Ferðamannalandið Ísland: Hægt af stað eftir magalendingu

Ferðamannalandið Ísland: Hægt af stað eftir magalendingu

Greiningardeild kynnti í morgun árlega ferðaþjónustuúttekt sína. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: 
  • Erlendum ferðamönnum til Íslands hefur fækkað um rúmlega 13% það sem af er ári. Breytt samsetning farþega í leiðakerfi Icelandair hefur spilað stórt hlutverk í að ferðamönnum hefur ekki fækkað meira. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 30% fleiri ferðamenn til Íslands en á síðasta ári, á meðan heildarfjöldi farþega félagsins hefur aukist um 11%.
  • Horfur eru á að bataferlið fari hægt af stað eftir magalendinguna í mars. Okkar grunnspá felur í sér að ferðamönnum muni fjölga um 2% á næsta ári. Að okkar mati mun kyrrsetning MAX flugvélanna draga þann dilk á eftir sér að umsvif Icelandair verða svipuð á næsta ári og á þessu. Hvort fjölgun ferðamanna verður meiri mun ráðast að miklu leyti af hvort hér tekst á loft nýtt flugfélag.
  • Dvalartími ferðamanna hefur lengst umtalsvert það sem af er ári og neysla hvers og eins ferðamanns aukist, bæði í krónum og erlendri mynt. Tekjusamdráttur greinarinnar verður því líklega minni en við óttuðumst í upphafi árs. Aukna neyslu hvers og eins ferðamanns má líklega rekja til minni oftalningar ferðamanna en áður, áherslubreytinga hjá Icelandair og breyttrar samsetningar ferðamanna í kjölfar gjaldþrots WOW air.
  • Árstíðasveifla vinnumarkaðarins og ferðaþjónustunnar leggst saman og því teljum við að haustið gæti reynst vinnumarkaðnum snúið. Við teljum að ferðaþjónustutengd störf verði um 2.000 færri undir lok árs en á sama tíma í fyrra og að atvinnuleysi muni stíga umfram sína hefðbundnu árstíðasveiflu og fara upp undir 4% undir lok árs.

Ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar Arion banka 2019


Heimildir: Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka