Metþátttaka í fjárfestingarkeppni Arion banka og Dyngju

Metþátttaka í fjárfestingarkeppni Arion banka og Dyngju

Metþátttaka í fjárfestingarkeppni Arion banka og Dyngju - mynd

Fyrr á árinu héldum við skemmtilega fjárfestingarkeppni í samstarfi við Dyngju. Að þessu sinni fór keppnin fram undir formerkjum „Konur fjárfestum“ átaksins okkar og var hún því einungis ætluð konum. Ekki vantaði áhugann en samtals tóku 1435 konur þátt í keppninni. Þær byrjuðu allar með 10.000.000 kr. og fengu heilan mánuð til að ávaxta þá upphæð með kaupum á hlutabréfum og í sjóðum.

Skemmst er frá því að segja að markaðurinn var ansi stormasamur á tímabilinu og enduðu keppendur með tap upp á 214.179 kr. að meðaltali. Á annað hundrað konur skiluðu hins vegar hagnaði af fjárfestingum sínum og stóðu sigurvegararnir uppi með eftirfarandi ávöxtun:

  • Svala Sveinsdóttir, 1. sæti: +36,83%
  • Gabriela Cruz Mota, 2. sæti: +28,18%
  • Karen Ósk Birgisdóttir, 3. sæti: +22,96%

Þetta er í þriðja skipti sem við höldum keppni af þessum toga í gegnum Dyngju appið. Við erum virkilega ánægð með þetta gjöfula samstarf við Dyngju og hlökkum til að endurtaka leikinn. Um leið óskum við sigurvegurunum hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Matur, flug og Microsoft

Svala Sveinsdóttir varð hlutskörpust keppenda í fjárfestingarkeppninni. Hún er tuttugu og átta ára gömul Akureyrarmær en fluttist til Reykjavíkur sextán ára til að mennta sig – sem kokkur.

„Já, en ég var reyndar alls ekki lengi að komast að því að það væri alls ekki lífsstíllinn fyrir mig,“ segir hún og vísar þar einkum til mikils álags og vonds vinnutíma.

Hún hafi því hætt í kokkabransanum nokkrum mánuðum eftir útskrift og landaði þá starfi hjá Wowair í flugumferðarstjórn.

„Það var mjög gaman – en svo fór fyrirtækið á hausinn eins og allir vita!“

Næst lá leiðin til Advania, þar sem Svala hefur starfað síðan, eða í rúm sex ár. Hún sér um ýmis Microsoft mál; umbætur varðandi ferla, fræðslu og upplýsingamiðlun.

En hvaðan kemur fjárfestingaráhuginn?

„Sko, ég hef lengi haft áhuga á fjárfestingum og nokkrum sinnum prófað að kaupa eitthvað smá – svona þegar maður hefur átt sparifé.“

„Ég setti mér skýr markmið fyrir nokkrum árum. Verða skuldlaus. Búa til varasjóð. Losa mig við allan yfirdrátt og þess háttar. (Ég var ekki góð í fjármálum þegar ég var yngri.)“

„Svo, þegar ég var komin með varasjóðinn, ákvað ég að prófa aðeins að fjárfesta. Það var fyrir sirka fjórum árum. Ég hef keypt í fyrirtækjum en ekki farið í sjóðina.“

Hvað gerirðu til að kynna þér hlutina?

„Ég skoða Viðskiptablaðið, stundum fréttir, einnig Kelduna þar sem ég fer yfir kaup og einnig hagnað fyrirtækja – en svo nota ég líka bara tilfinninguna.“

Var gaman að keppa?

„Já, og keppnin var góð æfing. Ég hefði ekki tekið sömu áhættu og ég gerði þar ef um væri að ræða alvöru peninga.“

„Ég bjóst líka alls ekki við að ég mundi vinna. Sá þetta bara auglýst á Instagram deginum áður en keppnin hófst - og skráði mig.“

„Þetta fékk mig til að pæla í alls kyns fyrirtækjum sem ég hafði ekkert skoðað áður. Það var gott.“

„Svo er gaman hvernig Dyngjan fléttar smá upplýsingaflæði inn í appið. Eins að maður fái tilkynningar í símann um hvað er að gerast á markaðnum.“ 

Hér má lesa sér betur til um reglur og fyrirkomulag keppninnar.

 

Viltu auka þekkinguna þína?

Fyrirvari

Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.

Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.