„Við þurfum að sýna okkur þá mildi að mega hafa metnað“
Það er gaman að ræða við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja, enda hefur hún augljósa ástríðu fyrir þeim málum sem hún berst fyrir, einkum á sviði mennta- og uppeldismála. Hún er fyrsta konan til að gegna núverandi stöðu sinni í byggðinni þar sem hún er fædd og uppalin, og fer ekki í neinar grafgötur með að henni er afar annt um æskuslóðirnar.
Íris tók við stöðu bæjarstjóra í Eyjum árið 2018 og segist hafa talið að það yrði meira mál að ganga inn í hlutverkið, en að hún hafi svo einungis upplifað jákvæðni og stuðning.
„Ég held að það sé nú bara tilviljun að ég sé fyrsta konan frekar en að samfélagið hefði sett sig upp á móti því hér á árum áður að fá konu í bæjarstjórann.“
Að mati Írisar skiptir máli að konur séu í forsvari á öllum sviðum samfélagsins til jafns við karla.
„Á Íslandi höfum við stundum óttast fjölbreytnina. En það er samfélaginu til heilla að sem flestar raddir komi saman. Það styrkir alltaf lokaútkomuna.“
Menntun „hardkor“ efnahagsmál
Íris er elst fimm systkina og segist stundum grínast með að hún sé „frumgerðin“ í hópnum. Hún sé alin upp við fjörugar umræður við eldhúsborðið og segir að stemning hafi oft verið svolítið „ítölsk“. Hún hafi því snemma vanist kröftugum rökræðum og lært að skjóta sterkum stoðum undir skoðanir sínar.
Íris hleypti heimdragandanum nítján ára gömul og ferðaðist þá vestur um haf til að starfa sem aupair Í New Jersey, Bandaríkjunum. Það hafi verið mikill mótunartími enda komst hún þar í snertingu við efstu lög bandarísks samfélags og sá eitt og annað í starfi sínu, hitti meðal annars núverandi Bandaríkjaforseta.
Þegar hún sneri aftur til Íslands, reynslunni ríkari, lauk hún menntaskólanámi, vann í nokkur ár á hóteli en skráði sig svo í Kennaraháskólann. Í kjölfar útskriftar starfaði hún í fimmtán ár við kennslu í Vestmannaeyjum, sem skýrir djúpa innsýn hennar í íslenskt menntakerfi og ástríðu fyrir þessum málaflokki, sem hún fyllyrðir að sé hryggjarstykkið í samfélaginu, undirstaða heilbrigðs samfélags, lýðræðislegrar umræðu og öflugs atvinnulífs.
„Oft er litið á menntun sem mjúkan málaflokk. Það finnst mér vera kolröng nálgun. Allt sem við gerum á Íslandi byggist á því að við getum menntað börnin okkur, fyrir framtíðarstörf. Menntun er því hardkor efnahagsmál og þar á ríkið að fjárfesta með sveitarfélögunum.“
„Við í Eyjum höfum til dæmis fjárfest mjög markvisst í menntun á síðustu árum. Við sjáum að það skilar sér. Við þurfum að búa mannauðinn okkar vel undir áskoranir framtíðarinnar. Fólk má ekki útskrifast úr skólakerfinu, án þess að geta nýtt styrkleika sína, og valda svo kannski ekki störfunum í atvinnulífinu þar sem reynir á lestrarfærni, tjáningargetu, gagnrýna hugsun og svo framvegis.“
Íris telur að konur horfi oft öðruvísi á fjárfestingar sveitarfélaga en karlar og séu, að jafnaði, meira í samfélagslegu málunum, þar sem heildarmyndin skiptir máli. Þess vegna sé svo mikilvægt að öll kyn eigi sæti við borðið.
„Stundum þarf maður bara að segja já“
Að lokum innum við Írisi eftir því hvort hún hafi einhver heilræði til annarra kvenna, einkum hinna yngri sem eru að hasla sér völl í atvinnulífinu og jafnvel á stjórnmálasviðinu. Fyrsta ráðlegging Írisar er skýr og skorinorð:
„Aldrei hætta að þora.“
Íris telur einnig að konur eigi það til að mikla hlutina fyrir sér. Þær undirbúi sig svo vel fyrir verkefni sín og hugmyndir að hlutirnir dagi jafnvel uppi og verði aldrei að veruleika.
„Stundum þarf maður bara að segja já. Þora að stíga fyrsta skrefið – og byrja.“
„Við konur erum oft varfærnari en karlar, sem hafa tilhneigingu til að vera áhættusæknari,“ heldur Íris áfram. „En við konurnar höfum líka löngum haft minna svigrúm til að gera mistök. Okkur er fyrr refsað, og oft með harkalegri hætti.“
Eflaust skýri það varfærnina að einhverju leyti.
„Konur eru oft of dómharðar, bæði gagnvart sér og öðrum konum. En við megum vel setja okkur og hugmyndir okkar í fyrsta sætið, rétt eins og karlar gera. Með því ertu ekki að gera lítið úr fjölskyldunni. Það er oft litið öðruvísi á metnaðarfullar konur en karla en þú mátt hafa metnað. Við þurfum að sýna okkur þá mildi að mega hafa metnað.“