Hlutabréf
Með því að fjárfesta í innlendum hlutabréfum með nokkrum smellum í Arion appinu færð þú frábæra heildarsýn yfir þínar fjárfestingar.
Spurt og svarað
Hvað eru hlutabréf?
Hlutabréf er ein tegund verðbréfa. Með því að kaupa hlutabréf gerist kaupandinn hluthafi í félagi. Hluthafi fer oft með atkvæðarétt á hluthafafundum og ef félag er rekið með hagnaði er gjarnan greiddur út arður til hluthafa, þó fer það eftir samþykki hluthafa á aðalfundi hvers árs. Hlutabréf geta verið skráð í opinberum kauphöllum og ganga þar kaupum og sölum.
Hvað er vörslusafn?
Til að geta átt í viðskiptum með hlutabréf eða sjóði þarf að stofna vörslusafn. Vörslusafn er bankareikningur sem tengist verðbréfasafni og er nauðsynlegt fyrir uppgjör viðskipta með verðbréf og sjóði. Forráðamenn geta stofnað vörslusafn fyrir ófjárráða hér.
Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég tek ákvörðun?
Áður en fjárfestingarákvarðanir eru teknar mælum við með að huga að fjárfestingartíma, áhættuþoli og viðhorfi til áhættu. Sjá nánar hér.
Hvernig fæ ég hæstu ávöxtun?
Almennt er talið að með áhættusamari fjárfestingum eins og hlutabréfum megi ná fram hærri langtímaávöxtun þó skammtímasveiflur geti vissulega orðið meiri. Mikilvægt er að hafa í huga til hve langs tíma á að fjárfesta og hvort þú þolir sveiflur í ávöxtun. Ef fjárfesta á til skemmri tíma er ekki ráðlagt að taka mikla áhættu og því ráðlegra að horfa til áhættuminni fjárfestinga.
Hvað er áhætta?
Ef skoðuð er ávöxtun ýmissa fjárfestinga í tímans rás kemur í ljós að aukin ávöxtun til langs tíma hefur að jafnaði í för með sér meiri áhættu. Sú áhætta felst að miklu leyti í sveiflum á verði verðbréfa til skamms tíma. Þar sem verðsveiflur eru einn helsti mælikvarðinn á áhættu eru verðbréf með litlar verðsveiflur talin áhættulítil en verðbréf með miklar verðsveiflur talin áhættumikil. Hlutabréf eru almennt talin áhættumeiri en skuldabréf og hlutabréfaeigendur standa aftar en skuldabréfaeigendur í svokallaðri kröfuhafaröð. Miklu máli skiptir hvaða útgefendur eru á bak við verðbréf. Verðbréf sem eru útgefin af fjárhagslega sterkum útgefendum eru yfirleitt áhættuminni en verðbréf sem eru útgefin af ótraustum útgefendum.
Er einhver lágmarksupphæð til að kaupa í innlendum hlutabréfum?
Lágmarksupphæð til að kaupa í stökum innlendum hlutabréfum er 20.000 kr.
Hvað er kaup- og sölutilboð hlutabréfa?
Hæsta kauptilboð er það verð sem einhver mótaðili á markaðnum er tilbúinn að borga fyrir bréfið á ákveðnum tímapunkti. Þegar hlutabréf eru seld á markaðsgengi er besta kauptilboði tekið. Lægsta sölutilboð er það verð sem einhver mótaðili á markaðnum er tilbúinn að selja bréfið á, á ákveðnum tímapunkti. Þegar hlutabréf eru keypt á markaðsgengi er lægsta sölutilboði tekið.
Hvernig framkvæmi ég hlutabréfaviðskipti í netbanka og appi?
- Í appinu: Farið er inn í Arion appið, vörslusafnið valið á upphafsskjánum. Þar er smellt á „verðbréf“, næsta skref er að velja félagið sem kaupa á í og smella á það. Þá kemur upp takki sem á stendur „kaupa“. Þar er hægt að velja hvort kaupa eigi á markaðsgengi eða setja inn markpöntun, þ.e. kaupa á völdu gengi eða lægra.
- Í netbankanum: Farið er inn í netbanka Arion. Valið er „verðbréf“ á valstikunni vinstra megin. Næsta skref er að smella á „hlutabréf“ og velja það félag sem á að kaupa í valið og smella á „kaupa“ lengst til hægri.
Hver er uppgjörstími viðskipta?
Uppgjörstími hlutabréfa er tveir virkir dagar (T+2).
Get ég átt viðskipti með erlend hlutabréf í gegnum Arion?
Það er hægt en þó ekki í gegnum netbankann eða appið. Til þess þarf að hafa samband við verðbréfaþjónustu Arion í síma 444 7000 eða í gegnum verdbrefathjonusta@arionbanki.is.
Hvernig framkvæmi ég millifærslu af vörslureikningi yfir á annan reikning í minni eigu?
- Í appinu: Farið er inn í Arion appið. Vörslusafnið valið á upphafsskjánum. Undir “bankareikningar” kemur upphæðin, smellt er á hana og þá kemur “beiðni um millifærslu af bankareikningi”. Þar er valið inn á hvaða reikning á að millifæra.
- Í netbankanum: Farið er inn í netbanka Arion. Smellt er á ,,verðbréf“ vinstra megin á valstikunni, og því næst ,,staða“. Neðst í horninu hægra megin er smellt á ,,beiðni um millifærslu af bankareikningi“.
Hvaða kostnaður fylgir viðskiptum með hlutabréf?
- Kaup- og söluþóknun vegna viðskipta með innlend hlutabréf er 1%, þó er veittur 25% afsláttur af þeirri þóknun séu viðskiptin framkvæmd í appi eða netbanka og er því 0,75%.
- Afgreiðslugjald er innheimt af öllum viðskiptum með hlutabréf í samræmi við verðskrá Arion.
Hvað er vörsluþóknun?
Árlega greiðir viðskiptavinur í verðbréfaþjónustu vörsluþóknun. Hjá viðskiptavinum í eignastýringu er vörsluþóknunin gjaldfærð mánaðarlega. Vörsluþóknunin er m.a. til að standa straum af gjaldi til Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og erlendra vörsluaðila vegna vörslu verðbréfa. Hún er jafnframt vegna útsendingar árlegra yfirlita til viðskiptavina, afstemmingar á eignum við verðbréfamiðstöð og erlenda vörsluaðila, vöktunar vegna arðgreiðslna, afborgana skuldabréfa, útdráttar húsbréfa og samanburðar við erlendar og innlendar gengisveitur svo eitthvað sé nefnt.
Á afurðum Arion sem og sjóðum Stefnis er gefinn 100% afsláttur af vörsluþóknunum.
Fyrirvari
Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Þá er vakin athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Upplýsingar þær sem hér koma fram byggja á heimildum sem taldar eru áreiðanlegar en ekki er hægt að ábyrgjast að þær séu réttar. Áskilinn er réttur til leiðréttinga. Arion banki eða starfsmenn bankans bera enga ábyrgð á ákvörðunum eða viðskiptum sem aðilar kunna að eiga í ljósi þeirra upplýsinga sem hér koma fram.
Varðandi samanburð þann sem unnt er að gera á síðunni, ef viðskiptavinur kýs, skal tekið fram að samanburðurinn kann að vera marklaus. Fjármálagerningar fela í sér mismunandi áhættu og áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu er mikilvægt að kynna sér vel eðli viðkomandi fjármálagernings og áhættur tengdar honum. Samanburðurinn er einungis til upplýsingar en ætti ekki að vera lagður til grundvallar viðskiptum að óathuguðu máli. Ekki skal litið á niðurstöðu samanburðar sem ráðleggingu um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu.