Arion banki kaupir vottaðar kolefniseiningar

Arion banki kaupir vottaðar kolefniseiningar

Arion banki kaupir vottaðar kolefniseiningar - mynd

Nýlega gerði Arion banki samning við bandaríska félagið Aspiration um kaup á vottuðum kolefniseiningum. Kaupin fóru fram fyrir tilstilli Seven Glaciers á Íslandi og er um að ræða 600 vottaðar og virkar kolefniseiningar. Einingarnar eru mótvægisaðgerð Arion banka vegna losunar í eigin rekstri á árinu 2022, meðal annars vegna húsnæðis, bíla, flugferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Aspiration hefur á síðustu tíu árum unnið markvist að loftlagsaðgerðum og þjónar fyrirtækjum, stofnunum, fjárfestum og neytendum með því að bjóða vottaðar kolefniseiningar.

Að baki hverri kolefniseiningu er fjárfesting í verkefni sem hefur ekki aðeins jákvæð áhrif á loftslagið heldur einnig umhverfis- og félagsleg áhrif sem felast í stuðningi við menntun, aðgengi að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu í þeim samfélögunum sem þau fara fram. Markmið verkefnanna er einnig að hafa jákvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.

Kolefniseiningarnar sem Arion banki keypti vegna losunar ársins 2022 eru í tengslum við verkefni í vesturhluta Kongó, Perú og Indónesíu. Öll verkefnin eru REDD+ verkefni og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4, 5, 13, 15 og 17.

Mai Ndombe (Kongó, Afríku)

Markmið verkefnisins, sem er í vesturhluta Kongó, er að vernda 250 þúsund hektara skóglendis fyrir ólöglegu skógarhöggi og ósjálfbærum landbúnaði. Svæðið er heimkynni simpansa, bónóbóa og fíla auk þess sem þar er að finna mikilvæg votlendissvæði sem eru meðal mikilvægustu vistkerfa jarðar. Á svæðinu búa yfir 180 þúsund manns.

Cordillera Azul (Perú, Suður Ameríku)

Verkefnið snýr að verndun þjóðgarðs sem er um 1,3 milljónir hektara að stærð og er í miðri Perú. Verkefnið gengur út á að koma í veg fyrir eyðingu skóga í stórkostlegri víðáttu þjóðgarðsins. Samfélög og aðrir hagsmunaaðilar á svæðinu eru virkjaðir til að nýta landið með náttúruvernd að leiðarljósi og stuðla þannig að sjálfbærri landnýtingu fyrir kakó- og kaffiframleiðslu sem er helsta framleiðslan á svæðinu.

Katingan Mentaya (Indónesía, Asíu)

Verkefnið verndar 150 þúsund hektara af votlendi í Indónesíu sem geyma gríðarlegt magn af kolefni. Með því að vernda svæðið og sporna gegn því að því verði breytt í plantekrur er komið í veg fyrir losun á um 500 milljónum tonna af CO2 ígildum. Svæðið er þar að auki lífsnauðsynlegt búsvæði fyrir þrettán tegundir dýra í útrýmingarhættu auk þrjátíu og eina viðkvæma dýrategund.