Lög um fyrstu fasteign tóku gildi 1. júlí 2017

Samkvæmt þeim er heimilt að nýta iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað, skattfrjálst, á samfelldu tíu ára tímabili til fasteignakaupa.
Skilyrði er að um fyrstu kaup á fasteign sé að ræða. 

Skattfrelsið takmarkast við 500 þúsund krónur á ári fyrir hvern einstakling, samtals 5 milljónir á tíu ára tímabilinu. Iðgjöldin sem má nýta takmarkast við 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda.

Úrræðið skiptist í þrjár leiðir en sjóðfélagi hefur jafnframt val um að blanda þeim saman.

  • Nýta má iðgjöld sem greidd hafa verið í viðbótarlífeyrissparnað frá 1. júlí 2014 og fram að íbúðarkaupum skattfrjálst til útborgunar við fyrstu kaup
  • Nýta má iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu inn á höfuðstól íbúðarláns sem     tekið var vegna kaupanna
  • Nýta má iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað eftir að fyrsta fasteign er keypt skattfrjálst til greiðslu afborgana af óverðtryggðu láni. 

Sækja skal um á vef ríkisskattstjóra. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og hægt er að sækja um ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar hér

Ef þú ert ekki að greiða í viðbótarlífeyrissparnað getur þú sótt um það hér

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar má nálgast á vef Ríkisskattstjóra.

Sækja um viðbótarlífeyrissparnað  Sækja um fyrstu fasteign

Spurt og svarað

Hvað gerist þegar ég sel fyrstu íbúðina mína sem ég er að nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn til að greiða inn á?

Þú getur haldið áfram að nýta þér iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á lánið sem þú tekur vegna kaupa á næstu íbúð. Skilyrðið er að þú festir kaup á næstu fasteign innan 12 mánaða.

Hverjum stendur þetta til boða?

Þeir sem festa kaup á fyrstu íbúið eftir 1. júlí 2014 geta nýtt sér viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til að greiða inn á höfuðstól lána, greiða afborganir að hluta af óverðtryggðum lánum eða sem útborgun við kaup á fyrstu íbúð.

Get ég keypt íbúð með öðrum en maka mínum og samt nýtt úrræðið?

Skilyrði er að sá sem sækir um að nýta sér úrræðið eigi að lágmarki 30% í fasteigninni. Samkvæmt því geta í raun allt að þrír einstaklingar átt fasteign saman og nýtt sé úrræðið. Það er ekki sett sem skilyrði að eigendur fasteignar séu makar.

Hvaða upphæðir er verið að tala um?

Skattleysið takmarkast við 500 þúsund krónur á ári fyrir hvern einstakling, samtals 5 milljónir á 10 árum. Jafnframt takmarkast skattleysið við 4% framlag launþega og 2% mótframlag frá launagreiðanda.

Hafa hjón sameiginlegt skattleysishámark?

Nei, skattleysið er per kennitölu sem þýðir að hjón hafa 500 þúsund króna hámark hvort fyrir sig og geta ekki nýtt heimildina frá hvort öðru.

Get ég nýtt þetta tíu ára tímabil að hluta eða í heild sem útborgun í íbúð?

Já, þegar kemur að fasteignakaupum getur þú valið hvort þú viljir nýta iðgjöld sem safnast hafa frá 1. júlí 2014 til útborgunar við kaupin. Sá mánaðarfjöldi sem nýttur er til útborgunar kemur þá til frádráttar á því tíu ára tímabili sem um ræðir. Iðgjöld þeirra mánaða sem eftir standa má þá nýta til að greiða inn á höfuðstól lánsins eða að hluta til afborgana ef þú tókst óverðtryggt lán.

Hversu lengi varir úrræðið?

Fyrsta fasteign gildir til framtíðar. Sem þýðir að sjóðfélagi getur, hvenær sem hann festir kaup á fyrstu íbúð, valið samfellt 10 ára tímabil sem hann vill nýta til fasteignakaupa.

Hef ég val um það hvort iðgjaldið fari inn á höfuðstól lánsins míns eða nýtist til greiðslu afborgana lánsins?

Ef þú tekur óverðtryggt lán þá hefur þú það val. Veljir þú að ráðstafa iðgjaldinu til greiðslu afborgana þá gerist það með ákveðnum hætti. Fyrstu 12 mánuðina fer allt iðgjaldið til greiðslu afborgunar. Næstu 12 mánuði fer 90% iðgjaldsins í greiðslu afborgana og 10% er greitt inn á höfuðstól lánsins. Skiptingin þróast þannig að á 10 árinu er 10% ráðstafað til afborgunar en 90% inn á höfuðstól lánsins.

Skattfrjálsrar greiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar inn á lán

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skattfrjálsrar greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar inn á húsnæðislán skiptast nú í þrennt:

  • Séreign inn á lán – tók gildi 1. júlí 2014, framlengt til 30. júní 2019
  • Húsnæðissparnaður - viðbótarlífeyrissamningur gerður strax, sótt um úrræðið á vef RSK þegar kaupsamningur liggur fyrir - tók gildi 1. júlí 2014 framlengt til 30. júní 2019
  • Fyrsta fasteign - tók gildi 1. júlí, 2017 - gildir til afturvirkt frá 1. júlí 2014 til framtíðar.

Helstu upplýsingar:

Sækja um viðbótarlífeyrissparnað    Sækja um séreign inn á lán  Sækja um húsnæðissparnað

Spurt og svarað

Hvað ef ég sæki um að greiða viðbótarlífeyrissparnað inn á lán en sel svo íbúðina mína án þess að kaupa aðra?

Þá getur þú nýtt þann tíma sem eftir er af tímabilinu til húsnæðissparnaðar. Ef þú festir kaup á fasteign að nýju fyrir 29. Júní 2019 getur þú nýtt uppsöfnuð iðgjöld á tímabilinu til útborgunar í þeirri íbúð.

Hvernig fara greiðslurnar fram?

Vörsluaðilar skulu ráðstafa greiðslum til lánveitenda á þeim tíma þegar greiðslur geta farið inn á höfuðstól valinna lána í skilum. Lánveitendur skulu ráðstafa greiðslum frá vörsluaðilum inn á höfuðstól valinna lána. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum.

Borgar sig fyrir mig að gera samning um viðbótarlífeyrissparnað?

Viðbótarlífeyrissparnaður er einhver besti sparnaður sem völ er á en helstu kostir hans eru mótframlag launagreiðanda, skattahagræði og erfanleiki. Flestir líta á mótframlagið sem launahækkun, en samkvæmt flestum kjarasamningum er mótframlag launagreiðanda 2%.

Getur skuldheimtumaður krafist þess að ég sæki um þetta úrræði?

Nei, það getur hann ekki.

Þegar búið er að greiða upp í hámarkið þ.e. 2.500.000/3.750.000 kr. skattfrjálst inn á lánið, get ég þá greitt meira með því að borga bara skatt af því?

Nei þegar hámarki er náð fer viðbótarlífeyrissparnaðurinn hefðbundna leið þ.e. inn í séreignarsjóðinn þinn.

Ef inneign mín hækkar frá því að ég greiði iðgjald í sjóðinn og þar til sjóðurinn greiðir inn á lán, get ég þá greitt hærri upphæð inn á lánið, en ég greiddi upphaflega inn í sjóðinn?

Nei greiðsla inn á lán getur aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur greiddum iðgjöldum.

Þarf lánið sem ég greiði viðbótarlífeyrissparnaðinn minn inn á að vera tekið fyrir einhvern ákveðinn tíma?

Lánið þarf að vera tekið áður en þú sækir um að greiða viðbótarlífeyrissparnaðinn þinn inn á það. Lokadagur til þess er 28. júní 2019.

Ef ég er nú þegar með viðbótarlífeyrissparnað, hækkar hann þá sjálfkrafa úr 2% í 4% frá og með 1. júlí 2014, eða þarf ég að sækja um það skriflega?

Launagreiðandi ætti að hækka iðgjald sjálfkrafa í 4% hjá þeim sem voru með 4% í lok árs 2011 og eru enn að greiða, eða hafa gert samning um viðbótarlífeyrissparnað 2014 og óskað á honum eftir hækkun í 4% frá og með 01.07.2014. Þú getur hækkað viðbótariðgjald þitt í 4%, óskir þú eftir því.

Ef ég geri samning um viðbótarlífeyrissparnað núna, get ég þá strax byrjað að spara fyrir íbúð?

Já, þú getur byrjað að spara frá og með 1. júlí 2014 og getur sparað með viðbótarlífeyrissparnaði alveg til 30. júní 2019

Þurfa samskattaðir aðilar báðir að sækja um greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar inn að lán?

Já, ef báðir aðilar ætla að nýta sér úrræðið, þá þurfa báðir að sækja um.

Get ég valið inn á hvaða lán ég greiði skattfrjálsa viðbótarlífeyrissparnaðinn minn?

Já svo framarlega sem eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt: að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að þau séu grundvöllur til útreiknings vaxtabóta.

Inn á hvaða lán ætti ég að greiða skattfrjálsa viðbótarlífeyrissparnaðinn minn?

Í langflestum tilvikum er hagstæðast að greiða inn á það íbúðalán sem ber hæstu vextina en þó þarf að taka tillit til uppgreiðslugjalda.

Borgar sig fyrir mig greiða viðbótarlífeyrissparnað inn á húsnæðislán eða til húsnæðissparnaðar?

Í flestum tilfellum ætti það að borga sig þar sem greiðslan er skattfrjáls. Hins vegar þarf hver og einn að skoða sína stöðu og taka ákvörðun út frá henni. Viðbótarlífeyrissparnaður er t.d. ekki aðfararhæfur sem þýðir að ef viðkomandi fer í gjaldþrot er ekki hægt að ganga að viðbótarlífeyrissparnaðinum líkt og inneign á bankabók. Sá sem stefnir í gjaldþrot ætti ekki að greiða viðbótarlífeyrissparnað sinn inn á húsnæðislán eða til húsnæðissparnaðar.

Gæti ég átt rétt á því að nýta mér 10 ára tímabilið, Fyrstu fasteign?

Ef þú keyptir fyrstu íbúðina þína eftir 1. júlí 2014 þá getur þú nýtt þér Fyrstu fasteign í stað þessa úrræðis.

Þarf lánþegi að greiða uppgreiðslugjald ef hann nýtir sér skattfrelsi viðbótarlífeyrissparnaðar inn á lán?

Ef það er uppgreiðslugjald á láninu sem greiða á inn á. Heimilt er að greiða 1.000.000 kr. inn á lán með uppgreiðslugjaldi sem tekin voru eftir að nýju neytendalánslögin tóku gildi 01.11.2013.