Í takt við spá, en samt ekki: 3,2% verðbólga í ágúst

Í takt við spá, en samt ekki: 3,2% verðbólga í ágúst

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,28% á milli mánaða í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar þar með í 3,2%, úr 3,1% í júlí. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,2% til 0,3%, en meðalspá þeirra sem birta spár opinberlega var 0,23%. Við spáðum 0,3% hækkun. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði nokkuð meira, eða um 0,4% á milli mánaða og hefur vísitalan hækkað um 3,1% undanfarna 12 mánuði. Leita þarf aftur til ársins 2013 til að finna jafn lítinn mun á milli verðbólgunnar og verðbólgu án húsnæðisverðs. Þó spá okkar hafi legið hvað næst niðurstöðunni verður að segjast að forsendur spárinnar voru ekki réttar, staðreynd sem hefur talsverð áhrif á sýn okkar á verðbólguþróun næstu mánuði. 
Ef við byrjum á byrjuninni þá gengu útsöluáhrif talsvert hraðar til baka en við gerðum ráð fyrir. Alla jafna skiptist hækkun á verði útsöluliða nokkuð bróðurlega á milli ágúst og september, en í ár tók ágúst stærri hluta til sín en oft áður, a.m.k. miðað við undanfarin ár. Útsöluliðir höfðu 0,46% áhrif til hækkunar VNV, samanborið við spá okkar upp á  0,18% áhrifa vegna þessa.

Skyndileg útsölulok voru ekki eini ófyrirséði atburðurinn að þessu sinni, þar sem liðir sem við töldum að myndu hækka í verði lækkuðu og liðir sem við tölum að myndu lækka, lækkuðu meira en við töldum. Sem dæmi má nefna að matarkarfan lækkaði, þvert á væntingar okkar, um 0,4% (-0,05% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga lækkaði um -0,15% (-0,02% áhrif á VNV) og flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 9,1% (-0,17% áhrif á VNV).

Þó mánaðarspáin sé í takt við niðurstöðuna þá sýnir framangreint að verðbólgan er að brjótast annars staðar fram en gert var ráð fyrir. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kylliflatur fasteignamarkaður

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hélst markaðsverð fasteigna óbreytt á milli mánaða, sem þýðir að árstakturinn lækkaði úr 3,5% í 3,1%. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,2% (árstaktur 3,1%) og fjölbýli um 0,1% (árstaktur 3,1%) á meðan fasteignaverð á landsbyggðinni lækkaði um 1,2% (árstaktur 3,3%). Aftur á móti lækkaði reiknuð húsaleiga samkvæmt útreikningum Hagstofunnar, þ.e. kostnaður við að kaupa sér húsnæði og greiða af lánum, sem skýrist væntanlega af lækkandi greiðslubyrði nýrra fasteignalána vegna lægri vaxta.

Á myndinni hér fyrir neðan sést að árstaktur markaðsverðs hefur farið lækkandi undanfarin tæp tvö ár, þ.e. þó mánaðarbreytingar séu jákvæðar þá þarf að meðaltali hver mánaðarbreyting að vera lægri en ársins á undan til að árstakturinn geti farið lækkandi. Athygli vekur að árstaktur fasteignaverðs á landsbyggðinni er að nálgast taktinn á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig árstaktur verðbólgunnar er settur saman. Húsnæði ber ábyrgð á 0,6 prósentustigi af 3,2% árstakti og ber því ábyrgð á fimmtungi árshækkunarinnar. Til samanburðar bar liðurinn ábyrgð á 40% verðbólgunnar í upphafi árs. Innfluttar vörur eru sestar í bílstjórasæti verðbólgunnar, en undanfarna mánuði hefur vægi innfluttra vara hægt og bítandi aukist. Nú er svo komið að innfluttar vörur bera mesta ábyrgð á ársverðbólgunni, eða um 1,4 prósentustig af árstaktinum, sem samsvarar rúmlega 40% af árstaktinum. Innlendar vörur bera ábyrgð á 0,6 prósentustigum af árstaktinum, eða um fimmtungi.

Horft til verðþróunar á innlendum vörum og grænmeti þá lækkar árstakturinn milli mánaða og stendur nú í 4,6% en var 5,2% í síðasta mánuði. Það verður að teljast jákvætt í ljósi þess að líklegt er að peningastefnunefnd horfi mikið til þessa liðar verðbólgunnar, þar sem hann er góður hitamælir á innlendan þjóðarbúskap, á meðan innflutt verðbólga einkennist að miklu leyti af erlendu verðlagi og þróunar krónunnar, sem oft fer sínar eigin leiðir óháð stöðu hagkerfisins hverja stund.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Verðbólgan ekkert nema draugasaga?

Þó mánaðarspáin sé í takt við niðurstöðuna þá sýnir framangreint að verðbólgan er að brjótast annars staðar fram en við gerðum ráð fyrir. Þess vegna lækkum við bráðabirgðaspá okkar fyrir september, þ.e. við gerum ráð fyrir minni áhrifum vegna útsöluloka þar sem áhrifin virðast að miklu leyti vera komin fram.  Undirliðir vísitölunnar eru enga að síður ólíkindatól og eiga það til að sveiflast mikið á milli mánaða. Af þeim sökum gæti svo farið að liðir sem voru lægri í ágúst mælingu Hagstofunnar en við gerðum ráð fyrir, komi til baka í september, sem myndi stuðla að því að við séum að vanspá verðbólgunni næstu mánuði. Það er hins vegar margt jákvætt í verðbólgumælingunni að þessu sinni; reiknuð húsaleiga lækkar, merki um að innlend verðbólga fari lækkandi og á meðan krónan veikist ekki, þá ætti árstakturinn að fara lækkandi næstu mánuði.Samkvæmt bráðabirgðaspám ætti árstakturinn að fara lækkandi og fara undir 3% í október. Þetta er nokkur breyting frá síðustu bráðabirgðaspám, en fyrir mánuði síðan gerðum við ráð fyrir að verðbólgan myndi fara hæst í 3,7% á haustmánuðum. Nýjasta mæling Hagstofunnar bendir því til að verðbólgan hjaðni hraðar í átt að markmiði en útlit var fyrir í sumar.

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði:

  • September 0,2%: Útsölur ganga að fullu til baka en minna en við gerðum ráð fyrir í síðasta mánuði, flugfargjöld lækka, ýmsir liðir eiga það til að hækka á haustin
  • Október 0,4%: Flugfargjöld hækka og ýmsar hausthækkanir
  • Nóvember 0,0%: Litlar verðbreytingar

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka