Fjárfestingarnar leið til að móta eigið starfsumhverfi og hafa jákvæð áhrif á samfélagið

„Ég vil hvergi annars staðar búa en í Hafnarfirði,“ segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir brosmild á svip þegar við sækjum hana heim í bæjarfélaginu þar sem hún hefur búið nær alla ævi. Edda hefur komið sér vel fyrir – það er notalegt í rúmgóðri íbúð hennar og sjálf hefur hún hlýja nærveru og smitandi hlátur.

Í kaffiilmi og þægilegri návist bóka, málverka og annarra listaverka beinum við athyglinni að farsælum ferli Eddu í atvinnulífinu og ekki síst framgöngu hennar á fjárfestingasviðinu, sem er aðalumræðuefni dagsins.

Fyrsta fjárfestingin leið til að móta eigið starfsumhverfi

Edda hefur langa og farsæla reynslu úr atvinnulífinu, bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Það lá þó ekki alltaf fyrir að hún mundi með tíð og tíma snúa sér að fjárfestingum.

Hún lauk prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands 1973 og kandídatsprófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole, nú Copenhagen University, árið 1976. Þá sneri hún heim til Íslands og starfaði um hríð sem faglegur forstöðumaður lyfjaheildsölunnar Farmasíu hf. Árið 1980 færði hún sig yfir til Pharmaco hf. og hefst þá ferill hennar hjá fyrirtækinu sem hún kemur til með að helga mestalla starfsævi sína.

„Ég held ég hafi gegnt samtals svona fimmtán mismunandi störfum þar!“ segir Guðbjörg Edda og hlær.

Ég vildi leggja mitt af mörkum, bæði til að félagið yrði að veruleika og svo að ég hefði einhver áhrif.

Hvað varstu að gera í upphafi?

„Upphaflega er ég svokallaður lyfjakynnir fyrir þau lyf sem Pharmaco framleiddi hér á Íslandi. Á þeim tíma var nýorðið mögulegt að skrá innlend sérlyf hér heima og Pharmaco – sem þá var orðið tiltölulega rótgróið fyrirtæki, í eigu apótekarana – vildi taka þátt í þeirri þróun.“

Meginstarfsemi Pharmaco var hins vegar innflutningur á erlendum sérlyfjum og frumframleiðendurnir voru ekki sáttir við að umboðið á Íslandi væri í raun kominn í samkeppni við þá. Því var ákveðið að setja lyfjaframleiðslu Pharmaco í sérstakt félag sem stofnað var í desember 1981 og fékk nafnið Delta.

„Og ég er sem sagt einn af stofnendum þess félags og keypti hlut í því. Það er í raun fyrsta fjárfesting mín – fyrir utan að ég hafði keypt íbúð og eitthvað svoleiðis.“

„Þarna er verið að stofna félag sem ég vissi að ég mundi starfa fyrir og ég brann fyrir því að þetta yrði vel gert og almennilegt,“ segir Edda. „Ég vildi leggja mitt af mörkum, bæði til að félagið yrði að veruleika og svo að ég hefði einhver áhrif – af þeim sökum keypti ég tvö prósent í Delta. Ég var auðvitað engin stóreignamanneskja og því var þetta talsvert átak en mér fannst að ég þyrfti að gera þetta. Næstu 20 árin var ég svo alltaf að reyna að halda í þessi sirka 2% í félaginu. Sum árin náði ég ekki að taka þátt í hlutafjáraukningu – en þá fór ég út í það seinna að reyna að kaupa einhverja út sem höfðu ekkert endilega áhuga á að vera áfram.“

Breyttur heimur hvað kynjahlutföll snertir

Á fyrstu árunum mátti telja konurnar í Pharmaco á fingrum handa sér.

„Þó kannski ekki á fingrum annarrar handar,“ segir Edda og tekur um leið fram að hún hafi í raun lítið velt slíkum málum fyrir sér.

„Þessi iðnaður var, eins og langflestir á þessum tíma, mjög karllægur. Kvenkyns starfsmenn voru mest í pökkun og öðrum störfum sem ekki kröfðust mikillar menntunar. Í byrjun voru allir yfirmenn, að mér frátaldri, karlmenn.“

Pharmaco hf. sameinaðist með tíð og tíma Delta hf. og tók loks upp nafnið Actavis árið 2004 eftir að ýmis önnur félög víða um heim höfðu einnig verið keypt og innlimuð.

„Allan þann tíma voru karlkyns stjórnendur í meirihluta, eiginlega þangað til í kringum 2010 þegar ég er orðin forstjóri Actavis á Íslandi. Þá vorum við með svona 800 starfsmenn og kynjahlutfall bæði starfsmanna og yfirmanna var orðið jafnt. En það er auðvitað þrjátíu árum eftir að ég hóf störf!“

Konur stígi almennt varlegar til jarðar í fjárfestingum og viðskiptalífinu

Um aldamótin tók Edda að fjárfesta með skipulegri hætti í hinum og þessum félögum. Það var þó ekki fyrr en hún lét af störfum, árið 2014, sem hún einbeitti sér algjörlega að fjárfestingum og tók sæti í stjórnum ýmissa félaga.

Hvernig velurðu fjárfestingarnar?

„Það er dálítið mikið bara gut feeling – einhver tilfinning. Ég hef aldrei haft neitt gaman af því að fjárfesta í ríkisskuldabréfum eða einhverju svoleiðis, og hef fyrst og fremst haft áhuga á félögum sem eru, eða ætla sér, í heilbrigðisgeirann. Af því að ég hef mest vit á því sviði. Þar finnst mér ég geta metið hvort um er að ræða hugmynd sem náð getur einhverri markaðshlutdeild.“

Nálgast konur fjárfestingar með öðrum hætti en karlar?

„Mér finnst kannski meira áberandi hjá þeim að þær vilja helst geta séð fyrir að þær lifi af árið,“ segir Edda sposk á svip. Karlar séu oft sjálfsöruggari, hvort sem það er verðskuldað eða ekki, og sömuleiðis áhættusæknari. „En konur geta líka farið á hausinn!“ bætir hún við og hlær. „Við skulum ekki gleyma því!“

„Ég hef sjálf alltaf lagt mig sérstaklega eftir því að fjárfesta í fyrirtækjum sem konur stýra eða eru allavega með í að stofna. Þess vegna hafa konur verið meira áberandi í mínum verkefnum. Það er meðvitað.“ 

Hefurðu einhverjar góðar ráðleggingar handa þeim sem eru að taka sín fyrstu skref?

„Ég hef stundum sagt við ungar konur, sem eru að stíga sín fyrstu skref, að ef þeim finnst þær ekki hafa ráð á að leggja neitt fyrir eða setja í fjárfestingar, þá geti þær byrjað á að sleppa því að fara út á lífið eina helgi í mánuði. Og notað svo þann pening í að kaupa bréf eða setja í sjóð. Í kauphöllinni geturðu til dæmis keypt eitt bréf í félagi og það kostar ekkert mikið. Það er ákveðin byrjun!“

„Það sem mér finnst þó skipta mestu máli í fjármálum, svona heilt yfir litið, er að fólk, sem er að nálgast starfslok, sé allavega búið að eignast þak yfir höfuðið og sé því sem næst skuldlaust. Það er númer eitt, jafnvel tvö og þrjú líka. Að setja sér langtímamarkmið hvað varðar sparnað og eignamyndun.“

Mikilvægt að geta tekið ákvarðanir og fylgt þeim eftir

Ertu fyrirmynd – og viltu vera það?

„Í fyrirtækinu var ég auðvitað óhjákvæmilega fyrirmynd – og þá vonandi fyrir alla en kannski sérstaklega fyrir konurnar.“

Hvaða eiginleikar eru mikilvægastir ef maður vill ná árangri í atvinnulífinu?

„Vinkona mín minnti mig á það nýlega að ég hefði eitt sinn lýst sjálfri mér svo: Heilsuhraust, vinnusöm, á auðvelt með að taka ákvarðanir.

Ég veit ekki hvort fyrri tvö atriðin eiga enn við mig en það þriðja gildir enn. Oft er nauðsynlegt að ræða málin við alla hlutaðkomandi og vega og meta ólík sjónarmið – en svo þarf líka að geta tekið ákvarðanir og fylgt þeim eftir.“

Þessar örfáu konur, sem náð hafa langt í lyfjaiðnaðinum í heiminum – helmingur þeirra er til dæmis íslenskur, mundi ég giska á.

Hvar standa íslenskar konur í alþjóðlegu samhengi?

Edda segir að enn sé langt í land – til að mynda sé sláandi að skoða sparifjáreign barna. Strákar eiga strax á fyrstu stigum lífsins meira sparifé en stelpur. Þetta þurfi að laga. Hins vegar sé að sama skapi horft til Íslands í jafnréttismálum af góðri ástæðu enda stöndum við að mörgu leyti mjög framarlega á því sviði.

„Þessar örfáu konur, sem náð hafa langt í lyfjaiðnaðinum í heiminum – helmingur þeirra er til dæmis íslenskur, mundi ég giska á. Sem sýnir að þessi jafnréttisumræða á Íslandi hefur skilað alveg gífurlega miklu og meira en margir gera sér grein fyrir.“

„Þegar ég var að klára menntaskóla fannst mér það alveg eðlilegt að ég hefði sömu tækifæri og karlar – og gæti bæði átt starfsferil og eignast börn og fjölskyldu og verið úti á vinnumarkaði. Svona er þetta ekki víðast hvar í heiminum.“

Að sögn Eddu eru fjárfestingar leið til að móta samfélagið og því sé brýnt að hvetja sem flestar konur til dáða. Ekkert skref sé of smátt – margt lítið geti í fyllingu tímans orðið að einhverju miklu stærra. Bæta þurfi fjármálalæsi og leiða fólki fyrir sjónir að fjárfestingar og sparnaður séu ekki einungis fyrir einhverja innvígða elítu.

„Fyrsta fjárfesting mín var í raun til að hafa áhrif. Ég hugsaði ekki þá að þetta yrði upphafið að einhverju miklu meira.“