Eignir til sölu

Eignarhlutir Arion banka í félögum í óskyldum rekstri

Stefna bankans er að eiga ekki eignarhluti í félögum í óskyldum rekstri lengur en ástæða er til. Slíkir eignarhlutir fara því í söluferli og eru seldir eins fljótt og auðið er. Þannig hefur Arion banki þegar selt hlut sinn í fjölmörgum félögum á undanförnum árum, t.d. BG 12 (Bakkavor Group Ltd.), Klakka, Símanum, Eik, Reitum, HB Granda, Högum, 10-11, ÍAV, Heklu, BM Vallá, N1 og Pennanum.

Af þeim félögum sem bankinn á eignarhluti í eru ýmis félög sem ekki eru með neina starfsemi. Unnið er að slitum þeirra en það ferli getur tekið nokkur ár. Eftir standa eftirfarandi félög sem bankinn á yfir 10% hlut í og hyggst selja eða eru þegar til sölu. Frekari upplýsingar um neðangreindar eignir má nálgast hjá fyrirtækjaráðgöf Arion banka (fyrirtaekjaradgjof@arionbanki.is).

Valitor Holding hf. (100%)

Valitor var stofnað árið 1983 og býður upp á fjölbreyttar lausnir á sviði greiðslumiðlunar í Evrópu og er með starfsstöðvar á Íslandi, í Danmörku og í Bretlandi. Um 400 manns starfa hjá félaginu og hefur félagið vaxið mikið undanfarin ár, þá sérstaklega alþjóðleg starfsemi félagsins. Bankinn undirbýr sölu á eignarhlut sínum og hefur ráðið Citi sem söluráðgjafa. Samkvæmt áætlun sem unnið er eftir er stefnt að því að söluferlinu verði lokið fyrir árslok 2019.

Stakksberg ehf. (100%)

Stakksberg rekur verksmiðju í Helguvík sem framleiðir 99% hreinan kísil (Si) og er framleiðslugeta hennar 25 þúsund tonn á ári. Stakksberg vinnur að úrbótum á verksmiðjunni til að gera hana fullbúna til framleiðslu, en enginn rekstur hefur verið í verksmiðjunni frá því í september 2017 þegar Umhverfisstofnun stöðvaði hann. Áætlað er að fullbúin verksmiðja, með um 70 starfsmönnum, verði gangsett á síðari hluta árs 2020. Söluferli Stakksbergs hefur seinkað nokkuð, ekki síst vegna flókins regluverks, en bankinn vinnur áfram að sölu verksmiðjunnar.

TravelCo hf. og Heimsferðir ehf. (100%)

Félögin reka ferðaskrifstofur á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Starfsemin á Íslandi hefur farið fram undir merkjum ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Arion banki hyggst finna félögunum nýja framtíðareigendur svo fljótt sem auðið er og er söluferli hafið á eignarhlut bankans í félögunum. 

Stjórnir og framkvæmdastjórnir:

TravelCo hf.:

  • Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður
  • Hákon Hrafn Gröndal, meðstjórnandi
  • Ragnhildur Sophusdóttir, meðstjórnandi og framkvæmdastjóri

Heimsferðir ehf.:

  • Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður
  • Hákon Hrafn Gröndal, meðstjórnandi
  • Ragnhildur Sophusdóttir, meðstjórnandi
  • Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri
Reiknistofa bankanna hf. (21,7%)

Reiknistofa bankanna er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem hefur í gegnum árin þróað hinar ýmsu fjármálalausnir.

Bjarnaþing ehf. (100%)

Bjarnaþing á tvær hæðir í norðurturni verslunarmiðstöðvarinnar Firði, Hafnarfirði, sem leigðar eru til heilsugæslunnar Fjarðar.

220 Fjörður ehf. (37,35%)

Um er að ræða eignarhlut í félaginu 220 Firði sem á og rekur fasteignir í verslunarmiðstöðinni Firði Hafnarfirði. 220 Fjörður á jafnframt 50% hlut í þróunarfélaginu 220 Miðbær ehf.