Aðstoð vegna dánarbúa

 Hjá Arion banka færðu aðstoð varðandi afgreiðslu dánarbúa.

Sýslumaður fer með forræði dánarbús

Sýslumaður gefur út leyfi og umboð sem eru nauðsynleg við frágang á dánarbúum. Frá andláti og þangað til leyfi eru veitt, þá er sýslumaður einn fær um að ráðstafa hagsmunum búsins og svara fyrir skyldur þess. Því er nauðsynlegt að leita til hans við andlát. Ekki má hreyfa við inneign sem hinn látni lætur eftir sig á bankareikningum eða afgreiða dánarbúið á annan hátt fyrr en tilskilin leyfi frá sýslumanni hafa verið afhent bankanum.

Sýslumaður getur gefið út eftirfarandi leyfi til erfingja/aðstandenda

  1. Heimild til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbús
    Veitir umboðshafa heimild til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbúsins. Umboðshafi getur fengið skoðunaraðgang í netbanka hins látna með framvísun heimildarinnar

  2. Heimild til ráðstöfunar bankainnistæðna til greiðslu útfararkostnaðar
    Veitir umboðshafa heimild til að taka út af reikningum dánarbúsins til að kosta jarðarför þess látna, gegn framvísun reikninga fyrir útfararkostnaði.

  3. Leyfi til einkaskipta
    Þetta leyfi felur í sér að eftirlifandi erfingjar taka við öllum eignum og skuldum dánarbúsins. Það veitir erfingjum heimild til að gera búið upp, þ.m.t. að taka út af og/eða eyðileggja reikninga í nafni dánarbúsins. Þetta leyfi veitir erfingjum jafnframt heimild til að afla allra upplýsinga um viðskipti dánarbúsins. Ef andvirði eigna búsins er ekki meira en kostnaður af útför hins látna þá má framselja eignir hins látna til þess er kostar útförina.

    Umboðshafi getur fengið skoðunar- og millifærsluaðgang í netbanka hins látna með framvísun þessa leyfis.

    Algengt er að erfingjar fari sameiginlega með forræði búsins og nefna sér oftast umboðsmann, sem oft er einn erfingja, til að annast samskipti við bankann. Sé umboðsmaður ekki tilgreindur þurfa erfingjar að ráðstafa búinu í sameiningu.

  4. Leyfi til setu í óskiptu búi
    Þetta leyfi felur í sér að eftirlifandi maki tekur við öllum réttindum og skyldum þess látna og ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum hins látna. Eftirlifandi maki má ráðstafa eignum dánarbúsins, sem þær séu hans eigin.

    Umboðshafi getur fengið skoðunar- og millifærsluaðgang í netbanka hins látna með framvísun þessa leyfis.

  5. Opinber skipti
    Í sumum tilfellum skipar héraðsdómari skiptastjóra til að annast skiptin á dánarbúinu. Skiptastjóri fer með forræði búsins á meðan á opinberum skiptum stendur og er einn fær um að ráðstafa hagsmunum þess og svara fyrir skyldur þess. Hlutverk hans er að taka saman eignir, fá yfirlit yfir skuldir dánarbúsins og skipta dánarbúinu.