Öryggi við notkun greiðslukorta

Það er mikilvægt að huga að öryggi þegar kemur að kortaviðskiptum, bæði í verslunum og ekki síður á netinu. 

Greiðslukort og PIN númer

 • Skrifaðu nafnið þitt aftan á öll greiðslukort um leið og þú færð þau í hendur.
 • Mundu að þú átt ekki að þurfa að afhenda starfsmanni hjá söluaðila kortið þitt. Í flestum tilfellum átt þú að geta notað örgjörva og PIN eða snertilausa virkni til að greiða. Ef nota þarf segulrönd skaltu óska eftir að fá posann til þín. Þú skalt aldrei heimila starfsmanni að fara með kortið úr augsýn.
 • Passaðu vel upp á PIN númerið, aldrei gefa það upp til þriðja aðila og ekki geyma það með kortinu. Leggðu það á minnið.
 • Þú getur sótt PIN númerið í Netbanka Arion og í Arion Appið. PIN númer fyrirtækjakorta eru aðgengileg í netbanka handhafa kortsins
 • Passaðu að hylja takkaborð á posum og hraðbönkum þegar þú slærð inn PIN númer. 
 • Vertu viss um að upphæðin á skjánum sé rétt áður en þú slærð inn PIN númerið.
 • Fáðu alltaf kvittun úr posa, ekki síst ef færslu er hafnað eða úttekt fer ekki í gegn af öðrum ástæðum.
 • Ertu með næga heimild á kortinu? Þú getur skoðað og breytt heimild kortsins í netbanka og Arion appinu. Úttektarreglur í hraðbönkum eru á arionbanki.is.
 • Ef þú týnir kreditkortinu þínu getur þú lokað því strax í Arion appinu með því að nota aðgerðina Frysta kort. Þú getur svo enduropnað kortið ef þú finnur það. 
 • Ef þú týnir debetkortinu þínu eða því er stolið, tilkynnir þú það í síma 444 7000. 
 • Utan opnunartíma Arion banka getur þú hringt í Valitor í síma 525 2000 til að tilkynna glatað debet- og kreditkort. Þar er opið allan sólahringinn.
 • Skoðaðu gengi og upphæðir vel áður en þú velur íslenskar krónur í hraðbönkum eða posum erlendis sem bjóða þann valmöguleika. Ef gengi er fest við greiðslu getur því fylgt nokkuð hátt álag og því mælum við með að bera það saman við kortagengi Arion banka. 
 • Gættu kortanna þinna vel öllum stundum. Farðu með kort og kortanúmer líkt og um reiðufé væri að ræða. Aldrei skilja kort eftir á glámbekk eða lána þau einhverjum.
 • Ekki stóla á að vera eingöngu með eitt greiðslukort. Það getur reynst gott að vera með reiðufé eða annað greiðslukort meðferðis ef eitthvað kemur upp á.

Hraðbankar

 • Hafðu varann á og láttu ekki trufla þig á meðan þú notar hraðbanka.
 • Ekki leyfa ókunnugum að „hjálpa“ þér þegar þú notar hraðbanka.
 • Skýldu takkaborðinu þegar þú slærð inn PIN-númerið og gættu þess að enginn gægist yfir öxlina á þér.
 • Notaðu annan hraðbanka ef þú tekur eftir einhverjum grunsamlegum tækjum (kortalesurum, myndavélum o.s.frv.) eða ef PIN-númerahlífin er laus eða hefur verið fjarlægð.
 • Reyndu að velja hraðbanka frá viðurkenndum banka eða þjónustuaðila. Hraðbanki fyrir utan sjoppuna á horninu er mögulega ekki alveg öruggur.
 • Skoðaðu gengi og upphæðir vel áður en þú velur íslenskar krónur í hraðbönkum eða posum erlendis sem bjóða þann valmöguleika. Ef gengi er fest við greiðslu getur því fylgt nokkuð hátt álag og því mælum við með að bera það saman við kortagengi Arion banka.

Verslun á netinu

 • Ekki smella á hlekki á vafasömum vefsíðum eða í skilaboðum frá ókunnugum.
 • Skoðaðu slóðir vefsíðna og hlekkja vel, t.d. með því að fara með bendilinn yfir slóðina án þess að smella. Það er ágætis venja að slá sjálf/ur inn slóðir í vafra í stað þess að smella á hlekki.
 • Gættu þess að versla einungis í gegnum vefsíður sem brenglar gagnasendingar. Slóð þeirra í vafranum byrja á „https“ og oftast birtist grænn eða gulur hengilás við slóðina.
 • Ekki slá inn kortanúmer, gildistíma eða öryggisnúmer greiðslukortsins þíns nema á öruggum vefsvæðum.
 • Aldrei gefa upp PIN númer greiðslukortsins þíns til annars aðila, í síma, tölvupósti eða á vefsíðu.
 • Kynntu þér vel skilmála söluaðila þegar þú verslar á netinu. 
 • Greiðslukort Arion banka eru öll skráð í öryggisvottun sem nefnist ýmist Verified by Visa eða MasterCard Secure Code. Þegar korthafi á viðskipti við vefverslun sem fer fram á sérstaka öryggisvottun fær korthafinn sent einskiptislykilorð með SMS skilaboðum í farsíma sinn. Lykilorðið er notað til að votta korthafann og staðfesta viðskiptin. Staðfestingin jafngildir staðfestingu með PIN númeri.

Gylliboð

 • Ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt er það líklega ekki satt.
 • Gættu þín á gylliboðum t.d. póstum þar sem sagt er að þú eigir von á t.d. endurgreiðslu, arfi eða tilboðið hreinlega hljómar of vel og óskað er eftir korta- og/eða bankaupplýsingum þínum.
 • Ekki svara tölvupóstum þar sem farið er fram á upplýsingar um greiðslukort.
 • Gættu þín á „viðskiptatækifærum“ sem fela í sér að taka við eða geyma fjármuni fyrir ókunnuga.
Öryggisvottun netfærslu / Secure Code