Góð ráð fyrir fríið

Hér má finna góð ráð sem gott er að hafa í huga við undirbúning sumarfrísins og á ferðalögum erlendis.

Gjaldeyrir

Í útibúum okkar í Kringlunni, Smáranum, Borgartúni, Vesturbæ og Höfða eru gjaldeyrishraðbankar, þar færðu evrur, dollara, pund og danskar krónur á opnunartíma útibúanna. Þú getur líka pantað gjaldeyri á arionbanki.is/gjaldeyrir og sótt í næsta útibú að undanskildu Kringluútibúi.
Það er opið allan sólarhringinn í báðum útibúunum okkar á Keflavíkurflugvelli og þar má einnig finna gjaldeyrishraðbanka sem bjóða upp á gjaldeyri í flestum myntum.

Gengi

Þú getur skoðað gengi gjaldmiðla á arionbanki.is.

 • Seðlagengi/Sala er notað þegar þú kaupir gjaldeyri.
 • Seðlagengi/Kaup er notað þegar þú selur okkur gjaldeyri.
 • Undir flipanum Kreditkort í gengistöflunni er það gengi sem notað er þegar greitt er með greiðslukorti erlendis.
 • Endanlegt gengi kreditkortafærslna kemur inn við uppgjör söluaðila þannig að gengi kann að hafa breyst lítillega.

Skoðaðu vel gengi og upphæðir áður en þú velur íslenskar krónur í hraðbönkum eða posum erlendis sem bjóða þann valmöguleika. Ef gengi greiðslu er fest getur því fylgt nokkuð hátt álag og því mælum við með því að bera það saman við Kreditkortagengi gengi Arion banka.

Greiðslukort

Mundu að þú átt aldrei að þurfa að afhenda starfsmanni hjá söluaðila kortið þitt. Ef nota þarf segulrönd kortsins skaltu óska eftir að fá posann til þín. Ekki heimila söluaðila að fara með kortið úr augsýn. Í flestum tilfellum átt þú að geta notað örgjörva og PIN eða snertilausa virkni til að greiða.

Ertu með næga heimild á kortinu? Þú getur skoðað og breytt heimild kortsins í netbankanum og Arion appinu. Hér má sjá úttektarreglur í hraðbönkum.

Passaðu kortið þitt og PIN númerið vel!

 • Passaðu að hylja takkaborð á posum og hraðbönkum þegar þú slærð inn PIN númer.
 • Skoðaðu vel kvittanir áður en þú undirritar og ekki undirrita ef engin upphæð er gefin upp.
 • Fáðu alltaf kvittun úr posa, sér í lagi ef færslu er hafnað eða úttekt tekst ekki af öðrum ástæðum.
 • Þú finnur PIN númer kortsins þíns í Arion appinu og í netbankanum.
 • Ef þú týnir kreditkortinu þínu getur þú lokað því strax í Arion appinu með því að nota aðgerðina Frysta kort. Þú getur síðan enduropnað kortið ef þú finnur það.
 • Ef þú týnir debetkortinu þínu tilkynnir þú það í síma 444-7000.
 • Utan opnunartíma Arion banka getur þú hringt í Valitor í síma 525-2000 til að tilkynna glatað debet- og kreditkort. Þar er opið allan sólarhringinn.
 • Það getur reynst gott að vera með reiðufé eða annað greiðslukort meðferðis.

Einkaklúbburinn

Ef þú ætlar að ferðast innanlands, þá viljum við minna þig á Einkaklúbbsappið. Þar getur þú nýtt þér yfir 340 tilboð á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu hjá samstarfsaðilum um allt land. Ný tilboð birtast reglulega og sífellt bætist í hóp samstarfsaðila Einkaklúbbsins.