Aðstoð vegna dánarbúa

 Hjá Arion banka færðu aðstoð varðandi afgreiðslu dánarbúa.

Upplýsingaöflun erfingja/eftirlifandi maka

Þegar erfingi/eftirlifandi maki/umboðshafi hefur framvísað leyfi/heimild frá sýslumanni og sannað á sér deili getur hann fengið eftirfarandi upplýsingar, eftir því sem við á, frá bankanum:

  • Stöðu allra innlánsreikninga
  • Stöðu allra skulda
  • Stöðu lífeyrisréttinda og verðbréfaeigna
  • Allar ábyrgðir og lánsveð
  • Tilvist bankahólfs

Algengasta meðferð dánarbúa eru einkaskipti en sýslumaður getur einnig gefið út leyfi til setu í óskiptu búi og þá er það eftirlifandi maki sem fer með forræði dánarbúsins. Erfingjar geta þá sinnt fjármálunum og gengið formlega frá skiptum á dánarbúinu. Yfirleitt er gefinn út tiltekinn frestur til þess. Erfingi getur, ef hann svo kýs, veitt öðrum aðila umboð til að koma fram fyrir sína hönd við þær aðgerðir sem þörf er á við skipti á dánarbúi. Tveir eða fleiri erfingjar geta haft sama umboðsmann ef þeir vilja.

Séreignarsparnaður og viðbótarlífeyrir

Viðbótarlífeyrissparnaður erfist að fullu og af honum er ekki greiddur erfðafjárskattur. Innistæða fellur til erfingja hins látna og skiptist á milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð má finna hér.

Verðbréfaeignir á vörslureikningum

Sá sem er með umboð fyrir hönd erfingja getur ráðstafað verðbréfaeignum. Gegn skriflegri beiðni umboðsmanns er heimilt að framkvæma flutning á verðbréfum fyrir lok dánarbússkipta. Ef erfingi er ekki með vörslureikning þá þarf að stofna slíkan reikning áður en verðbréfaeign er ráðstafað.

Bankahólf

Gegn framvísun leyfis sýslumanns til upplýsingaöflunar, getur erfingi fengið upplýsingar um tilvist bankahólfs. Þegar leyfi til einkaskipta, leyfi til setu í óskiptu búi eða dánarbú hefur verið tekið til opinberra skipta getur, eftir því sem við á, umboðshafi erfingja, maki eða skiptastjóri fengið aðgang að hólfinu.

Úttektarheimildir

Þeir sem hafa forræði yfir dánarbúi hafa einir heimild til úttekta. Alltaf þarf að framvísa leyfi/heimild frá sýslumanni um hver hefur úttektarheimildina og að hvaða marki, auk þess að sanna á sér deili með skilríkjum.

Greiðslukort og greiðsluþjónusta

Þegar leyfi eða heimild frá sýslumanni er afhent bankanum er greiðsluþjónustu, beingreiðslum, sjálfvirkum millifærslum og greiðslukortum hins látna lokað. Þetta þýðir að ógreiddir reikningar skuldfærast ekki lengur sjálfkrafa og því er gott fyrir erfingja að fylgjast með hefðbundnum útgjöldum hins látna til að forðast vanskil. Sá sem hefur umboðið getur óskað eftir að dánarbúið tengist sínum netbanka, þannig er t.d. hægt að fylgjast með ógreiddum reikningum og greiða þá.