Viltu lækka
greiðslubyrði íbúðaláns?

Íbúðalán eru á mismunandi lánsformum og sú vaxtategund sem íbúðalánið ber hefur mikil áhrif á greiðslubyrði lánsins. Greiðslubyrði íbúðalána með breytilega óverðtryggða vexti hefur hækkað mikið undanfarið samhliða stýrivaxtahækkunum.

Lækka greiðslubyrði

Á næstu mánuðum mun greiðslubyrði margra lána með föstum óverðtryggðum vöxtum hækka umtalsvert þegar fastvaxtatímabili lýkur og færast þá lánin sjálfkrafa frá því að vera á föstum vöxtum yfir á breytilega vexti.

Ef þú stendur frammi fyrir talsverðri aukningu á greiðslubyrði lánsins og vilt lækka hana gæti verið gagnlegt fyrir þig að skoða hvað sé til ráða.

Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkra möguleika sem við hvetjum þig til að kynna þér ef þú vilt skoða leiðir til þess að lækka mánaðarlega greiðslubyrði. Hafir þú spurningar getur þú haft samband við okkur í gegnum netspjallið að bókað tíma í íbúðalánaráðgjöf.

Breyta úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt

Endurfjármögnun úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt íbúðalán getur lækkað mánaðarlega greiðslubyrði láns. Hægt er að endurfjármagna og færa bæði hluta láns eða allt lánið í verðtryggt form, allt eftir því hversu mikið þú vilt lækka greiðslubyrðina.

Eins og sjá má í reiknivél okkar þá er greiðslubyrði á verðtryggðu íbúðaláni um helmingur af sambærilegu óverðtryggðu íbúðaláni til 40 ára miðað við vaxtastigið í dag.

Gott er að hafa í huga að við greiðslumetum umsækjendur sem vilja endurfjármagna yfir í verðtryggð íbúðalán. Neikvæð niðurstaða greiðslumats þarf ekki að þýða að viðskiptavinum standi engin úrræði til boða en farið er yfir hvert mál fyrir sig.

Við leggjum áherslu á að finna heildstæða lausn sem getur m.a. falið í sér endurskipulagningu á lánum þínum þannig að greiðslubyrði taki mið af greiðslugetu.

Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur

Íbúðalán eru alla jafna ýmist með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum. Hægt er að endurfjármagna lán með jöfnum afborgunum yfir í lán með jöfnum greiðslum og er tekið tillit til greiðslumats eins og þegar endurfjármögnun íbúðalána á sér stað.

Þegar greitt er af íbúðaláni með jöfnum greiðslum er u.þ.b sama heildarfjárhæð greidd í hverjum mánuði. Ef íbúðalánið er verðtryggt þá breytist greiðslubyrði nokkurn veginn í takt við þróun verðlags yfir tímann.
Greiðslubyrði af láni með jöfnum greiðslum er alla jafna lægri í upphafi en mánaðargreiðsla á sambærilegu láni með jöfnum afborgunum.

Þegar greitt er af íbúðaláni með jöfnum afborgunum er sama fjárhæð greidd af höfuðstól lánsins í hverjum mánuði auk vaxta og verðbóta ef lánið er verðtryggt. Greiðslubyrði af íbúðalánum með jöfnum afborgunum er hærri í upphafi en þegar greitt er með jöfnum greiðslum, en lækkar með tímanum í takt við lækkun höfuðstóls.

Lengja lánstíma íbúðalána

Með því að lengja lánstíma íbúðalána lækka afborganir að öllu öðru óbreyttu. Lengsti lánstími Arion íbúðalána er 40 ár. Áhrif þess að lengja íbúðalán fer eftir núverandi lánstíma og vaxtastigi. Það má því segja að ef íbúðalánið er nýlegt og var tekið til hámarkslánstíma þá hefur lenging lánstíma lítil áhrif á greiðslubyrðina. Hafa ber í huga að ef lánstími er lengdur þá verður eignamyndun hægari og heildargreiðsla á lánstíma verður hærri.

Fasteignamat hækkar

Ef fasteignamat hefur hækkað gæti það opnað möguleikann á að endurfjármagna íbúðalánin með því markmiði að lækka greiðslubyrði.

Hækkun fasteignamats getur til dæmis boðið upp á þann möguleika að sameina viðbótarlán við grunnlán, með endurfjármögnun. Við tökum nú mið af fasteignamati 2024.