Tímabundnir greiðsluerfiðleikar fyrirtækja vegna áhrifa COVID 19

Sérstök úrræði standa fyrirtækjum sem eiga í sértækum vanda vegna áhrifa COVID 19 til boða. 
 

Brúarlán með ábyrgð ríkissjóðs

Fyrirtæki, sem er í verulegri lausafjárþörf og orsakir eru raktar beint eða óbeint til COVID-19 faraldurs getur sótt um brúarlán með allt að 70% ábyrgð ríkissjóðs af höfuðstóli láns. Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi:

  • Fyrirtæki, eða eftir atvikum einstaklingar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, beri fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.
  • Hafi orðið fyrir verulegu og ófyrirséðu tekjutapi að lágmarki 40% vegna kórónuveirunnar árið 2020.
  • Að launakostnaður sé að minnsta kosti 25% af heildarútgjöldum síðasta árs.
  • Að viðbótarlánveiting sé mikilvæg forsenda þess að fyrirtækið geti viðhaldið rekstrarhæfi þrátt fyrir tímabundið tekjutap.
  • Hafa ekki greitt arðgreiðslur og engin kaup á eigin hlutabréfum frá 1. mars 2020

Fjárhagshagsleg endurskipulagning, sbr. lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar nr. 57/2020

Fyrirtæki, sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum og orsakir eru raktar beint eða óbeint til COVID-19 faraldurs og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, sem hann hefur ráðið í því skyni, getur leitað tímabundinnar heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar til héraðsdóms, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Skráð varnarþing hér á landi.
  • Atvinnustarfsemi ekki byrjað síðar en 1. desember 2019.
  • Fleiri en einn hafi fengið greidd laun í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari a.m.k. til lágmarkslauna fyrir fullt starf.
  • Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir hans sem falla í gjalddaga á næstu tveimur árum séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar hans, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.
  • A.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða er uppfyllt:

    Mánaðarlegar heildartekjur af starfseminni hafi frá 1. apríl 2020 og þar til sótt er um úrræðið lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020.

    Mánaðarlegar heildartekjur síðustu þriggja mánaða áður en beiðni er send hafa lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við sama tímabil árið áður.

    Fyrirsjáanlegt að heildartekjur á næstu þremur mánuðum lækki um a.m.k. 75% í samanburði við sama tíma árið áður.

    Fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tíma á árinu 2019.

  • Lokafrestur til að sækja um er 31. desember 2021.