Persónuvernd fyrir umsækjendur
um störf hjá Arion banka

Arion banka er umhugað um persónuvernd starfsmanna/umsækjenda og höfum því tekið saman upplýsingar um vinnslu gagna sem tengjast umsóknarferli. Fræðsla þessi er hluti af persónuverndaryfirlýsingu Arion banka og lýsir vinnslu bankans á persónuupplýsingum einstaklinga sem sækja um starf hjá bankanum. 

Um er að ræða fræðslu byggða á persónuverndaryfirlýsingu bankans sem veitt er til að upplýsa um réttindi byggð á lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér eftir „persónuverndarlög“).

Arion banki leggur áherslu á persónuvernd starfsfólks bankans og hefur sett sér stefnu í þeim efnum.

Hér fyrir neðan er veitt fræðsla um hvaða persónuupplýsingar Arion banki tekur saman og vinnur um einstakling sem sækir um starf hjá bankanum.

Arion banki er ábyrgðaraðili á vinnslu persónuupplýsinga sem er nauðsynleg í tengslum við úrvinnslu umsóknar um starf hjá bankanum eða dótturfélögum bankans. Umsókn um starf er einnig staðfesting um að upplýsingar sem sendar hafa verið bankanum séu réttar.

Persónuupplýsingar sem bankinn safnar

Um er að ræða ýmsar persónuupplýsingar sem umsækjendur senda en þær geta verið mismunandi eftir eðli starfsins sem sótt er um. Almennt er um að ræða upplýsingar sem óskað er frá umsækjanda sjálfum en eftir atvikum getur bankinn jafnframt aflað upplýsinga um þig frá þeim umsagnaraðilum sem umsækjandi tilgreinir sjálfur í umsókn/ferilskrá og gefur samþykki fyrir að haft verði samband við.

Eftirfarandi eru dæmi um upplýsingar sem bankinn vinnur um umsækjendur

  • Samskiptaupplýsingar, t.d. nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer, netfang og stafrænt auðkenni, s.s. rafræn skilríki
  • Upplýsingar úr umsóknarferli, t.d. starfsumsókn, ferilskrá, upplýsingar um menntun, þjálfun, hæfni, fjárhagsstöðu, starfsferil og starfsreynslu, ljósmynd og aðrar upplýsingar sem þú kýst að gefa upp, s.s. um fjölskylduhagi og/eða áhugamál
  • Upplýsingar um þig frá meðmælendum sem þú gefur upp
  • Upplýsingar úr starfsviðtölum eða öðrum gögnum sem verða til í ráðningarferlinu
  • Eftir atvikum, upplýsingar sem þriðji aðili býr yfir um þig ef þú ákveður að tengja slík gögn við starfsumsókn þína, s.s. af samfélagsmiðlun eins og Linkedin.

Ef til þess kemur að bankinn muni bjóða þér starf kann bankinn að óska eftir sakavottorði ásamt annars konar upplýsingum sem staðfesta menntun þína og reynslu, s.s. prófskírteini. Jafnframt mun bankinn óska eftir því að skilað sé inn upplýsingum um fjárhagslegar skuldbindingar þínar ef það hefur ekki fylgt umsókninni.

Ef bankinn notast við þjónustu þriðja aðila á sviði ráðninga, t.d. við móttöku og úrvinnslu starfsumsókna kemur það fram í auglýsingu um starfið. Sá samstarfs- og/ eða vinnsluaðili ber ábyrgð á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í starfsemi hans eins og nánar er lýst í persónuverndarstefnu viðkomandi. Slíkur aðili getur, með heimild þinni, safnað umfangsmeiri upplýsingum um þig en bankinn ef þú kýst að nota þjónustu þeirra vegna umsóknar um önnur störf en hjá bankanum.

Grundvöllur upplýsingaöflunar

Bankanum er nauðsynlegt að safna persónuupplýsingum um þig svo hægt sé að leggja mat á hæfni þína til að gegna því starfi sem sótt er um. Upplýsingarnar eru unnar í tengslum við umsókn þína um starf hjá bankanum.

Komi til þess að bankinn óski eftir framvísun sakaskrár eða upplýsingum frá umsagnaraðilum (meðmælendum) eru þær unnar á grundvelli samþykkis þíns í þeim tilgangi að velja hæfasta einstaklinginn í starfið hverju sinni.

Upplýsingar sem sendar eru í gegnum umsóknarkerfi bankans eru eingöngu aðgengilegar mannauðsdeild bankans, næsta yfirmanni þess starfs sem óskað er eftir og eftir atvikum öðrum stjórnendum.

Varðveislutími upplýsinga

Upplýsingar þínar eru varðveittar á öruggan hátt í samræmi við lög, reglur og stefnur bankans. Umsókn þín er aðgengileg í kerfum bankans í 6 mánuði.

Bankinn mun ekki miðla persónuupplýsingum út fyrir Evrópska efnahagssvæðið nema slíkt sé heimilt á grundvelli persónuverndarlaga.

Réttur umsækjenda

Umsækjanda er ávallt heimilt að afturkalla starfsumsókn og þar með heimild bankans til safna og vinna persónuupplýsingar. Það gildir þó ekki varðandi þá söfnun og vinnslu sem þegar hefur átt sér stað áður en afturköllun á sér stað.

Þú getur lesið þér nánar til um önnur réttindi sem persónuverndarlög kveða á um, m.a. til aðgangs að eigin persónuupplýsingum, í 2.3. kafla persónuverndaryfirlýsingar Arion banka.