Athugasemd við kortafærslu

Það er nauðsynlegt að reyna að leysa málið beint við söluaðila áður en hægt er að framkvæma endurkröfu á færslu. Ef það gengur ekki þá aðstoðum við þig með endurkröfuferlið.

Ef þú kannast ekki við færslu á kortinu þínu er hægt að frysta debet og kreditkort strax í Arion appinu á meðan málið er skoðað. Ef eftirgrennslan bendir til að um sviksamlega færslu sé að ræða þarf að hafa samband við Arion banka sem fyrst og loka viðkomandi greiðslukorti áður en endurkröfuferlið er sett af stað. Utan opnunartíma bankans er hægt að hringja í vaktþjónustu Rapyd í síma 525-2000.

Gera endurkröfu

Ekki með rafræn skilríki

Ef þú hefur ekki rafræn skilríki þá þarf að gera endurkröfu með því að fylla út og undirrita endurkröfueyðublað og senda það ásamt viðeigandi fylgigögnum á endurkrofur@arionbanki.is eða skila því inn í næsta útibú.

Lengd endurkröfuferlis

Athugið að endurkröfuferlið tekur að jafnaði 5 – 10 vikur frá því að öll gögn berast. Tímalengd ræðst af eðli máls og þeim gögnum sem er framvísað með kröfunni. Mál geta dregist lengur ef söluaðili mótmælir endurkröfubeiðni.

Til að minnka líkurnar á að mál tefjist eða réttur til endurkröfu falli niður er mikilvægt að senda öll viðeigandi gögn með umsókn um endurkröfu.

Endurkröfuréttur kortafærsla

Ekki er hægt að gera endurkröfu á sviksamlegum forsendum á færslur sem korthafi framkvæmir og staðfestir sjálfur. Á það við um færslur sem eru framkvæmdar með PIN númeri, með greiðslulausn í farsíma eða netfærslur sem eru staðfestar í appi eða netbanka.

Athugið, ef valið er að gera endurkröfu á forsendu kortasvika þá er líklegt að henni verði hafnað ef seljandi getur sýnt fram á að það var handhafi kortsins sem framkvæmdi kaup. Ef endurkröfu er hafnað er ekki hægt að hefja nýtt endurkröfuferli á nýjum forsendum, til dæmis á þeim forsendum að pöntuð vara var ekki afhent. Það er því mikilvægt að gera endurkröfu á réttum forsendum og láta öll viðeigandi gögn fylgja strax í upphafi máls.

Þeir skilmálar sem samþykktir eru við kaup á vöru eða þjónustu ákvarða rétt korthafa til að óska eftir endurgreiðslu. Á þetta meðal annars við um rétt til endurgreiðslu ef þjónusta eða áskrift er afpöntuð eða ef pöntuð vara er ekki móttekin.

Algengar endurkröfur

Réttarúrræði viðskiptavina

Ef endurgreiðsla á kortafærslu fæst ekki í gegnum endurkröfuferli kortsins og viðskiptavinur er ósáttur við svör bankans þá getur hann nálgast upplýsingar um hvernig hann kemur kvörtun á framfæri á vefsíðunni Réttarúrræði viðskiptavina. Á þeirri síðu eru jafnframt upplýsingar um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en nánari upplýsingar um þá úrskurðarnefnd má finna á nefndir.is.