Utanríkisverslun á 2F: Innflutt þjónusta stelur senunni

Utanríkisverslun á 2F: Innflutt þjónusta stelur senunni

Hagstofa Íslands birti í morgun utanríkisverslunartölur fyrir annan ársfjórðung (2F) 2019. Þetta eru fyrstu stóru hagtölurnar, ef svo mætti að orði komast, sem eru birtar eftir gjaldþrot WOW air. Birtingu talnanna var þar af leiðandi beðið með töluverðri eftirvæntingu, hvaða áhrif myndi gjaldþrotið hafa á þjónustuafganginn? Stutta svarið, lítil! Reyndar sýna tölur Hagstofunnar svo mikinn samdrátt í innfluttri þjónustu að ef þær standast, og framhaldið verður á sömu nótum, munu utanríkisviðskiptin í ár verða mun hagstæðari heldur en bjartsýnustu greinendur þorðu að vona. Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam afgangur af þjónustuviðskiptum 52 ma.kr., sem samsvarar eingöngu 10% samdrætti á milli ára, á föstu gengi. Á breytilegu gengi jókst hins vegar afgangurinn um 700 milljónir króna, eða 1,4%, þar sem gengi krónunnar er töluvert veikara en það var á 2F 2018. Þetta er ívið betri niðurstaða en við þorðum að vona, en spá okkar hljóðaði upp á 26 ma.kr. afgang. Að þessu sinni var það innflutt þjónusta sem kom okkur í opna skjöldu, en hversu mikill samdrátturinn reyndist milli ára er ráðgáta sem við höfum ekki ennþá komist til botns í.

Viðnámsþróttur ferðaþjónustunnar í takti við væntingar

Í ljósi mikils kortaveltuvaxtar á hvern ferðamann samanborið við árið 2018, lengri dvalartíma og veikari krónu var útséð að ferðalög, eða heildarneysla ferðamanna, myndi dragast minna saman en nemur fækkun ferðamanna. Sú varð raunin, og gott betur en það, þar sem neysla ferðamanna jókst um 0,1% milli ára á breytilegu gengi, þrátt fyrir 19,2% fækkun ferðamanna. Þessi aukning er í góðu samræmi við okkar spá og væntingar. Þrátt fyrir það reyndist útflutt þjónusta 6 ma.kr. meiri á 2F en við reiknuðum með, sem verður þó að teljast innan skekkjumarka. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan felst munurinn í farþegaflutningum með flugi, sem reyndust sterkari en við áttum von á. Fyrirfram reiknuðum við með nær 40% samdrætti, á föstu gengi, en raunin varð tæplega 30% samdráttur. Betri niðurstöðu en við reiknuðum með má mögulega rekja til hærri meðalflugfargjalda hjá Icelandair. 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og áður sagði jókst neysla ferðamanna um 0,1% milli ára, í krónum talið, þrátt fyrir 19,2% fækkun ferðamanna. Það þýðir að hver og einn ferðamaður eyddi 24% fleiri krónum á 2F en á sama tíma í fyrra. Þróunin er ennþá merkilegri ef leiðrétt er fyrir gengi krónunnar, sem er veikara en það var á 2F 2018. Þá kemur í ljós að hver og einn ferðamaður eyddi að jafnaði 10% meiru í sinni eigin mynt en á sama tíma árið áður! Að einhverju leyti má skýra þennan viðsnúning með breyttri samsetningu ferðamanna og lengri dvalartíma. Einnig má vera að bjögunin sem verið hefur í ferðamannatalningu Ferðamálastofu sé minni en áður, þ.e.a.s. opinberar ferðamannatölur gefi nú réttari mynd af raunverulegum fjölda ferðamanna sem sækja landið heim. Hver sem ástæðan er teljum við að þessi þróun sé vísir að seinni helmingi ársins og að áfram muni mælast verulegur vöxtur milli ára í neyslu hvers ferðamanns.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þjónustuafgangurinn > viðskiptahallinn

Eins og áður sagði nam afgangur af þjónustuviðskiptum 52 ma.kr. á 2F, samanborið við 58 ma.kr. árið áður, á föstu gengi. Á móti vegur að vöruskiptahallinn nam 43 ma.kr. sem er tæplega 16 ma.kr. minni halli en á sama tíma fyrir ári síðan, á föstu gengi. Af þeim sökum eykst afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum milli ára, úr 500 m.kr. halla í 9,4 ma.kr. afgang. Rétt er að benda á að minni vöruskiptahalla má ekki rekja til sterkari vöruútflutnings, heldur fyrst og fremst samdráttar í vöruinnflutningi, þá aðallega neysluvörum og flutningatækjum.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan voru það hins vegar ekki vöruskiptin sem komu á óvart, enda lágu tölurnar nokkurn veginn fyrir þegar síðasta hagspá var birt, heldur þjónustuviðskiptin, og þá fyrst og fremst þjónustuinnflutningur sem reyndist tæplega 20 ma.kr. minni en við gerðum ráð fyrir. Mikill innflutningssamdráttur fer langleiðina með að skýra af hverju við vanspáðum þjónustujöfnuði jafn mikið og raun ber vitni. Við setjum þó ákveðið spurningamerki við innflutningssamdráttinn á 2F, hvað býr þar að baki og hvað hann segir um utanríkisviðskipti á komandi ársfjórðungum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Getur samdráttur í innfluttri þjónustu leitt til hagvaxtar?

Innflutt þjónusta dróst saman um 15% milli ára, á föstu gengi. Þetta er umtalsvert meiri samdráttur en við reiknuðum með í okkar hagspá sem kom út um miðjan ágúst. Það var viðbúið að innflutt þjónusta myndi dragast saman á 2F þar sem utanlandsferðum Íslendinga fækkaði um 2,2%. Þá lá einnig fyrir að rekstrarleiga flugvéla myndi dragast saman milli ára í kjölfar brotthvarfs WOW air og Primera air, jafnvel þó Icelandair hafi bætt við sig leiguvélum til að bregðast við kyrrsetningu Max vélanna. Hversu mikið samdrátturinn í undirliðnum Önnur viðskiptaþjónusta, sem nær m.a. yfir rekstrarleigu flugvéla, kemur okkur hins vegar nokkuð á óvart.

Á föstu gengi nemur samdráttur annarrar viðskiptaþjónustu rúmum 12 ma.kr. milli ára. Okkur skilst að samdráttinn megi fyrst og fremst rekja til WOW air og Primera air. Sé það raunin er ekki um einskiptislið að ræða, heldur mun sambærilegur samdráttur líklega vera raunin á þriðja ársfjórðungi. Það sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir er að þetta virðist mun hærri upphæð en við væntum að t.d. WOW air hafi greitt í rekstrarleigu flugvéla. Mögulega er okkur að yfirsjást einhverjar aðrar breytingar, en ljóst er að erfitt er að reikna sig upp í 12 ma.kr. breytingu milli ára, bara út frá rekstrarleigu. Því veltum við fyrir okkur hvort eitthvað annað eigi hér sök að máli og hvort um einskiptislið sé að ræða.

Af hverju skiptir þetta svona miklu máli? Af því að samdráttur í innflutningi hefur jákvæð áhrif á hagvöxt, að minnsta kosti til skemmri tíma. Innflutningur dróst saman um 8,1% á fyrsta fjórðungi, á föstu gengi og verðlagi. Miðað við bráðabirgðatölurnar má reikna með að samdrátturinn á 2F verði ennþá meiri. Sé það raunin, og ef samdrátturinn í innfluttri þjónustu er kominn til að vera út árið, er ljóst að greiningaraðilar eru að vanmeta innflutningssamdrátt ársins allverulega. Það þýðir, að öðru óbreyttu, að efnahagssamdráttur ársins sé ofmetinn. Standi bráðabirgðatölurnar óbreyttar kæmi okkur ekki á óvart að landsframleiðslutölurnar sem birtar verða nk. föstudag sýni hagvöxt á 2F, þrátt fyrir gjaldþrot WOW air, fækkun ferðamanna um 19% og aukið atvinnuleysi.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, hagspár greiningaraðila