Spörum fyrir framtíðinni

Spörum fyrir framtíðinni

Spörum fyrir framtíðinni - mynd

Sparnaður er mikilvægur til þess að öðlast fjárhagslegt öryggi og hafa svigrúm til þess að mæta óvæntum útgjöldum. Við höfum tekið saman nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga þegar kemur að sparnaði.

Greiddu niður dýrar skuldir

Fyrsta skrefið er að greiða niður dýrar skuldir. Ýmsar skammtímaskuldir bera háa vexti sem eru íþyngjandi til lengri tíma. Undir þessar skuldir falla:

 • Yfirdráttur
 • Dreifing á greiðslukortum
 • Raðgreiðslur
 • Smálán

Yfirsýn yfir útgjöld

Farðu yfir fjármálin einu sinni í mánuði og gerðu áætlun fyrir komandi vikur. Gerðu greinarmun á föstum kostnaði og kostnaði sem þú gætir haft meiri stjórn á. Hentugt getur verið að áætla vissa fjárhæð í:

 • Matarinnkaup
 • Afþreyingu
 • Sparnað

Við höfum mörg ekki yfirsýn yfir allar þær áskriftir sem við erum að greiða fyrir og margar ódýrar áskriftir eru fljótar að safnast upp í háa fjárhæð á mánuði. Skynsamlegt er að segja upp því sem þú þarft ekki að nota.

Vertu gagnrýnin á útgjöldin

Vendu þig á gagnrýna hugsun og spurðu þig hvort þessi eyðsla sé virkilega nauðsynleg. Hugsaðu vandlega um kaupin sem þú ert að fara að gera og skoðaðu hvort mögulega sé hægt að fara hagstæðari leið.

 • Hvar er ódýrasta bensínið?
 • Get ég keypt þetta notað?
 • Er þetta nauðsynlegt?
 • Hef ég efni á þessu?

Jafnframt getur komið sér vel að gera matseðil fyrir vikuna og skrifa niður innkaupalista áður en farið er í búðina.

Gerðu fjárhagsáætlun

Þegar þú hefur fengið góða yfirsýn yfir þín útgjöld er næsta skrefið að gera fjárhagsáætlun. Fjárhagsáætlunin þarf ekki að vera flókin en það er hins vegar mikilvægt að hún sýni útgjöldin þín og tekjur en þannig áttu auðveldara með að ákveða hvað þú vilt leggja mikið til hliðar í hverjum mánuði.

Settu þér langtíma- og skammtímamarkmið

 • Það er allt í lagi að vera með fleiri en eitt sparnaðarmarkmið í vinnslu samtímis og gaman getur verið að setja sér smærri markmið sem auðveldara er að ná þar sem þau geta virkað sem mikill hvati fyrir annan sparnað.
 • Langtímamarkmið eru stórar fjárfestingar líkt og íbúð, ferðalög á fjarlægar slóðir og annað sem tekur lengri tíma en eitt og hálft ár að safna fyrir.
 • Skammtímamarkmið eru minni upphæðir sem tekur styttri tíma en eitt og hálft ár að safna fyrir.

Reglulegur sparnaður

Áætlaðu hlutfall af laununum fyrir hver mánaðamót sem fara beint inn á sparnaðarreikning eða skráðu þig í áskrift í sjóðum.

 • Sparnaðarreikningar henta vel þeim sem vilja ekki taka mikla áhættu og vilja vita hvaða vextir reikningurinn ber á tímanum.
 • Sjóðir henta þeim sem vilja stíga sín fyrstu skref í fjárfestingum. Þeir hafa þá kosti að þeir samanstanda af mörgum eignum en ekki er hægt að vita fyrirfram hver ávöxtun sparnaðarins verður.

Markmið með sparnaði geta verið ólík og því hægt að velja mismunandi reikninga eða sjóði fyrir sparnað til lengri og skemmri tíma.

Ólíkar sparnaðarleiðir

 • Fyrir langtímasparnað henta bundnir reikningar vel þar sem inneignin er bundin í ákveðinn tíma og ekki hægt að nýta peninginn á þeim tíma. Slíkir reikningar bera oft hærri ávöxtun. Íbúðasparnaður eru dæmi um bundinn óverðtryggðan reikning sem gæti verið áhugaverður kostur fyrir þá sem eru að safna fyrir fasteign.
 • Fyrir skammtímasparnað og varasjóð vegna óvæntra útgjalda henta óbundnir reikningar eða reikningar sem eru bundnir til skemmri tíma. Grænn vöxtur er dæmi um óbundinn sparnaðarreikning en sá reikningur styður við græna framtíð og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Óbundnir reikningar bera oftast lægri vexti en þeir sem læsa upphæðina inni í ákveðinn tíma.
 • Hægt er að vera með mismunandi reikninga fyrir mismunandi tegundir sparnaðar. Fjölbreyttar tegundir sparnaðarreikninga eru í boði hjá Arion og ættu því allir að finna reikning við sitt hæfi hvort sem um er að ræða verðtryggðan, óverðtryggðan, bundinn eða óbundinn. Auðvelt er að bera saman og stofna sparnaðarreikninga í netbanka og appi og mælt er með því að skrá sig í reglulegan sparnað þar sem upphæð millifærist sjálfkrafa með reglulegum hætti.
 • Ef þig langar að stíga þín fyrstu skref í fjárfestingum gæti áskrift í sjóðum verið eitthvað fyrir þig. Margvíslegir sjóðir eru í boði en gott er að hafa í huga til hve langs tíma þú ætlar þér að fjárfesta og hversu miklar sveiflur í ávöxtun þú þolir. Þú ættir t.d. að mynda þér skoðun á hvort þú viljir aðeins fjárfesta í áhættuminni eignum eins og skuldabréfum eða í áhættumeiri eignum eins og hlutabréfum eða blanda þessum ólíku eignaflokkum saman.

Eðlilegt er að ná ekki alltaf markmiðum sínum þegar kemur að sparnaði. Gott er að hafa í huga að gefast ekki upp og halda áfram. Ef þú ferð tvö skref áfram og eitt aftur á bak ertu samt komin lengra en ef þú hefðir ekki tekið nein skref. Ekki hræðast fjármálin heldur fáðu góða yfirsýn yfir þau og gerðu þau að áhugamáli þínu.

 

Viltu auka þekkinguna þína?

Fyrirvari

Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.

Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.