Hvað eru sjóðir?

Þegar vísað er til sjóða er átt við verðbréfa- og fjárfestingarsjóði
sem starfræktir eru skv. ákvæðum laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
Slíkir sjóðir eru starfræktir skv. fyrirfram skilgreindri fjárfestingarstefnu og hafa það
að markmiði að veita fé almennings viðtöku til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum
verðbréfum og öðrum fjármálagerningum á grundvelli áhættudreifingar.

Hvað er verðbréfasjóður?

Verðbréfasjóður er safn skuldabréfa, hlutabréfa og ýmissa annarra fjármálagerninga
auk innlána. Sjóðirnir eru mismunandi samsettir. Sumir fjárfesta í hlutabréfum, aðrir
eingöngu í skuldabréfum og enn aðrir fjárfesta í hvoru tveggja. Með því að fjárfesta í
verðbréfasjóði er í raun verið að fjárfesta í safni ýmissa fjármálagerninga. Verðbréfasjóði
má markaðssetja í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins að ákveðnum skilyrðum
uppfylltum.

Hvað er fjárfestingarsjóður?

Munurinn á fjárfestingarsjóðum og verðbréfasjóðum er sá að fjárfestingarsjóðir hafa
rýmri heimildir til fjárfestinga en verðbréfasjóðir. Rýmri heimildir fjárfestingarsjóða
til fjárfestinga, í samanburði við heimildir verðbréfasjóða, hafa í för með sér að fjárfestingarsjóður
er oft áhættusamari fjárfesting en verðbréfasjóður. Lög um verðbréfasjóði
og fjárfestingasjóði (nr. 128/2011) heimila fjárfestingarsjóðum að fjárfesta án takmarkana
í óskráðum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum. Einnig eru heimildir þeirra
til fjárfestinga í verðbréfum útgefnum af sama aðila rýmri en gildir um verðbréfasjóði.
Þrátt fyrir rýmri heimildir til fjárfestinga nýta margir fjárfestingarsjóðir
heimildir sínar einungis að hluta. Þær
heimildir sem fjárfestingarsjóður nýtir sér eru fyrirfram ákveðnar og koma fram í útboðslýsingu.

Hvað eru fjármálagerningar?

Hugtakið fjármálagerningur er skilgreint í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti,
og vísar til fjölmargra flokka samningsbundinna fjárhagslegra réttinda. Til dæmis má
þar nefna verðbréf, peningamarkaðsskjöl, hlutdeildarskírteini og ýmsar afleiður.
Í daglegu tali er ekki óalgengt að rætt sé um verðbréfaviðskipti þegar í raun er átt við
viðskipti með fjármálagerninga.

Almennur fyrirvari vegna fjárfestinga í sjóðum 
Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts.

Í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans. Upplýsingar þær sem hér koma fram eru einungis veittar í upplýsingaskyni og þær ber ekki að skoða sem tilboð á einn eða annan hátt og ekki skal líta á efnið sem ráðgjöf um kaup, sölu eða aðra ráðstöfun tiltekinna fjármálagerninga.

Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnir hf. rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði skv. lögum nr. 128/2011. Stefnir hf. er dótturfélag Arion banka.

Upplýsingar þær sem hér koma fram byggja á heimildum sem taldar eru áreiðanlegar en ekki er hægt að ábyrgjast að þær séu réttar. Áskilinn er réttur til leiðréttinga. Arion banki eða starfsmenn bankans bera enga ábyrgð á ákvörðunum eða viðskiptum sem aðilar kunna að eiga í ljósi þeirra upplýsinga sem hér koma fram.