Hvernig byrja ég að fjárfesta?

Hvernig byrja ég að fjárfesta?

Hvernig byrja ég að fjárfesta? - mynd

Það er mjög algengt að einstaklingum fallist hendur þegar kemur að því að fjárfesta og ýmsir standa í þeirri trú að það sé eingöngu sérmenntað fólk í fjárfestingum og fagfjárfestar sem geta fjárfest. Það er algengur misskilningur að ferlið sé gríðarlega flókið og ekki fyrir hvern sem er að stunda. Þetta er allt saman fjarri sanni því hver sem er getur tekið fyrstu skrefin í fjárfestingum og getur það verið vænlegur kostur fyrir þá sem vilja ávaxta sína fjármuni. Jákvæð þróun hefur átt sér stað undanfarin ár þar sem fjármagnstekjur kvenna hafa aukist, sérstaklega yngri kvenna.

Ef þú hefur áhuga á fjárfestingum en langar að kynna þér umhverfið áður en þú tekur skrefið geturðu prófað Dyngju appið. Dyngju appið er smáforrit sem gerir fólki kleift að spreyta sig á íslenska hlutabréfamarkaðnum án þess að taka óþarfa áhættu. Í appinu geta notendur stundað sýndarviðskipti á íslenska hlutabréfamarkaðnum með gervigjaldmiðlinum vISK.

 • Áður en farið er af stað í fjárfestingar eru þó nokkur skref sem vert er að taka í eigin fjármálum til þess að undirbúa jarðveginn. Gott er að greiða niður dýrar skammtímaskuldir svo sem yfirdrátt, greiðsludreifingu kreditkorta og aðrar neysluskuldir áður en farið er af stað í fjárfestingar. Þegar því er lokið er ekki úr vegi að eiga smá varasjóð til að mæta óvæntum útgjöldum.
   
 • Að því loknu er mikilvægt í upphafi að fjárfesta eingöngu þeirri upphæð sem þú mátt við því að missa. Við segjum það ekki vegna þess að líklegt sé að þú munir tapa fjármununum heldur til þess að þú getir áhyggjulaus notið þess að læra inn á fjárfestingar og vanist ferlinu og umhverfinu.
   
 • Dreifðu eignasafninu þínu á fleiri en eitt fyrirtæki eða sjóði. Ekki setja öll eggin í sömu körfuna.
   
 • Fjárfestu í því sem þú þekkir og skilur. Leitaðu þér þekkingar og kynntu þér þau félög sem þú ert að velta fyrir þér að fjárfesta í.
   
 • Vertu áskrifandi að sjóði en það getur verið sniðug leið til þess að komast inn á markaðinn. Þá seturðu fjármuni þína í sjóð sem fagmenn sjá um að ávaxta. Þannig er minni krafa á þér að þekkja markaðinn inn og út en þú ert samt sem áður þátttakandi í markaðnum.
   
 • Aflaðu þér þekkingar og ræddu fjárfestingar við vini, samstarfsfólk og fjölskyldu.
   
 • Settu þér markmið með fjárfestingunum. Viltu ávöxtun á skömmum tíma eða viltu að upphæðin ávaxtist yfir lengra tímabil?
   
 • Vertu á hverjum tíma með yfirsýn yfir eignastöðu og áhættuþol.

Nú þegar þú hefur kynnt þér vel möguleika á markaðnum og sett þér markmið með fjárfestingunum er komið að því að fjárfesta sjálfum fjármununum. Fyrsta skrefið er að stofna til verðbréfaviðskipta. Það gerir þú með því að undirrita samning við Arion banka um meðhöndlun þeirra fjármuna sem þú setur í sjóði og verðbréf og svara spurningum um þekkingu þína og reynslu. Að því loknu er stofnað verðbréfasafn sem er nauðsynlegt fyrir viðskipti með verðbréf og sjóði.

Í gegnum verðbréfasafnið geturðu svo ákveðið hvernig hlutabréf þú vilt kaupa eða í hvers konar sjóðum þú vilt fjárfesta. Mikilvægasta skrefið er fyrsta skrefið og hafðu í huga að þú þarft ekki að fjárfesta háum upphæðum til að komast inn á markaðinn. Einn af frægustu fjárfestum í heimi, Warren Buffet, byrjaði að fjárfesta lágum upphæðum á unga aldri en hann er í dag einn af farsælustu fjárfestum heims.

Með góðum undirbúningi muntu fljótt sjá hvernig þú vilt haga þínum fjárfestingum. Ekki þó gleyma að sem einkennir og sameinar alla farsæla fjárfesta er að á einhverjum tímapunkti ákváðu þeir að byrja og gerðu sína fyrstu fjárfestingu. Ekki hræðast mistök heldur lærðu af þeim og reyndu að skilja hvers vegna niðurstaðan varð ekki sú sem þú vonaðist eftir. Þú þarft heldur ekki að hika við að leita ráða og ræða fjárfestingar við vini og vandamenn og að sjálfsögðu geturðu alltaf leitað til ráðgjafa okkar með þær spurningar sem kunna að vakna.

 

Viltu auka þekkinguna þína?

Fyrirvari

Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.

Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.