Verðbólgan komin úr sumarfríi – á leið í snemmbúið vetrarfrí

Verðbólgan komin úr sumarfríi – á leið í snemmbúið vetrarfrí

Við spáum að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% í september, sem er lækkun frá bráðabirgðaspá okkar sem hljóðaði upp á 0,2% hækkun vísitölunnar. Samkvæmt spánni lækkar ársverðbólgan í 3,1% úr 3,2%. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir eða nánar tiltekið 9. til 13. september og niðurstaða mælingarinnar verður birt föstudaginn 27. september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólga síðustu mánuði hefur verið minni en við áttum von á, byggt á fyrri reynslu. Mæling Hagstofunnar í ágúst sýndi t.d. að hækkun verðlags var þá að miklu leyti vegna loka sumarútsalna en minna vegna annara liða. Áhrif útsalna virðast að mestu komin fram og við erum bjartsýnni á að verðbólgan haldi áfram að togast í átt að 2,5% markmiði Seðlabankans. Nokkuð sem við áttum ekki von á fyrr í sumar. Þannig virðist sem gengisveiking krónunnar og áhrif launahækkana séu að hafa mun minni áhrif til hækkunar verðlags en við væntum. Skýringin gæti verið sú að minnkandi eftirspurn og aðhaldssemi neytenda geri fyrirtækjum erfitt um vik með að velta hækkunum út í verðlag. Áhrifin koma þá í meira mæli fram í kostnaðaraðhaldi og lægri framlegð. Afkoma stórra smásala, sem skráðir eru í kauphöll, það sem af er ári virðist t.a.m. gefa þetta til kynna.  Á næstu mánuðum má ætla að áhrif vaxtalækkana muni fara að koma fram en þar munu sem fyrr togast á áhrif af lægri fjármagnskostnaði fyrirtækja og jákvæð áhrif lægri vaxta á eftirspurn neytenda. Í því ljósi var áhugavert að sjá að í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í gær kemur fram að nefndin taldi rétt að lækka vexti t.d. „til þess að örva fjárfestingu og fasteignamarkaðinn ásamt því að draga úr svartsýni.“

Sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á verðbólguspá okkar fyrir september er flugliðurinn en gert er ráð fyrir að flugfargjöld lækki um 10%. Gert er ráð fyrir að útsölur gangi að fullu til baka og að matarkarfan hækki. Á haustin koma reglulega inn verðhækkanir sem ekki eru mældar í hverjum mánuði og því má ávallt reikna með meiri mældum verðhækkunum á haustin (sem og vorin) þegar árstíðavörur eru verðmældar. Við höfum haft þann vana á að hreyfa lítið við mánaðarspá okkar um þróun fasteignaverðs, þar sem um sé að ræða tregbreytilega stærð og nánast ómögulegt að spá rétt fyrir um hvern og einn mánuð, og því notum við þann hækkunartakt sem við teljum markaðinn vera á hverju sinni. Við teljum hins vegar að hægt hafi á verðhækkunum og sáum því ástæðu til að færa reiknuðu húsaleiguna niður í  0,18% á milli mánaða (0,02% áhrif á VNV) í stað um 0,3% hækkunar.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá hversu mikið útsöluáhrifin komu til baka í ágúst m.v. árin á undan. Sem dæmi má sjá að verð á fatnaði og skóm hækkaði um tæp 8% í ágúst sem er talsvert meiri hækkun en á árunum á undan, og mikið m.v. það að útsöluáhrifin er væntanlega í kringum 10-12%. Því er minna um að útsöluáhrif gangi til baka nú í september en í venjulegu ári.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensínverð lækkar þrátt fyrir smávægilega veikingu krónu

Síðan um miðjan júlí hefur krónan veikst á móti dollar um 1,5% og á sama tíma hefur framvirkt verð á bensíni í Bandaríkjunum haldist nær óbreytt þó það hafi flökt mikið. Smásöluverð á bensíni hefur hinsvegar lækkað hér á landi síðan Hagstofan mældi vísitölu neysluverðs síðast eða um rúmlega 0,5% (-0,02% áhrif á VNV).

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld ákveða verðbólguna í september

Mesta óvissan um þróun verðbólgunnar í september er vegna þróunar flugfargjalda. Dregið hefur úr árstíðasveiflu í verði flugmiða sem sést að hækkun á verði flugfargjalda í sumar var ekki jafn regluleg og árin á undan. Líkanið okkar gerir ráð fyrir að flugfargjöld hafi átt að lækka um 20% í september en verðmæling okkar á netinu mældi um 4% lækkun. Við völdum að fara milliveginn og gerum ráð fyrir um 10% lækkunar. Flugliðurinn vegur tæplega 2% í vísitölunni en vigtin breytist einnig smávægilega á milli mánaða og því má segja að þó við myndum vita nákvæmlega hver breytingin verður, þá vitum við ekki endilega vigtina, og því ekki áhrifin á verðbólguna. En ef við gefum okkar að vigtin breytist ekki og að verð lækki um 20%, þá má sjá að áhrifin eru 0,4% til lækkunar. Það má því segja að ef okkur skeikar mikið í því að spá fyrir um flugliðinn, þá mun það hafa umtalsverð áhrif og heildarspáin þá nánast ómarktæk. Spáin stendur því og fellur með því hvort við náum að spá rétt fyrir um þróun flugliðarins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ásett verð fjölbýlis bendir til raunlækkana

Mæling okkar á þróun ásetts verðs bendir til þess að ásett verð fjölbýlis hafi hækkað um 1,5% undanfarna 12 mánuði en á sama tíma hefur verðbólgan verið 3,2%. Fyrir mánuði mældum við 2,5% breytingu á milli mánaða. Ásett verð sérbýlis hefur hækkað um 3,2% (4% fyrir mánuði) og íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um 6% (5,5% fyrir mánuði).

Gerð er tilraun til að reikna þróun ásetts verðs eftir því hvort um sé að ræða nýbygginu eða ekki, og benda þeir útreikningar til að ásett verð fjölbýlis sem byggt hefur verið á undanförnum tveimur árum, hafi lækkað um 6% m.v. árið á undan. Ásett verð nýlegs húsnæðis, sem hefur verið byggt á undanförnum tíu árum, stendur nánast í stað á milli ára, sem og eldra húsnæði sem byggt var fyrir meira en 10 árum. Ekki er gæðaleiðrétt heldur einungis horft til byggingarárs og hver þróun ásetts verð var. Hafa skal í huga að samkvæmt mælingum Íbúðalánasjóðs er hlutfall kaupsamninga sem eru undir ásettu verði hátt og hefur hækkað m.v. sama tíma fyrir ári, sem segir okkur að líklega er hér um ofmat að ræða, þ.e. verðhækkanir eru minni/verðlækkanir meiri.

Við gerum því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,18% (0,02% áhrif á VNV). Við teljum að draga muni enn frekar úr verðhækkunum fasteignaverðs á næstu misserum en óvíst er hvenær það kemur fram í opinberu mælingunum.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Hvenær brýst verðbólguþrýstingurinn fram?

Þrátt fyrir að við höfum lækkað bráðabirgðaspá okkar þá er alls ekki útséð að verðbólgan sé að fara í 2,5%. Innlendur verðbólguþrýstingur er enn til staðar þó hann sé ekki að brjótast fram eins og er. Samkvæmt Seðlabanka Íslands hækkar kostnaður á framleidda einingu um tæplega 7% í ár, og um 4% að meðaltali næstu tvö ár en um er að ræða hækkun launa umfram framleiðni. Það má því segja að atvinnuveitendur hafi enn sem komið er ekki ýtt verðhækkunum út í verðlag í takti við aukin útgjöld. Spurningin er hversu lengi það haldi áfram og hvernig vaxtalækkanir munu stuðla að lækkun fjármagnskostnaðar og auka eftirspurn.

Annað sem má ekki gleyma er að verð flöktir og því þarf að vara sig við oftúlkun einnar mælingar. Oft kemur það fyrir að verð á ákveðnum undirlið lækkar en hækkar síðan í næsta mánuði, og jafnar út lækkunina og gott betur. Krónan hefur veikst þrátt fyrir að hagtölur hafa verið krónunni hagstæðar, t.d. vísbendingar um minni innflutning og lengri dvalartíma ferðamanna sem saman eykur viðskiptaafgang þjóðarbúsins.

Nú er svo langt liðið á árið að bráðabirgðaspáin spáir fyrir um þróunin til ársloka. M.v. skammtímalíkanið okkar sýnist okkur að verðbólgutakturinn eigi raunhæfan möguleika á að vera kominn í um 2,5% verðbólgu í árslok.

  • Október 0,5%: Flugfargjöld hækka og ýmsar hausthækkanir
  • Nóvember 0,1%: Litlar verðbreytingar, flugfargjöld lækka
  • Desember 0,3%: Flugfargjöld og matarkarfan hækkar, aðrar vörur hækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka