Heilsu- og öryggisstefna
Með heilsu- og öryggisstefnu Arion leggjum við grunninn að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað þar sem heilsa, öryggi og velferð starfsfólks er í forgrunni.
Markmið
- Gæta þess að starfsfólk sé verndað gegn hvers konar heilsuvá í starfsumhverfinu
- Tryggja öryggi á vinnustað og uppfylla lögbundnar kröfur um heilbrigði og öryggi
- Stuðla að bættri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu starfsfólks
- Forvarnarstarf með fræðslu, aðgengi að faglegri þjónustu og hvetjandi starfsumhverfi
- Auka vitund starfsfólks um eigin heilsu og mikilvægi heilsueflingar
- Draga úr fjarveru starfsfólks vegna veikinda eða slysa
Megináherslur
Heilsuvernd
Styðjum við heilsueflingu starfsfólks með margvíslegum hætti og leggjum okkar af mörkum til þess að auka vitund starfsfólks um mikilvægi þess að hlúa að andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Öryggi og vinnuvernd
Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kemur fram að fyrirtæki skuli tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Með formlegri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum stuðlum við að því að starfsfólk sé verndað gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem kann að stafa af störfum þeirra eða starfsskilyrðum, hvort sem um er að ræða andlega, líkamlega eða félagslega heilsu.
Vellíðan og jafnvægi
Bjóðum eftirsóknarvert starfsumhverfi og fjölskylduvænan vinnustað. Vinnuaðstaðan er til fyrirmyndar og hönnuð til að mæta mismunandi þörfum starfsfólks á hverjum tíma. Með sveigjanleika og fjarvinnustefnu mætum við þörfum starfsfólks og stuðlum að bættu jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
Jákvæð samskipti
Gætum að sálrænu öryggi starfsfólks og tryggjum heilbrigð samskipti sem byggja á virðingu og vinsemd. Starfsfólk vinnur saman að því að skapa starfsumhverfi sem er auðgandi, skemmtilegt og hvetjandi.
Greining áhættuþátta, forvarnir og mælingar
Greining
Greinum og fylgjumst með áhættuþáttum á hverjum tíma með margvíslegum hætti. Hjá Arion er starfandi vinnuverndarnefnd sem fylgir eftir formlegri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum, framkvæmir áhættumat og gerir aðgerðaráætlun út frá athugasemdum.
Forvarnir
Arion er í samstarfi við viðurkenndan þjónustuaðila sem hefur það hlutverk að vera mannauði, stjórnendum og starfsfólki innan handar varðandi forvarnir, meðferðir og eftirlit með heilsu starfsfólks. Þá er boðið upp á fjölbreytta heilsutengda fræðslu s.s. fræðslu um líkamsbeitingu við vinnu, álags- og streitustjórnun, bandvefsnudd, heilahreysti og fleira. Einnig er boðið uppá ráðgjöf frá iðjuþjálfa, skyndihjálparnámskeið, EKKO námskeið, bólusetningu, heilsufarsmælingar, styrki vegna heilsuverndar og aðgengi að líkamsrækt. Með framúrskarandi vinnuaðstöðu þar sem hugað er að loftgæðum, hljóðvist og aðbúnaði, með áherslu á jafnvægi vinnu og einkalífs, stuðningi við foreldra í fæðingarorlofi og skýra sýn í jafnréttismálum sköpum við starfsumhverfi þar sem heilsa, öryggi og velferð starfsfólks er í fyrirrúmi.
Mælingar, viðbrögð og eftirfylgni
Við höfum eftirlit með velferð starfsfólks og mælum árangur m.a. með reglulegum starfsmannakönnunum, árlegri vinnustaðagreiningu, EKKO-mælingum og áhættumati. Þá rýnum við niðurstöður heilsufarsmælinga, fylgjumst með fjarveru vegna veikinda og reiknum út heilsumælikvarða. Einnig eru framkvæmdar nýliða- og starfslokakannanir, menningarmælingar, mælingar á inngildingu og haldið utan um veikindatölfræði með markvissum hætti. Niðurstöður mælinga eru rýndar reglulega og gripið til viðeigandi aðgerða ef þörf er á.