Stefna Arion banka um sjálfbærni

Við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem við störfum í. Við setjum okkur í spor viðskiptavina og leitumst stöðugt við að gera betur í dag en í gær. 

Við störfum á eftirsóknarverðum vinnustað þar sem þekking skapar verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu til góða.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hagsmunaðila Arion banka og áhersluatriði varðandi samfélagsábyrgð.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Skuldbindingar, vottanir og þátttaka í samstarfi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni

 
 • Skuldbinding í árslok 2023 um að fá markmið í loftslagsmálum samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi) innan tveggja ára 
 • Aðili að Net-Zero Banking Alliance (NZBA), samtökum banka á alþjóðavísu undir hatti UNEP FI frá desember 2023
 • Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible banking (UN PRB), frá september 2019
 • Einn af stofnaðilum samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, Grænvangs, í september 2019
 • Jafnlaunavottun VR fyrst árið 2015 og Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins frá 2018
 • Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI), frá 2017
 • Einn af stofnaðilum Iceland Sif, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar
 • UN Global Compact, sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá 2016
 • Aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar frá 2015
 • Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti frá 2015
 • Jafnréttissáttmáli UN Women og UN Global Compact frá 2014
 • Aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Umhverfis- og loftslagsstefna Arion banka

Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og nauðsynlegt að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráða.

Við ætlum að leggja okkar af mörkum svo að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum. Við styðjum metnaðarfull áform Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og stefnir bankinn að kolefnishlutleysi sama ár.

Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu. Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í starfsemi sinni.

Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur, lánveitingar og fjárfestingar bankans. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. 

 

Helstu mælikvarðar í tengslum við sjálfbærni

 
Umhverfisþættir

Markmið fyrir árið 2030:
 • hlutfall sjálfbærra lánveitinga verði a.m.k. 20% af heildarlánabók bankans;
 • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi (umfang 1 og 2) um 80% m.v. árið 2015 og kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur;
 • vinna stöðugt að því að ná betur utan um losun vegna aðkeyptra vara og þjónustu (umfang 3) í starfsemi bankans;
 • stuðla að samdrætti í fjármagnaðri losun í þeim atvinnugreinum sem hafa hvað mest áhrif (umfang 3) í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Nýjustu markmið eru birt árlega í skýrslu bankans um fjármagnaða kolefnislosun;
 • markmið í tengslum við fjármagnaðan útblástur séu samþykkt af SBTi.
Undirmarkmið fyrir rekstur bankans árið 2024:
 • að unnið sé að því að hlutfall flokkaðs úrgangs í rekstri bankans sé a.m.k 90%;
 • að bankinn kaupi áfram einungis inn bíla sem nota 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Félagsþættir

Markmið fyrir árið 2024:
 • að unnið sé eftir aðgerðaáætlun bankans í jafnréttis- og mannréttindamálum sem er lögð fram til þriggja ára í senn;
 • að auka hlutfall kvenna í fjárfestingum.
Núverandi markmið 2021-2024 eru m.a.:
 • að viðhalda jafnlaunavottun;
 • að niðurstaða jafnlaunagreiningar sýni launamun kynjanna undir 1%;
 • að miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna sé undir 1,3;
 • að einkunn í könnun um upplifun starfsfólks af jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé að lágmarki 4,2;
 • að starfsfólki verði að jafnaði tryggð 80% af launum í fæðingarorlofi í 6 mánuði óháð kyni;
 • að starfsfólk þekki stefnu sem og forvarnar- og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis;
 • í virðiskeðju bankans, þar með talið í innkaupum og í lánveitingum til fyrirtækja, leitast bankinn við að ganga úr skugga um að alþjóðleg mannréttindi séu virt og að gætt sé að jafnrétti.

Stjórnarhættir

Markmið fyrir árið 2024:
 • að a.m.k. 90% nýrra birgja sem eru með samning við bankann hafi farið í gegnum birgjamat þar sem frammistaða í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum er metin og að sama hlutfall hafi samþykkt siðareglur bankans fyrir birgja;
 • að allt starfsfólk ljúki skyldufræðslu, m.a. um siðareglur, upplýsingaöryggi, varnir gegn peningaþvætti og persónuvernd;
 • að innri markmiðum bankans um þekkingu á viðskiptavinum (KYC/AML) sé náð;
 • að koma á samræmdu áhættumati fyrir mismunandi atvinnugreinar og landsvæði út frá UFS-áhættu í tengslum við fjárhagsleg áhrif á bankann.

Nánari upplýsingar um markmiðin og framgang þeirra má finna í árs- og sjálfbærniskýrslu 2023.

Fréttir