Konur fjárfestum: Árangur ársins 2024

Arion banki hefur gefið út stutta og aðgengilega skýrslu með samantekt á þeim árangri sem náðist á fyrsta ári átaksins Konur fjárfestum.
Ástæða þess að Arion banki fór af stað með Konur fjárfestum átakið er að enn ríkir ekki jafnræði milli kynja þegar kemur að sparnaði, lífeyriseign eða þátttöku á fjármálamarkaði. Við viljum bæta úr þessu.
Í skýrslunni er farið yfir stöðu mála í upphafi árs 2024, helstu áskoranir dregnar fram í dagsljósið og sýnt með tölfræðilegum hætti hvar við þurfum að spýta í lófana til að jafna stöðuna.
- Tekjudreifing kynjanna er enn mjög ójöfn
- Ef ekkert breytist eru 70 ár í að verðbréfaeign kynjanna verði jöfn
- Aðeins 24% framkvæmdastjóra í íslensku atvinnulífi eru konur
- Aðeins fjórar konur eru forstjórar skráða félaga í Kauphöll á móti 29 körlum
Sem betur fer hefur þó margt gott gerst á allra síðustu árum. Í skýrslunni setjum við á myndrænan hátt fram yfirlit um þann mælanlega árangur sem við sjáum í tölfræði ársins 2024 yfir okkar viðskiptavini og rekja má til Konur fjárfestum verkefnisins:
- Sjóðaviðskipti kvenna jukust um 11% á móti 6% hjá körlum
- Heildareignir kvenna í vörslusöfnum jukust um 8,5% á móti 2,9% hjá körlum
- Eignir kvenna í áskriftarsjóðum jukust um 19% á móti 7% hjá körlum og eru nú 46% af heildinni
- 19% fleiri konur keyptu í sjóðum árið 2024 en árið á undan
Ekki fer á milli mála að stór hópur kvenna í íslensku samfélagi hefur mikinn áhuga á að bæta fjármálalæsi sitt eins og sést á þeirri miklu aðsókn sem fræðsluviðburðirnir okkar úti um allt land hafa fengið, en fleiri en 4.000 konur sóttu Konur fjárfestum viðburði á árinu 2024. Á þeim viðburðum vörpuðum við meðal annars ljósi á fjármál og fjárfestingar, hvernig markaðir virka, hvernig stofna má fyrirtæki og hvernig gerð skattframtals fer fram, auk þess sem við höfum kafað í lífeyrismál og tryggingar.
Við sjáum glögglega að öflugar fræðsluherferðir á borð við Konur fjárfestum gegna lykilhlutverki í að auka fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og hvetja þær til dáða. Við vonum að skýrslan kveiki áhuga og svörum glöð öllum fyrirspurnum. Um leið tökum við fram að Konur fjárfestum er langtímaverkefni og við erum því aðeins rétt að byrja
Hér má nálgast skýrsluna.
Viltu auka þekkinguna þína?
Fyrirvari
Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.
Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.
Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.