Hingað og ekki lengra? 25 punkta vaxtalækkun og dúfnakurrið kæft

Hingað og ekki lengra? 25 punkta vaxtalækkun og dúfnakurrið kæft

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,25 prósentustig, úr 3,75% niður í 3,5%. Ákvörðunin er í samræmi við væntingar greiningaraðila, sem fyrirfram höfðu allir spáð vaxtalækkun. Líkt og í júní var ákvörðunin rökstudd af auknu taumhaldi peningastefnunnar milli funda, þar sem verðbólguvæntingar hafa lækkað í markmið, en einnig hafa verðbólguhorfur batnað umtalsvert samkvæmt nýrri spá Seðlabankans. Hraðari hjöðnun verðbólgunnar og virkt akkeri verðbólguvæntinga vega því á móti minni efnahagssamdrætti en spáð var í maí.

Að rýna í hvert orð, setningaskipan og málfar er fastur liður í vinnu greinenda á vaxtaákvörðunarmiðvikudögum. Að þessu sinni er yfirlýsingin tiltölulega þurr og lítið um feita bita. Í rauninni má segja að það sem yfirlýsingin segir ekki veki meiri athygli en það sem hún segir, þar sem framsýna leiðsögnin hefur tekið umtalsverðum breytingum og dúfnakurrið þaggað niður. Vissulega ræðst framvindan af „samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar“, rétt eins og jörðin snýst um sólina, en ekki er minnst einu orði á töluvert svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum, líkt og verið hefur við síðustu tvær vaxtaákvarðanir.

Við spyrjum því, er svigrúmið uppurið? Samkvæmt svörum aðalhagfræðings og seðlabankastjóra í morgun þá er vissulega hægt að lækka vexti meira, en verði launahækkanir meiri eða verðbólguþrýstingur meiri en bankinn reiknar með gæti nefndin þurft að staldra við eða herða aftur taumhaldið. Með öðrum orðum, það er ekki lengur á vísan að róa að nefndin haldi áfram að lækka vexti, ólíkt því sem verið hefur síðustu þrjár vaxtaákvarðanir.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Íslenskt, já takk – þú veist hvaðan það kemur

Nýtt rit Peningamála leit dagsins ljós í morgun og var það mun áhugaverðari lesning en yfirlýsing nefndarinnar í þetta sinn. Nokkur breyting hefur orðið á þjóðhagsspá bankans frá því í maí. Spáð er lítilsháttar minni efnahagssamdrætti en áður, eða 0,2% samanborið við 0,4% í maí, og það þrátt fyrir meiri fækkun ferðamanna, og þar af leiðandi meiri útflutningssamdrátt, en áður var gert ráð fyrir. Ástæðuna fyrir minni samdrætti, og tiltölulega mjúkri lengingu eins og seðlabankastjóri komst að orði í skýringarmyndbandi vaxtaákvörðunar, má rekja til kraftmeiri einkaneysluvaxtar og meiri innflutningssamdráttar en áður varð talið. Hið rúmlega aldafjórðungsgamla átak, „Íslenskt, já takk“ virðist því enn vera árangursríkt og í fullu fjöri, þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu.

Í sjálfu sér er lítið í nýrri þjóðhagsspá bankans sem kemur á óvart. Seðlabankinn er nokkuð bjartsýnni en við á einkaneysluna og útflutningssamdráttinn, og þar af leiðandi efnahagssamdráttinn, en við höfum þó talað opinskátt um að líklegra sé að við séum að vanmeta einkaneysluvöxtinn heldur en hitt. Það sem hins vegar vekur athygli okkar í uppfærðri spá er að bankinn telur að landsframleiðslan hafi dregist saman um tæplega 1% á öðrum ársfjórðungi. Á kynningarfundinum í morgun viðurkenndi aðalhagfræðingur bankans að innflutningssamdráttur á öðrum ársfjórðungi hefði verið heldur meiri en spáin gerir ráð fyrir, sem ætti þá að leiða til þess að efnahagssamdrátturinn hafi orðið minni á fjórðungnum. Líkt og við fjölluðum um í Markaðspunkti í gær kom svo mikill samdráttur okkur einnig í opna skjöldu. Við veltum því fyrir okkur hvort samdrátturinn verði minni á öðrum ársfjórðungi en bankinn reiknar með. Verði það raunin gæti það ýtt nýrri spá bankans upp fyrir núllið og upp í hagvöxt í ár, sem gæti sett stein í götu frekari vaxtalækkana.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands

Verðbólguspá lækkar

Verðbólguhorfur hafa batnað að undanförnu og ýmis jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar þróun verðbólgunnar. Takturinn m.v. síðustu mælingu Hagstofunnar er 3,1%, en var 3,4% í lok fyrsta ársfjórðungs. Kjarnaverðbólga hefur einnig lækkað, sem bendir til þess að undirliggjandi verðbólga fari lækkandi, og að ástæða lækkandi verðbólgu sé ekki lækkun einstakra sveiflukenndra liða heldur verðlag sé einfaldlega að hækka minna en gert var ráð fyrir fyrir nokkrum mánuðum. Þessu til samræmis hefur Seðlabankinn lækkað verðbólguspá sína, annað skipti í röð.

Verðbólguheimurinn er hins vegar ekki aðeins dans á rósum, þar sem innlendur verðbólguþrýstingur hefur hækkað undanfarna mánuði, væntanlega vegna launahækkana og dýrari innfluttra aðfanga. Peningastefnunefnd hlýtur að horfa hvað mest á þennan lið verðbólgunnar því þróun hans ætti að gefa til kynna stöðuna á framleiðsluspennu og launaskriði, á meðan innflutt verðbólga einkennist að miklu leyti af erlendu verðlagi og þróunar krónunnar.

Ákveðinn þungi var á verðbólguvæntingum markaðsaðila og heimila í kynningu aðalhagfræðings í morgun, sem kemur ekki á óvart þar sem verðbólguvæntingar skipta miklu máli varðandi ákvarðanir um næstu skref stýrivaxta. Verðbólguvæntingar heimila eru óbreyttar á milli mælinga en væntingar stjórnenda og markaðsaðila til eins árs lækka í 3%. Langtímaverðbólguvæntingar markaðsaðila til 5 ára eru komnar í 2,5% (þ.e. gera ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 2,5% næstu 5 árin), og sömuleiðis væntingar þeirra til 10 ára, sem hlýtur að teljast mikill sigur fyrir bankann og nefndina.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Taylor segir áfram gakk

Með síðustu tveimur vaxtalækkunum hefur peningastefnunefnd haldið áfram að feta braut Taylor-ferilsins. Þetta sést skýrt á myndinni hér að neðan, þar sem veðlánavextir falla eins og flís við rass að metnum vöxtum samkvæmt Taylor-ferlinum. Líkt og við höfum áður bent á er Taylor-ferillinn ekki vaxtaspá heldur eitt af fjölmörgum greiningartækjum peningastefnunefndar. Hér er því ekki um okkar formlegu spá að ræða, aðeins leik að tölum.

Miðað við brakandi nýja þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans bendir Taylor-ferillinn til frekari vaxtalækkana á árinu, eða 50 punkta til viðbótar. Jafnvel þó ný þjóðhagsspá Seðlabankans geri ráð fyrir meiri samdrætti ferðaþjónustunnar í ár og hægari bata en áður var talið, teljum við að enn sé spáð það miklum hagvexti og vexti þjóðarútgjalda á næsta ára að ekki sé svigrúm til 50 punkta vaxtalækkunar á næstu fjórum mánuðum. Tónn nefndarinnar styður þessa skoðun, þar sem mjúkur tónblær hefur vikið fyrir hlutlausum. Fari svo að haustið reynist hagkerfinu torsótt, þróun sem við búumst allt eins við, teljum við að 25 punkta lækkun verði meðalið sem nefndin grípi til.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Fram á mitt ár er miðað við 3% jafnvægisraunvexti en þeir fara lækkandi eftir það.