi mýkt aðra nefndarmenn.

Úr síðustu yfirlýsingu og fundargerð má lesa að það voru ekki aðeins versnandi efnahagshorfur, eða batnandi verðbólguhorfur sem hvöttu nefndina til aðgerða, heldur einnig, og ekki síður, aukið taumhald peningastefnunnar. Samkvæmt síðustu fundargerð kemur fram að raunvextir bankans voru 0,7% miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða við síðustu vaxtaákvörðun, og höfðu hækkað lítilsháttar frá birtingu vaxtaákvörðunar í maí. Það sama er upp á teningnum að þessu sinni, taumhald peningastefnunnar hefur aukist lítilsháttar frá síðustu vaxtaákvörðun, að því gefnu að verðbólguspá Seðlabankans taki ekki stórvægilegum breytingum. Ef nefndin er samkvæm sjálfri sér ætti harðara taumhald eitt og sér að nægja til vaxtalækkunar. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Krónan setur (líklega) ekki strik í reikninginn

Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar kom fram að verðbólguþróun væri enn sem komið er í samræmi við spá Seðlabankans en spáin gerir ráð fyrir að verðbólgan hafi náð hámarki og muni taka að hjaðna í átt að markmiði. Í beinu framhaldi var hins vegar nefnt að ef gengi krónunnar héldi áfram að veikjast gæti það sett strik í reikninginn, en þá var krónan 4,2% veikari en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hún verði að meðaltali í ár. Síðan þá hefur krónan styrkst um 2,5% og því má segja að þetta yfirvofandi strik í verðbólgureikningnum hafi verið strokað út í bili.


Heimildir: Seðlabanki Íslaqnds, Greiningardeild Arion banka

Spáð í spánna: Verður vaxtalækkun rökstudd með meiri samdrætti?

Samhliða vaxtaákvörðuninni mun Seðlabankinn birta nýja verðbólgu- og efnahagsspá. Sem fyrr bíðum við óþreyjufull eftir spánni, enda verður hún til hliðsjónar við þessa og næstu vaxtaákvörðun, sem er í október. Síðasta þjóðhagsspá bankans, sem kom út í maí, gerir ráð fyrir grunnum og skammvinnum efnahagssamdrætti í ár, þ.e.a.s. að landsframleiðslan muni dragast saman um 0,4% í ár en aukast strax á næsta ári um 2,4%. Við erum nokkuð svartsýnni á efnahagsþróunina og gerir uppfærð hagspá okkar ráð fyrir 0,9% samdrætti í ár og aðeins 1% hagvexti á næsta ári.

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hver lending Seðlabankans verður varðandi þjóðhagsspánna. Jafnvel þó ferðamenn virðast eyðsluglaðari en áður er útlit fyrir að útflutningssamdrátturinn gæti orðið meiri en bankinn spáði í maí, bæði vegna meiri fækkunar ferðamanna en þá var gert ráð fyrir og þrenginga í álframleiðslu. Á móti kemur að leiðandi vísbendingar einkaneyslu benda til áframhaldandi vaxtar, þrátt fyrir stígandi atvinnuleysi, sem gæti vegið á móti útflutningssamdrættinum að einhverju leyti. Verði spáin hins vegar færð niður á við er auðvelt að nota slíka breytingu til rökstuðnings vaxtalækkunar. Þá verður einnig áhugavert að sjá hvort sýn bankans á viðsnúning hagkerfisins haldist óbreytt. Samkvæmt hinum ýmsu rannsóknum tekur miðlunarferli peningastefnunnar tíma og áhrifa á innlenda eftirspurn gætir ekki fyrr en eftir u.þ.b. hálft ár, þó mikil óvissa ríki um tímarammann og miðlunarferlið á hverjum tíma. Nefndin þarf því að vera framsýn þegar vextir eru ákvarðaðir. Eins og staðan er í dag er Seðlabankinn að spá 2,4% hagvexti á næsta ári, 4,3% vexti þjóðarútgjalda og engum framleiðsluslaka, né spennu. Haldist framtíðarsýn bankans óbreytt er því erfitt að teikna upp margar vaxtalækkanir til viðbótar, ekki nema sýn nefndarinnar á jafnvægisraunvexti sé breytt. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands