Úbbs, hún gerði það aftur: Hagstofan leiðréttir landsframleiðsluna

Úbbs, hún gerði það aftur: Hagstofan leiðréttir landsframleiðsluna

Eftir hádegi í dag sendi Hagstofa Íslands frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að landsframleiðslutölur fyrir annan ársfjórðung (2F) hafi verið leiðréttar. Í fréttatilkynningu Hagstofunnar kemur fram að fjárfesting tímabilsins hafi verið vanmetin um 9,1 ma.kr. á verðlagi ársins. Áhrifanna gætir í tveimur undirliðum, fjárfestingu hins opinbera, sem fer úr 2% samdrætti í 17% vöxt milli ára, og fjárfestingu í skipum og flugvélum, sem fer úr 84% samdrætti í 57% samdrátt. Gleymdist Herjólfur við fyrstu útgáfu þjóðhagsreikninga? Leiðréttingin þýðir að þjóðarútgjöld á 2F jukust um 0,2% milli ára og landsframleiðslan jókst um hvorki meira né minna en 2,7%!

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað skipti á skömmum tíma sem Hagstofan leiðréttir áður birtar landsframleiðslutölur vegna mistaka. Síðastliðin föstudag, þegar upprunalegar landsframleiðslutölur fyrir 2F voru birtar, tilkynnti Hagstofan að landsframleiðslan á 1F hefði verið endurskoðuð. Það er vanalegt að landsframleiðslutölur séu endurskoðaðar reglulega, sérstaklega fyrst eftir birtingu þar sem um bráðabirgðatölur er að ræða. Við sýnum því skilning. Breyting úr 1,7% hagvexti í 0,9% samdrátt er hins vegar óvenjulega mikil breyting. Samkvæmt skýringum Hagstofunnar kom í ljós að íbúðafjárfesting innihélt gögn sem náðu yfir lengra tímabil en eingöngu 1F. Það kemur okkur á óvart að leiðréttingin hafi ekki komið fyrr, þar sem tæplega 60% vöxtur íbúðafjárfestingar á 1F kom mörgum greiningaraðilum spánskt fyrir sjónir. Hefði talan ein og sér ekki átt að hringja bjöllum? Til að nefna annað dæmi voru landsframleiðslutölur fyrir 4F síðasta árs einnig leiðréttar, reyndar samdægurs. Í það skipti var gerð villa við staðvirðingu fjárfestingar og undirliða hennar á fjórðungnum.

Síendurtekin endurskoðun landsframleiðslutalna er áhyggjuefni, svo ekki sé meira sagt. Hagkerfið stendur á ákveðnum tímamótum eftir gjaldþrot WOW air, svo mikilvægt er að hagtölur fangi stöðu hagkerfisins sem best og njóti tiltrúar. Heimili, fyrirtæki og fjárfestar reiða sig m.a. á opinberar hagtölur þegar teknar eru ákvarðanir, og greiningaraðilar, Seðlabankinn og ráðuneyti, byggja spár sínar á þeim tölum sem tiltækar eru á hverjum tíma. Þessar spár liggja oftar en ekki til grundvallar við ákvarðanatöku. Þá má ekki gleyma að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði innihalda ákvæði um hagvaxtarauka!

Við í Greiningardeild vinnum með hagstærðir og spár og þekkjum að mistök geta átt sér stað. Slíkt er mannlegt og einnig á færi stofnana. Það breytir því ekki að opinberar hagtölur þurfa að vera sá hagvísir sem sannast segir okkur hvar við stöndum í dag og hvar við stóðum í gær. Það er er síðan lykilforsenda til ákveða hvert skal halda á morgun. Nú í framhaldinu hlýtur Hagstofan að leggjast í naflaskoðun á því hvernig staðið er að mælingum, útreikningi, villuprófunum og birtingu á landsframleiðslutölum. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Miðað við leiðréttar tölur mælist 0,9% hagvöxtur á fyrri helmingi ársins, sem er mun meiri vöxtur en bæði við (spáðum 0,1% samdrætti á 1H) og Seðlabankinn gerðum ráð fyrir. Vert er að taka fram að tölur fyrir 1F hafa ekki verið leiðréttar aftur, Hagstofan gerir ennþá ráð fyrir 0,9% samdrætti á 1F. Ef við leggjum saman leiðréttar landsframleiðslutölur og spá okkar fyrir seinni helming ársins fáum við út 0,6% samdrátt árið 2019, en upprunaleg spá okkar hljóðaði upp á 0,9% samdrátt. Í ljósi þess að spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár má reikna með að leiðréttar tölur ýti þeirri spá upp að núlli og jafnvel í hagvöxt.

Engu að síður teljum við að leiðréttingin hafi lítil áhrif á sýn peningastefnunefndar, enda útflutningur að dragast mikið saman, sem og atvinnuvegafjárfesting, og einkaneysluvöxturinn að koma hratt niður. Þá veltum við fyrir okkur hversu mikla áherslu nefndin leggur á landsframleiðslutölur Hagstofunnar, sem hafa að undanförnu tapað verulega trúverðugleika sínum. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka