„Konur eiga bara að vera nákvæmlega eins og þær vilja“

Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Avo, var komin 35 vikur á leið þegar við hittumst í höfuðstöðvum Arion banka. Við frestuðum stefnumótinu aðeins svo að hún gæti leyft tveggja og hálfs árs barninu heima að sofa lengur.

Eftir áralanga þeysireið um nýsköpunarheiminn keppir fjölskyldan nú um fyrsta sæti hjá Stefaníu – og samkeppnin við vinnuna er stöðug og hörð og ekki auðvelt að hægja á sér. 

„Vinkonur mínar segja að ég ætti að fara að pása vinnuna og einbeita mér að lokametrum meðgöngunnar. En þegar maður hefur mikla ástríðu fyrir vinnunni – og svona gaman af því sem maður gerir – þá er erfitt að stíga út af skrifstofunni.“

Með drifkraftinn í genunum

Stefanía er stærðfræðingur og heimspekingur að mennt og á á að baki blómlegan feril í nýsköpunarheiminum. Áður en hún stofnaði Avo starfaði hún hjá DeCODE og QuizUp.

„Mig langaði ekki í fjármálageirann, en margir stærðfræðingar fóru þangað, heldur í eitthvað meira skapandi.“

Hún hafi þó ekki endilega verið með þann draum í maganum að stofna eigið fyrirtæki.

„Það var ekki markmið í sjálfu sér að stofna fyrirtæki, en ég er í eðli mínu með djúpa þörf til að laga það sem mér finnst óskilvirkt. Afar mínir voru til dæmis báðir sjálfstætt starfandi og höfðu mikla ástríðu fyrir því sem þeir gerðu. Ég hef alltaf, rétt eins og þeir, haft orku og drifkraft og sömuleiðis vilja til að reyna að breyta því sem mér finnst vera frústrerandi eða óréttlátt. Og ég á erfitt með að fylgja reglum sem ég er ósammála.“

Reynslan hjá QuizUp kveikjan að Avo

Stefanía stýrði greiningarsviðinu hjá Quizup, sem hannaði stafrænt spurningaspil þar sem notendur víðs vegar um heiminn gátu látið reyna á þekkingu sína. Margir lesenda muna eflaust eftir því ævintýri sem vakti mikla athygli á sínum tíma.

„Þar starfaði ég mikið með markaðs- og vöruþróunarsviðinu, að því að bæta notendaupplifunina. Við vildum skilja notendahópana betur og nota gögn til að taka upplýstar ákvarðanir.“

Það reyndist hins vegar þrautin þyngri að „viðhalda gagnagæðum“ eins og Stefanía orðar það, og í þeirri áskorun leyndist fræið að Avo.

„Eftir tímann hjá QuizUp tók ég viðtöl við ótal vörustjóra og forritara, meðal annars í stórum fyrirtækjum á borð við Airbnb og Spotify, og allt þetta góða fólk var að glíma við sömu vandamálin. Við fengum þá hugmynd að smíða lausn sem virkað gæti handa öllum, frekar en öll væru að berjast við þetta innanhúss, hver í sínu horni.“

Í dag eru þekkt fyrirtæki úti um allan heim í viðskiptum við Avo: Adobe, Fender, Ikea, Rocket Mortgage, Moody‘s.

„Hugbúnaðurinn okkar hjálpar þeim að tryggja að gögnin, sem þau nota innanhúss, séu áreiðanleg.“

Gefandi að koma öðru fólki á flug

En hvernig gekk að fá fjármagn á upphafsstigum? Og hvað stýrði ákvörðunum þínum þar?

„Ég vildi sækja erlent fjármagn því ég vildi fá þekkingu með peningnum,“ segir Stefanía. Þau hafi tekið inn pening frá sjóðum sem sérhæfa sig í forritara tólum og gagna-infrastrúktúr. Hún vildi fara þangað sem kreðsan og sérfræðingarnir eru. „Það eru ábyggilega fleiri mögulegir viðskiptavinir og fjárfestar á okkar sviði á hverjum fermetra í San Francisco en á öllu Íslandi,” segir hún og brosir.

Hjólin hafi tekið að snúast fyrir alvöru þegar þau gerðust fyrsta – og ennþá eina – íslenska fyrirtækið til að taka þátt í Y Combinator, þekktum nýsköpunarhraðli í Kísildalnum, og sóttu í kjölfarið fjármögnun frá heimsþekktum fjárfestum sem hafa líka fjárfest í leiðandi forritaralausnum eins og Anthropic, Stripe, Vercel og PagerDuty sem og neytendalausnum á borð við Airbnb, Tiktok og Slack.

„Það er svo mikið af hugsjónafólki í Kaliforníu. Fyrsta spurningin þar er oftast: Hvernig get ég hjálpað? Það er gefandi að lyfta öðru fólki og koma því á flug og það hugarfar mótar mjög stemninguna í Kísildalnum.“

Stefanía hafi verið með annan fótinn í Kaliforníu frá 2016 en covid hafi svo fært þau að mestu aftur til Íslands.

Að ryðja brautir og vera „ekta kona“

Stefanía segir að hún hafi stundum velt því fyrir sér hvað drífi hana mest áfram. Annars vegar sé það sannarlega það sem áður kom fram: löngunin til að leysa erfið vandamál og reyna þannig að bæta heiminn. Hins vegar sé það ábyrgð fyrirmyndarinnar: að vera forstjóri og stofnandi hátæknifyrirtækis sem vill svo til að er einnig kona.

„Þegar ég eignaðist dóttur mína fyrir tveimur og hálfu ári þekkti ég til dæmis bara eina aðra konu sem var líka forstjóri og stofnandi venture-backed fyrirtækis á alþjóðlegum skala og hafði eignast barn.“

Þetta skilaði sér í að Stefanía ýtti barneignum undan sér lengi. Það tók hana langan tíma að komast yfir þann hugsunarhátt að það væri óábyrgt gagnvart hluthöfum að verða barnshafandi og þurfa mögulega að stíga frá starfinu um tíma vegna erfiðrar meðgöngu eða krefjandi fyrsta árs barns. Á endanum gekk þetta samt eins og í sögu en hún segir það velta á að eiga góða „partnera“, bæði heima og í vinnunni. „Þetta var dásamlegur tími. Hún Ólöf Bjarney mín var mikið með mér á skrifstofunni fyrsta árið, þökk sé manninum mínum sem tók meirihluta orlofsins og kom með hana til mín á þriggja tíma fresti í brjóstagjöf. Hann gaf mér mikið svigrúm til að vera góð móðir og samt keyra áfram Avo. Mömmusamviskubitið var samt það sterkt að ég tók allar næturvaknanir fyrsta árið.” Samhliða þessu greip meðstofnandi Stefaníu alla boltana sem hún þurfti að kasta frá sér á þessum tíma. „Það er mikilvægt að umkringja sig kláru, drifnu og sterku fólki.” Stefanía heyrði í kjölfarið frá mörgum konum sem þökkuðu henni fyrir að sýna frá þessu á Instagram og veita innblástur – sanna að vel megi reka fyrirtæki og vera með lítið barn.

„Heimurinn er alltaf að segja konum hvernig þær eiga að vera,“ heldur Stefanía áfram. „En mest af því er bara bull. Til dæmis er alltaf verið að segja konum á hverju þær hafi áhuga –en margar konur finna engan samhljóm í slíkum skilaboðum. Þær telja sér jafnvel trú um að einhver áhugasvið séu ekki „kvenleg“ og finnst þess vegna eins og þær séu ekki ekta konur og muni ekki geta samsvarað sig öðrum konum. En það er auðvitað ekki rétt. Konur eru alveg jafn allskonar og öll mannflóran.“ Eflaust kemur hluti af drifkrafti Stefaníu þaðan: úr þörfinni til að ryðja brautina.

„Úti í Kaliforníu klæddi ég mig alltaf í gallabuxur, stuttermabol, strigaskó, derhúfu. Ég vildi alls ekki klæða mig eins og staðalhugmyndin um konu því að þá fannst mér eins og ég yrði ekki tekin alvarlega. Að áhersla á útlit gerði lítið úr heilanum og minnkaði trúverðugleika minn. Það er alveg eitthvað til í því. Alveg eins og að í Kísildal tekur enginn manneskju í jakkafötum alvarlega. En það er allt í lagi að finnast gaman að vera með fallegt hár eða í fínum fötum. Það má vera skvísa en líka stærðfræðingur og forstjóri tæknifyrirtækis.“

Mikilvægt að velja ráðleggingarnar vel

Ertu með einhverja ráðleggingu handa ungum konum sem eru hugsanlega í sömu sporum og þú varst einu sinni – í óðaönn við að leggja drög að nýju fyrirtæki?

„Ég á mér uppáhalds ráð og svo tvær vel tengdar möntrur sem ég nota mikið. Besta ráðið sem ég hef fengið er að velja vel ráðin sem ég nýti.“

„Þú vilt umkringja þig fólki sem hefur áður gert svipaða hluti og þú ert að fást við. Þú vilt leita ráða hjá sem flestum en svo er það þitt hlutverk að vinsa út ráðleggingarnar sem best nýtast þér. Þú getur ekki blandað öllu saman, þá færðu bara eitthvert miðjumoð. Það er besta ráðið: að hlusta á allar ráðleggingar en fara bara eftir þeim sem henta stöðunni sem þú ert í á þessum tímapunkti – flestir ráðgjafarnir hafa bara ekki heildarmyndina.“

„Fyrri mantran er: Þetta verður aldrei auðveldara, þú ferð bara hraðar.

„Þetta kemur úr spjalli sem ég átti við Patrick Collison, stofnanda Stripe, og vísar upprunalega til þess að hjóla. Ástæðan fyrir að mér finnst þetta mikilvægt er að það getur drepið baráttumóðinn að halda að þetta verði einhvern tímann auðveldara. Það koma alltaf nýjar áskoranir og það er ekki uppbyggilegt að gera ráð fyrir því að „þegar ég er búin að leysa þetta verkefni þá verði þetta lygn og þægileg sigling”. Í staðinn byggjum við upp vöðva og þykkan skráp á leiðinni og hlutir sem okkur fundust erfiðir fyrir ári virðast auðleysanlegir í dag. Það þýðir ekki að við krúsum í gegnum þetta; við förum bara hraðar upp brekkuna sem var ógeðslega erfið fyrir ári.“

„Hin mantran er: Njóttu brunans.

„Þetta er nefnilega gott framhald af reiðhjólasamlíkingunni og brekkunni. Annie Mist lýsti þessu einhvern tímann svo vel. Þegar hún er að keyra sig áfram minnir hún sig á að njóta brunans í vöðvunum af því það þýðir að hún er að stækka vöðvana. Það er akkúrat það sem ég nýti mér líka. Þegar hlutirnir eru erfiðir þá hugsa ég „njóttu þess að fara í gegnum þetta tímabil, þú ert að læra eitthvað mjög mikið hérna.“ Þannig að næst þegar ég fer upp þessa brekku þá fer ég hraðar.“