Umsækjendur – Hagnýt ráð

Umsókn – Ferilskrá og kynningarbréf

Vel gerð ferilskrá og vandað kynningarbréf eru mikilvægir þættir þegar kemur að því að sækja um starf.

Í ferilskrá koma fram almennar upplýsingar um þig, menntun, starfsreynslu, félagsstörf, tungumála- og tölvukunnátta ásamt upplýsingum um umsagnaraðila. Ráðlagt er að segja örstutt fá helstu verkefnum í þeim störfum sem þú hefur sinnt og hvað þú lagðir áherslu á í náminu þínu. Æskilegt er að hafa ferilskrá stutta, hnitmiðaða og skýra. Hæfileg lengd er 1-2 blaðsíður.

Kynningabréf er sniðið að því starfi sem þú sækir um. Í kynningabréfi segir þú frá því hvers vegna þú hefur áhuga á umræddu starfi og hvernig þú uppfyllir þær hæfniskröfur sem settar eru fram í auglýsingunni. Gott kynningabréf er grípandi og vekur áhuga bankans á þér sem umsækjanda.

Það er mikilvægt að passa að gögn sem þú sendir frá þér séu laus við innsláttar- og starfsetningarvillur og að málfar sé vandað. Einnig er mikilvægt að þú sért heiðarlegur og tilbúinn til þess að greina nánar frá því sem fram kemur í gögnum, sé þess óskað. Vista skal ferilskrá og kynningarbréf með nafni og kennitölu á PDF formi.

Viðtal

Að fara í atvinnuviðtal getur verið krefjandi en á sama tíma skemmtilegt. Markmið bankans með viðtali er að fá frekari upplýsingar um þig sem umsækjanda og hvernig þú uppfyllir þær hæfniskröfur sem settar hafa verið fram fyrir umrætt starf. Atvinnuviðtal er einnig tækifæri fyrir þig til þess að fá frekari upplýsingar um starfið og fyrirtækið. Það er því mikilvægt að vera vel undirbúinn fyrir viðtal, mæta tímanlega og vera snyrtilegur til fara. Við mælum með því að umsækjendur kynni sér heimasíðu og samfélagsmiðla Arion banka áður en mætt er í viðtal.

Dæmi um spurningar í viðtali:

  • Hvers vegna sækir þú um þetta starf?
  • Getur þú sagt mér frá starfsreynslunni þinni og hvernig þú telur að sú reynsla geti nýst í þessu starfi?
  • Getur þú nefnt dæmi þar sem þú hefur sýnt frumkvæði í starfi?
  • Hvað hefur þú að leiðarljósi í samskiptum við samstarfsmenn?

Í viðtali er mikilvægt að vera maður sjálfur, sýna yfirvegun og vera jákvæður. Mikilvægast er þó að hafa gaman og læra af reynslunni.

Umsagnaraðilar

Umsagnaraðilar eru í flestum tilfellum einstaklingar sem þekkja þig úr núverandi eða fyrri störfum. Æskilegt er að benda á næsta yfirmann. Ekki er ráðlagt að skrá fjölskyldumeðlimi eða vini sem umsagnaraðila.