Ábyrgðir

Algengt er að nota bankaábyrgðir í viðskiptum innanlands og milli landa. Bankaábyrgðir geta liðkað fyrir viðskiptum og dregið úr óvissu í samskiptum við önnur fyrirtæki. Í bankaábyrgð felst að banki ábyrgist með óafturkallanlegum hætti greiðslu fyrir vöru, þjónustu eða vegna vanefnda á samningi, og getur seljandinn því verið öruggur um að fá greitt þó svo viðskiptamaður hans standi ekki í skilum.

Skjalaábyrgðir

Skjalaábyrgðir (letters of credit, documentary credits) eru notaðar í viðskiptum milli landa til að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Bankinn greiðir gegn framvísun á skjölum (t.d. vörureikningi, skips- eða flugfarmskírteini og vátryggingarskírteini) sem uppfylla skilmála bankaábyrgðarinnar.

Kaupandi vörunnar þarf ekki að greiða fyrr en bankinn hefur móttekið skjöl sem uppfylla skilmála sem kaupandinn setur sjálfur. Þar sem ábyrgðin er óafturkallanleg er ekki hægt að hætta við ábyrgðina eða gera breytingar á henni nema með samþykki seljandans.

Ábyrgðaryfirlýsingar

Ábyrgðaryfirlýsingar eða bakábyrgðir (letters of guarantee, demand guarantees, standby letters of credit) greiðast venjulega gegn skriflegri kröfu ábyrgðarþegans/seljandans og yfirlýsingu hans um vanefndir ábyrgðarumsækjanda/kaupandans á undirliggjandi samningi.

Greiðsluábyrgðir vegna kaupa á vöru og þjónustu:

  • Verkábyrgðir
  • Húsaleiguábyrgðir
  • Fiskmarkaðsábyrgðir
  • Ábyrgðir vegna endurgreiðslu á VSK vegna byggingaframkvæmda

Nánar um bankaábyrgðir

Bankaábyrgðir eru sjálfstæðir gjörningar, óháðir undirliggjandi samningum. Viðfangsefni bankaábyrgða eru skjöl en ekki þær vörur eða þjónustan sem skjölin tengjast. Það er því skylda bankans að greiða samkvæmt ábyrgðunum berist honum skjöl sem uppfylla ábyrgðarskilmála.

Bankinn gefur út ábyrgðir til erlendra aðila samkvæmt alþjóðlegum reglum um ábyrgðir sem eru útgefnar af International Chamber of Commerce í París (ICC) og viðurkenndar af bönkum um allan heim. Reglurnar stuðla að sama skilningi manna á bankaábyrgðum og sömu vinnubrögðum í mismunandi löndum þrátt fyrir ólík lagaumhverfi, viðskiptavenjur og menningarheima.

Um skjalaábyrgðir gilda reglurnar „Uniform Customs and Practice for Documentary Credits“ sem eru í gildi hverju sinni.

Um bakábyrgðir gilda „Uniform Rules for Demand Guarantees“ vegna Letters of Guarantee og Demand Guarantees en „International Standby Practices – ISP98“ eða „Uniform Customs and Practice for Documentary Credits“ vegna Standby Letters of Credit.

Staðfestar bankaábyrgðir (confirmed letters of credit): Í sumum tilvikum óska erlendir aðilar eftir því að fá bankaábyrgð sem er staðfest af erlendum banka. Þegar banki staðfestir ábyrgð annars banka skuldbindur hann sig til að greiða samkvæmt bankaábyrgðinni eins og hann hefði sjálfur gefið hana út.