Stelpurnar okkar á HM
Í dag mun íslenska kvennalandsliðið í handbolta hefja leik á HM þegar þær spila sinn fyrsta leik á móti Þýskalandi.
Það er óhætt að segja að eftirvæntingin sé mikil og erum við hjá Arion gríðarlega spennt að fylgjast með stelpunum okkar og hlökkum mikið til að hvetja þær áfram.
Allir leikir íslenska liðsins verða sýndir á RÚV. Hér fyrir neðan má sjá dagsetningar og tíma leikjanna.
Áfram Ísland!
| 26. nóvember | kl. 17:00 | Ísland - Þýskaland |
| 28. nóvember | kl. 19:30 | Ísland - Serbía |
| 30. nóvember | kl. 14:30 | Ísland - Úrúgvæ |

„Góður kvennahandbolti er líka oftast bara skemmtilegri“
Arnar Pétursson hefur þjálfað íslenska kvennalandsliðið frá árinu 2019 og stýrir stelpunum okkar nú á HM 2025, sem haldið er í Þýskalandi og Hollandi.
Arnar er Eyjamaður í húð og hár og sogaðist snemma inn í handboltann enda öflugar fyrirmyndir á hverju strái: Alli Gísla, Stjáni Ara, Júlli Jónasar.
„Það voru töffarar sem höfðu hvetjandi áhrif á mann. Á þessum tíma voru líka tvö lið í Eyjum, Týr og Þór. Um helgar börðumst við upp á líf og dauða svo sátum við saman í skólastofunni á virkum dögum, bestu félagar.“
Arnar er kominn út til Þýskalands þegar við náum tali af honum. Það er daginn fyrir fyrsta leik íslenska landsliðsins við heimakonurnar sjálfar í Þýskalandi og Arnar segir að stelpurnar okkar séu á mikilli siglingu, orka í liðinu sem sé ungt, ferskt og kraftmikið.
Sérðu miklar breytingar á kvennahandboltanum síðan þú tókst við þjálfarastöðunni 2019?
„Já, kvennahandboltinn hefur þróast hratt síðustu tíu, fimmtán árin og mér finnst að við séum alltaf að nálgast þessi bestu lið úti í heimi. Góður kvennahandbolti er líka oftast bara skemmtilegri en karlabolti. Hjá stelpunum er meiri léttleiki og hraði. Sú þróun hefur reyndar líka átt sér stað í karlaboltanum, leikurinn er orðinn hraðari og léttari.“
Hvað einkennir góðan handboltamann?
„Bara það sama og einkennir góðan íþróttamann almennt. Gott hugarfar – að sækja meira, vilja meira. Og þrautseigja. Að gera alltaf sitt besta og keppast sífellt við að gera betur og betur. Vera góður í núinu og hafa skýra framtíðarsýn.“
En góðan þjálfara?
„Ætli það sé ekki svipað og með leikmanninn? Þjálfarinn þarf að vita hvert liðið ætlar og vill fara. Hann þarf að vera agaður, með gott skipulag, en geta líka lagað hlutina að breyttum aðstæðum. Svo er það samkenndin, við vinnum mikið með hana. Allt liðið er saman í verkefninu og við berum virðingu hvert fyrir öðru, fyrir tilfinningum hinna.“
Við óskum Arnari góðs gengis á HM 2025 og hlökkum til að fylgjast með og styðja stelpurnar á mótinu. Áfram Ísland!

