Vá, 1,4% hagvöxtur á 2F án WOW

Vá, 1,4% hagvöxtur á 2F án WOW

Hagstofa Íslands birti í morgun landsframleiðslutölur fyrir annan ársfjórðung (2F) 2019. Það voru eflaust fleiri en bara greiningaraðilar sem biðu með öndina í hálsinum eftir tölunum, þar sem um er að ræða fyrsta ársfjórðunginn án WOW air. Að öllum líkindum gerðu flestar spár ráð fyrir efnahagssamdrætti, enda fækkaði erlendum ferðamönnum um 19,2% á 2F. Það lyftust því sjálfsagt einhverjar augabrúnir í undrun þegar tölur Hagstofunnar lágu fyrir: Landsframleiðslan jókst á 2F um hvorki meira né minna en 1,4%!

Að því sögðu, jafnvel þó lokaniðurstaðan, þ.e.a.s. landsframleiðslan sjálf, beri þess ekki merki að íslenska efnahagsvélin hafi gefið eftir, þá sýna undirliðir landsframleiðslunnar kólnun hagkerfisins svart á hvítu. Sem dæmi drógust þjóðarútgjöld (samtala neyslu og fjárfestingar) saman um 1% á 2F og útflutningur dróst saman um 6,9%.

Þá er athyglisvert að Hagstofan hefur fært mikið niður mældan hagvöxt á 1F og virðist nú hafa verið samdráttur á fjórðungnum. Samandregið sjáum við því ekki ástæðu til þess að breyta spá okkar um hagvöxt fyrir árið í heild.

Áður en lengra er haldið er vert að rifja upp að verg landsframleiðsla er á einföldu máli virði allra fullunninna vara og þjónustu sem framleiddar eru á landinu á hverjum tíma. Innflutningur er þar af leiðandi dreginn frá vergri landsframleiðslu, þ.e.a.s. því meiri sem innflutningurinn er, því hærri upphæð er dregin frá landsframleiðslunni. Að þessu sinni dróst innflutningur verulega saman á milli ára, eða um 12,4%. Það að innflutningur hafi dregist mun meira saman en útflutningur þýðir að framlag utanríkisverslunar til landsframleiðslunnar var verulega jákvætt, og í þessu tilfelli nógu jákvætt til að knýja fram hagvöxt!

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spáðum samdrætti, fengum hagvöxt

Þegar við birtum uppfærslu á hagspá fyrr í þessum mánuði reiknuðum við með 0,4% samdrætti á 2F. Það var hins vegar ljóst strax sl. mánudag, þegar Hagstofan birti tölur um þjónustuinnflutning, að það væri meira en lítið hæpið að sjá samdrátt á 2F, ekki nema eitthvað verulegt myndi ganga á til að vega á móti innflutningssamdrættinum, sjá nánari umfjöllun í Markaðspunkti.

Líkt og sjá má hér að neðan þróuðust flestir undirliðir í takti við væntingar okkar. Hægt hefur hratt á einkaneysluvextinum og mældist hann 2,2%, sem er minnsti vöxtur á einum ársfjórðungi síðan 2013. Þá dróst útflutningur saman um 6,9%, sem er örlítið minni samdráttur en við reiknuðum með. Útflutningsfrávikið skýrist fyrst og fremst af sterkari þjónustuútflutningi en áður var talið. Líkt og við fjölluðum um á mánudaginn má rekja frávikið að miklu leyti til farþegaflutninga með flugi, sem drógust minna saman en við væntum, mögulega vegna hækkunar á meðalflugfargjöldum Icelandair. Stærstu frávikin frá okkar spá eru fjárfesting og innflutningur, sem bæði drógust meira saman en við væntum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innflutningsvísir eða innflutningseinskiptisliður?

Hvað varðar innflutninginn þá var það fyrst og fremst innflutt þjónusta sem dróst mun meira saman en við væntum, eða um alls 16,8% milli ára. Eins og við höfum áður viðurkennt hefur þessi mikli samdráttur vafist fyrir okkur, þar sem hann er mun meiri en nemur samdrætti í rekstrarleigu flugvéla. Í máli aðalhagfræðings Seðlabankans sl. miðvikudag kom fram að lyfjageirinn ætti hér sök að máli, eitthvað sem við höfðum vissulega velt fyrir okkur. Sé það raunin er líklegra en ekki að um sé að ræða einskiptislið, þ.e.a.s. að svo mikill samdráttur í þjónustuinnflutningi eins og var á 2F sé ekki vísir að síðari helming ársins. Sé hins vegar ekki um einskiptislið að ræða gæti svo farið að innflutningssamdráttur ársins dygði til að halda hagvextinum við, og jafnvel fyrir ofan, núllið.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Atvinnuvegafjárfesting dregst saman, íbúðafjárfesting hrekkir Hagstofuna

Í tilfelli fjárfestingarinnar þá þróuðust undirliðirnir á nokkuð annan hátt en við væntum. Í fyrsta lagi dróst atvinnuvegafjárfesting mun meira saman en við reiknuðum með, eða um 30,2% samanborið við spá um 6% samdrátt. Allir undirliðir atvinnuvegafjárfestingar drógust saman, en mestu munar um hefðbundna atvinnuvegafjárfestingu sem dróst saman um 21%. Þetta er fimmti fjórðungurinn í röð sem hefðbundin atvinnuvegafjárfesting dregst saman, þróun sem veldur okkur dálitlu hugarangri í ljósi þess að fjárfesting skýtur stoðum undir hagvöxt framtíðarinnar. Í öðru lagi dróst fjárfesting hins opinbera saman, þvert á væntingar okkar. Í þriðja lagi jókst íbúðafjárfesting mun meira en við spáðum, eða um 40,8% samanborið við spá upp á 8% vöxt. Endurskoðun Hagstofunnar á tölum fyrsta fjórðungs spilar hér stóra rullu, þar sem íbúðafjárfesting á 1F var færð úr 58,4% vexti niður í 22,2% vöxt. Í fréttatilkynningu Hagstofunnar segir að „við gerð þjóðhagsreikninga fyrir 1. ársfjórðung reyndust gögn innihalda upplýsingar um umfang og framvindu byggingarframkvæmda sem náðu yfir lengra tímabil en samsvarar viðmiðunartímabili þjóðhagsreikninga.“ Þetta þýðir að íbúðafjárfesting jókst um 31,2% á fyrri helming ársins (1H), sem er í góðum takti við væntingar okkar jafnvel þó skiptingin niður á fjórðunga hafi reynst önnur. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Endurskoðun hagtalna: Samdráttur á 1F

Það er ekki aðeins efnahagsþróunin á 2F sem vekur athygli að þessu sinni, heldur einni veruleg endurskoðun á efnahagsþróun 1F. Samkvæmt endurskoðun dróst landsframleiðslan saman um 0,9% á 1F, samanborið við 1,7% hagvöxt samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Endurskoðun íbúðafjárfestingar skiptir hér höfuðmáli. Þetta þýðir að hagvöxtur á fyrri helmingi ársins mælist 0,3%, sem er örlítið meiri hagvöxtur á 1H en við reiknuðum með (spá okkar, m.v. óendurskoðaðar tölur, gerði ráð fyrir 0,1% hagvexti á 1H). Þá sýna endurskoðaðar tölur fyrir 2018 nokkuð meiri hagvöxt en áður var talið, eða 4,8% samanborið við 4,6%. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hagspáin stendur, í bili

Ef við fyllum inn endurskoðaðar tölur fyrir árið 2018 og 1H 2019 og miðum við spá okkar fyrir síðari helming ársins, þá breytist efnahagsspá okkar ekki neitt (meiri hagvöxtur á síðasta ári vegur á móti meiri hagvexti á 1H en við reiknuðum með). Með öðrum orðum, við spáum ennþá 0,9% samdrætti í ár, þó þróun undirliðanna stefni í að vera önnur en við áætluðum. Hvort sú spá rætist ræðst hins vegar að miklu leyti til á innflutningi og hvort þróun 2F var undantekning eða það sem koma skal. Eigi seinni valmöguleikinn við má reikna með að þróunin verði heldur nær núllinu en núverandi spá gerir ráð fyrir.

Seðlabankinn gerði ráð fyrir tæplega 1% samdrætti á 2F. Endanleg niðurstaða er því umtalsvert betri en spá þeirra reiknaði með. Miðað við uppfærðar tölur sjáum við ekki betur en spá bankans fyrir árið færist nær núllinu, þó auðvitað sé um getgátur að ræða þar sem bankinn birtir ekki ársfjórðungslega spá. Þrátt fyrir það er það okkar mat að tölurnar muni ekki breyta sýn peningastefnunefndar á þróun hagkerfisins, enda er um dálítinn gervihagvöxt að ræða. 

 

Heimildir: Spár greiningaraðila