Fjárfestavernd

Með lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga (e. Markets in Financial Instruments Directive, MiFID II). Markmið laganna er m.a. að tryggja gagnsæi, efla fjárfestavernd og auka traust fjárfesta.

Með lögunum breyttust ýmsar mikilvægar reglur sem lúta að því hvernig staðið skal að verðbréfaviðskiptum. Lagðar eru til umfangsmiklar breytingar um þær kröfur sem gerðar eru til skipulegra markaða, markaðstorga fjármálagerninga og verðbréfafyrirtækja. Meðal annars eru gerðar auknar kröfur til gagnsæis, um fjárfestavernd og viðskiptahætti, til stjórnar, stjórnarhátta og almennt um skipulag verðbréfafyrirtækja og skipulegra markaða.

Verðbréfaviðskipti

Áður en viðskiptavinur getur átt verðbréfaviðskipti í gegnum Arion banka ber bankanum að afla upplýsinga um þekkingu viðskiptavinar og reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga. Á grundvelli þeirra upplýsinga er bankanum skylt að meta hvort viðskipti sem óskað er eftir séu tilhlýðileg. Mikilvægt er að öllum spurningum sé svarað samviskusamlega svo svörin gefi rétta mynd af hvaða viðskipti eru tilhlýðileg fyrir viðskiptavin. Ef breytingar hafa orðið á högum viðskiptavinar er hann hvattur til að uppfæra svörin, svo matið gefi rétta mynd af þörfum hans hverju sinni. 

Auk þess að svara spurningum þarf viðskiptavinur að undirrita nýjan samning um verðbréfaþjónustu og gangast undir uppfærða almenna markaðsskilmála í kjölfar gildistöku nýju laganna. Þetta er hægt að gera með einföldum hætti með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Mat á þekkingu og reynslu

Ef þú ert ekki nú þegar í verðbréfaviðskiptum eða með vörslureikning hjá Arion banka þá er auðvelt að stofna til verðbréfaviðskipta með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Stofna vörslusafn

 

Betri yfirsýn yfir kostnað og gjöld

Þegar fjárfest er í fjármálagerningum skiptir máli að vita hvaða kostnaður og tengd gjöld fylgja viðskiptunum og hver áhrifin verða á ávöxtun. Með innleiðingu MiFID II tilskipunarinnar er lögð ríkari krafa á verðbréfafyrirtæki að veita viðskiptavinum eða hugsanlegum viðskiptavinum upplýsingar með góðum fyrirvara um allan kostnað og tengd gjöld. Í kostnaðarhandbók bankans er að finna yfirlit yfir kostnað og gjöld við fjárfestingar í hluta- og skuldabréfum og er markmiðið að veita fjárfestum aukna og betri yfirsýn yfir þann kostnað sem fylgir fjárfestingum í fjármálagerningum og áhrif á ávöxtun.

Auk kostnaðarhandbókarinnar eru fjárfestum bent á verðskrá verðbréfa– og lífeyrisþjónustu bankans.



Auðkenni lögaðila og einstaklinga

LEI auðkenni

Lögaðilum er skylt að vera með LEI auðkenni (e. Legal Entity Identifier) til að eiga viðskipti með skráð verðbréf frá 1. september 2021.

Markmiðið er að gera alþjóðlegum eftirlitsaðilum kleift að fylgjast með viðskiptum einstakra lögaðila og bæta þannig eftirlit með kerfislegri áhættu og auðvelda rannsókn á misferli tengt verðbréfaviðskiptum.

Nánar um LEI auðkenni

NCI auðkenni

Allir einstaklingar með erlent ríkisfang þurfa að skila inn til bankans svokölluðu NCI auðkenni (e. National Client Identifier) til að eiga viðskipti með skráð verðbréf frá 3. janúar 2018.

NCI auðkenni er alþjóðlegt auðkenni fyrir einstaklinga sem fjármálafyrirtæki nota í skýrsluskilum til eftirlitsaðila.

Nánar um NCI auðkenni


Kvartanir

Hafi viðskiptavinur athugasemdir við meðferð kvörtunar hjá bankanum er honum bent á að kynna sér eftirfarandi:

Réttarúrræði viðskiptavina

Reglur Arion banka um meðferð kvartana