Ábyrgar fjárfestingar og stjórnarhættir

Meginhlutverk viðbótarlífeyrissparnaðar Arion banka - Lífeyrisauka er að ávaxta lífeyrissparnað sjóðfélaga og tryggja þeim hæstu mögulegu ávöxtun hverju sinni og til lengri tíma m.t.t. áhættu.

Eignastýring Arion banka, sem annast eignastýringu Lífeyrisauka, telur þá fjárfestingarkosti áhugaverða sem mæta samtímaþörfum sjóðfélaga, án þess þó að tefla í hættu framtíðarþörfum komandi kynslóða. Í 36. gr laga nr. 129/1997 (Oft nefnd lífeyrissjóðalögin) er tekið fram að stjórn lífeyrisjóða skuli móta og kunngera fjárfestingastefnu fyrir sjóðinn í samræmi við þær reglur sem lögin setja. Árið 2017 var bætt við greinina því skilyrði að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum. Með það að markmiði hefur starfsstjórn Lífeyrisauka leitað í fræði ábyrgra fjárfestinga og mótað sjóðnum stefnu þess efnis.

Aðalmarkmið ábyrgra fjárfestinga er að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS e. ESG). Fjárfestar velja margir hverjir að horfa til þessara þátta þegar verið er að greina og meta fjárfestingarkosti og fer sá áhugi vaxandi.

Umhverfi

Umhverfisleg viðmið snúa að frammistöðu og eftirliti í loftslags- og umhverfismálum og því hvernig gætt er að umhverfisáhrifum starfseminnar.

Félagslegir þættir

Félagsleg viðmið snúa að því hvernig hugað er að starfsfólki svo og samfélaginu sem það starfar í, s.s. jafnrétti innan fyrirtækja, almennum mannréttindum og öryggi.

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir snúa m.a. að stjórnun og skipulagi, birgjum, kjörum starfsfólks og aðgerðum gegn spillingu og mútum.

Viltu vita meira?

Þátttaka í umræðu

Starfsfólk Arion banka, tekur virkan þátt í innlendri og erlendri umræðu um málefni ábyrgra fjárfestinga. Hafa meðal annars skrifað fjölda greina sem meðal annars er að finna á vefsíðu Arion banka ásamt því að hafa tekið þátt í pallborðsumræðum, staðið fyrir fræðslu- og upplýsingarfundum svo og gefið út rit um umboðsskyldu.

Ábyrgar fjárfestingar

Lífeyrisauki hefur mótað sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem markar stefnu sjóðsins um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sem hluta af þeirri stefnu hefur sjóðurinn einnig sett sér hluthafastefnu sem skilgreinir kröfur sjóðsins til stjórnarhátta í innlendum skráðum félögum þar sem hann er hluthafi.

Þátttaka í umræðu

24. janúar 2022

Glíman við tímann

„Hvaða áramótaheit strengdir þú?“ Fyrsti vinnudagur á nýju ári felur undantekningalaust í sér sömu spurninguna við kaffivélina.

Nánar

Ábyrgar fjárfestingar

Eignastýring Arion banka hefur innleitt verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína þar sem horft er til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Samhliða því er tekin hliðsjón af sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact).

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN Principles for Responsible banking), sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja (e. UN Global Compact) og meginreglum Sameinuð þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investment).

Eignastýringaraðili tekur tillit til UFS þátta í allri greiningarvinnu á stökum fjárfestingum eða sjóðum og kallar eftir viðeigandi upplýsingum um UFS þætti sem nýttar eru við heildarmat við fjárfestingarákvarðanir. Árið 2018 ákvað eignastýringaraðili að hitta og nálgast forsvarsaðila allra skráðu innlendu félaganna á Aðallista Nasdag Iceland eftir að hafa tekið út og greint ófjárhagslega upplýsingagjöf þeirra. Fulltrúum eignastýringar var almennt vel tekið af félögunum en markmið þessarar vinnu var að fá félögin til að auka og bæta ófjárhagslega upplýsingagjöf sína. Þessi vinna var endurtekin árið á eftir og skilaði sér meðal annars í bættri og aukinni upplýsingagjöf. Árið 2020 var tekin sú ákvörðun að kaupa hluta af greiningarvinnu frá félaginu Reitun til þess að styrkja enn frekar ferlið við mat á innlenda markaðnum og til að geta lagt aukna áherslu á aðra eignaflokka.

Við UFS mat á öðrum eignaflokkum en skráðum innlendum félögum á Aðallista Nasdaq Iceland er einnig stuðst við greiningu Reitunar. Þau félög sem greiningaraðilinn Reitun tekur ekki út og eru í eignasafni eru metin út frá stefnum, skýrslum tengdum samfélagslegri ábyrgð og/eða öðrum viðeigandi gögnum. Hvað varðar sjóðastýringarfyrirtæki er spurningarlisti sendur út þar sem markmiðið er að svör snerti á stefnu þeirra í ábyrgum fjárfestingum, svo sem hvort félög eru aðilar að UN PRI, til hvaða viðmiða sé horft í fjárfestingum ásamt því hvernig rekstraraðili eða sjóður nálgast samfélagsábyrgð í fjárfestingum.

Megináherslan er á aðrar eignir en eignir í slitaferli, ríkisskuldabréf/sjóði, og fjárfestingarkosti líkt og afleiðusamninga sem fylgja hefðbundnum viðskiptum með fjármálagerninga. Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð Arion banka má finna hér.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar og hluthafastefna

Lífeyrisauki er viðbótarlífeyrissparnaður Arion banka sem stofnaður var árið 1999. Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árslokum 2016. Arion banki er virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og var meðal annars einn af stofnaðilum samtakanna IcelandSIF árið 2017. Árið 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI).

Innan Lífeyrisauka er lögð áhersla á siðferðisleg gildi við fjárfestingarákvarðanir og meðvitund er um þá staðreynd að fjárfestingarákvarðanir hafa áhrif á ólíka hagsmunaaðila, umhverfið og samfélagið í heild sinni. Sjónarmið um langtímafjárfestingarsýn eru í samræmi við stefnu sjóðsins um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar og fara hönd í hönd með ábyrgum og sjálfbærum viðskiptaháttum. Lífeyrisauki hefur það að leiðarljósi við fjárfestingar að hámarka ávöxtun til langs tíma litið að teknu tilliti til áhættu.

Ábyrgar fjárfestingar

Ábyrgar fjárfestingar eru fjárfestingar sem auk þess að taka tillit til áhættu og ávöxtunar taka tillit til umhverfis-, samfélags- og stjórnarhátta. Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar markar stefnu Lífeyrisauka um siðferðileg viðmið í fjárfestingum. Stefna Lífeyrisauka um ábyrgar fjárfestingar nær til allra fjárfestinga sjóðsins en sérstök áhersla er lögð á fjárfestingar á skráðum innlendum hlutabréfamarkaði. Stefnan tekur sérstaklega til umhverfis- og samfélagsþátta, varðandi áherslur sjóðsins um stjórnarhætti vísast til hluthafastefnu sjóðsins.

Grunngildi og viðmið

Grunngildi Lífeyrisauka í ábyrgum fjárfestingum eru að félög sem sjóðurinn á eignarhlut í fari að þeim lögum og reglum sem um starfsemi þeirra gilda. Auk þessara grunngilda setur sjóðurinn sér viðmið um ábyrgar fjárfestingar með hliðsjón af grunngildum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (UN Global Compact).

Viðmiðin fela í sér kröfu sjóðsins til þess að félög í hans eigu;

  • Virði alþjóðleg mannréttindi og eigi ekki hlut í broti á þeim.
  • Virði réttindi aðila á vinnumarkaði.
  • Styðji við félagafrelsi og viðurkenni rétt starfsfólks til kjarasamninga.
  • Eigi ekki þátt í hverskonar nauðungar- og þrælkunarvinnu og styðji við afnám misréttis til vinnu
    og starfsvals.
  • Beiti sér fyrir varúðarreglu í umhverfismálum, hvetji til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu
    og stuðli að þróun og nýtingu á umhverfisvænni tækni.
  • Beiti sér gegn hverskonar spillingu á borð við kúgun og mútur.
Framkvæmd stefnu

Sem fjárfestir á markaði hefur Lífeyrisauki hagsmuni af því að félög sem hann á eignarhlut í tileinki sér ábyrga og sjálfbæra viðskiptahætti. Þannig er horft til grunngilda og viðmiða sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar við fjárfestingarákvarðanir og vinnu við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Fjárfestingar sjóðsins á erlendum mörkuðum eru almennt í sjóðum frekar en í einstökum erlendum verðbréfum. Í þeim tilvikum er stefna rekstraraðila sjóða í ábyrgum fjárfestingum könnuð og niðurstaðan höfð til hliðsjónar við heildarmat á fjárfestingarkostum.

Komi í ljós að félag í eignasafni sjóðsins verði uppvíst af fráviki á grundvelli þessara grunngilda og viðmiða mun sjóðurinn beita sér fyrir því að umrætt félag ráðist í viðeigandi úrbætur. Við slíka ákvörðun er ávallt gætt ýtrustu varfærni þar sem heildarhagsmunir sjóðsins og sjóðfélaga eru hafðir að leiðarljósi.

Hluthafastefna Lífeyrisauka

Gildissvið

Markmið hluthafastefnu þessarar er að skilgreina þær kröfur sem sjóðurinn gerir að jafnaði til þeirra félaga sem hann fjárfestir í ásamt því að auka gagnsæi sjóðsins sem hluthafa og stuðla að trúverðugri aðkomu sjóðsins að viðkomandi félögum.

Samkeppnissjónarmið

Lífeyrisauki leggur áherslu á að félög sem sjóðurinn á eignarhluti í eigi að jafnaði í virkri samkeppni á viðkomandi markaði.

Hluthafafundir

Almenna reglan er sú að sjóðurinn nýtir ekki atkvæði sitt á hluthafafundum. Komi til þess að sjóðurinn nýti atkvæði sitt mun Lífeyrisauki gera upplýsingar aðgengilegar um það hvernig sjóðurinn greiddi atkvæði á hluthafafundum.

Val og kröfur til stjórnarmanna

Lífeyrisauki gerir almennt ekki tillögu um stjórnarmenn fyrir hluthafafund þar sem kosning stjórnar fer fram. Ákveði sjóðurinn að leggja fram slíka tillögu skipar rekstrarstjóri sjóðsins valnefnd sem tekur ákvörðun um hvaða einstaklinga sjóðurinn styðji til stjórnarsetu í viðkomandi félagi. Slíkt val skal byggja á faglegu ferli þar sem horft er m.a. til þekkingar og reynslu einstaklinga ásamt samsetningu stjórnar hjá viðkomandi félagi.

Lífeyrisauki gerir kröfu um að stjórnarmenn í félögum sem falla undir stefnu þessa starfi í samræmi við góða stjórnarhætti, séu sjálfstæðir í störfum sínum og hafi ætíð hagsmuni viðkomandi félags að leiðarljósi.

Sjóðurinn leggur áherslu á að stjórn félaga sem falla undir stefnu þessa starfi í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og gæti að því að jafnvægi sé á milli langtímahagsmuna félagsins og að hámarka virði þess.

Samskipti við stjórnarmenn og stjórnendur

Lífeyrisauki hefur ekki afskipti af stjórnarstörfum einstaklinga eftir að þeir hafa verið kosnir í stjórn þeirra félaga sem falla undir stefnu þessa. Sjóðurinn leggur áherslu á sjálfstæði stjórnarmanna sé virt sem og þagnar- og trúnaðarskylda sem á þeim hvílir.

Ef sjóðurinn þarf að eiga samskipti við stjórn og/eða stjórnendur félags skal það gert í samræmi við verklagsreglur viðkomandi félags. Gæta þarf að slík samskipti séu í samræmi við ákvæði samkeppnislaga og reglur um meðferð innherjaupplýsinga.

Telji sjóðurinn ástæðu til að gera athugasemdir við verklag félags sem fellur undir stefnu þessa mun hann koma ábendingum þar um á framfæri þess efnis. Sé ekki brugðist við slíkum ábendingum kann sjóðurinn að gera grein fyrir afstöðu sinni á hluthafafundi eða með öðrum hætti.

Starfskjör

Sjóðurinn gerir þá kröfu að starfskjarastefna félaga uppfylli kröfur hlutafélagalaga og taki mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti.

 
Samþykkt á fundi starfsstjórnar Lífeyrisauka 29.11.2019

Kolefnisspor Lífeyrisauka

Síðustu misseri hefur eignastýring stigið frekari skref í greiningu á eignasafni sjóðsins. Meðal annars hefur verið lagt mat á kolefnisfótspor beinnar eignar í innlendum skráðum félögum og hlutfall grænna fjárfestinga í eignasafni sjóðsins áætlað. Helsta losun gróðurhúsalofttegunda Lífeyrisauka er í gegnum fjárfestingar sjóðsins og á sér stað í gegnum eignarhald í fyrirtækjum, beint og óbeint. Eins og er takmarkast yfirlit yfir kolefnissporið við skráð innlend félög en fyrir liggur að sú vinna verði tekin lengra á næstu árum og yfirlitiðnái enn frekar utan um eignasafnið. Áætluð nettó CO2 losun vegna beins eignarhlutar í árslok 2021 í innlendum skráðum félögum miðað við tölur frá félögunum fyrir árið 2020 var 149,5 tonn eða 0,12 tonn á hverja 100 m. kr. í eignasafni Lífeyrisauka í heild sinni, en nánari skiptingu má sjá í neðangreindri mynd.

Kolefnisspor innlendra skráðra hlutabréfa

Grænar fjárfestingar

13 Innlendir lífeyrissjóðir komu sér saman um flokkun grænna eigna í kjölfar viljayfirlýsingar þeirra gagnvart alþjóðlegu samtökunum CIC árið 2021. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá eignir Lífeyrisauka í árslok 2021 sem flokkast undir grænar fjárfestingar í lok árs 2021. Þess ber að geta að enn á eftir að ná utan um heildar eignasafn á fullnægjandi hátt en fyrirhugað er að halda þeirri vinnu áfram.

Grænar fjárfestingar í hlutabréfum
Heiti félags Hlutfall af heildareignum  CIC hæfi - hlutfall* 
HSV eignarhaldsfélag slhf.
0,32%  100% 
Innviðir fjárfestingar slhf.
0,07%  92% 
Reginn hf. 0,17%  23% 
Stefnir-Íslenski Athafnasjóðurinn I
0,01%  73% 

 

Grænar fjárfestingar í skuldabréfum
Heiti útgefanda Hlutfall af heildareignum  CIC hæfi - hlutfall* 
Íslandsbanki hf. 3,5% - 26.11.2025 
0,11%  100% 
Lánasjóður sveitarfélaga 1,5% - 04.04.2040
0,03%  100% 
Orkuveita Reykjavíkur hf. 4,5% - 18.02.2042
0,07%  100% 
Orkuveita Reykjavíkur hf. 1,7% - 02.09.2034
0,13%  100% 
Orkuveita Reykjavíkur hf. 3,1% - 09.05.2046
0,66%  100% 
Orkuveita Reykjavíkur hf. 2,6% - 18.02.2055
1,07%  100% 
Reginn hf. 2,477% - 20.08.2050
0,33%  100% 
Reykjavíkurborg 4,5% - 21.08.2040 0,17%  100% 
Reykjavíkurborg 2,385% - 21.10.2048
0,25%  100% 

*CIC hæfi segir til um hve hátt hlutfall af markaðsvirði eignar telst sem græn fjárfesting samkvæmt flokkun 13 innlendra lífeyrissjóða í árslok 2021.