Innlendar sérhæfðar fjárfestingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands

Innlendar sérhæfðar fjárfestingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands

Hvað eru innlendar sérhæfðar fjárfestingar?

Yfirleitt er átt við fjárfestingar sem eru frábrugðnar hefðbundnum hlutabréfa- og skuldabréfa-fjárfestingum að því leyti að þær eru oft óskráðar, með lengri binditíma og erfiðari er að selja eignirnar til skemmri tíma. Aðgengi fagfjárfesta, svo sem lífeyrissjóða, að þessum eignaflokki hefur bæði verið í formi beinnar fjárfestingar eða óbeinnar gegnum sérhæfða sjóði. Dæmi um slíkar fjárfestingar eru:

  • Framtaksfjárfestingar (e. Private Equity)
    Hér getur verið um að ræða fjárfestingu í rótgrónum fyrirtækjum sem eru keypt að fullu eða ráðandi hlutur með það að markmiði að umbreyta fyrirtækjunum, stækka þau og bæta rekstur þeirra með tilheyrandi verðmætaaukningu. Fjárfestingin getur annars vegar verið stakar fjárfestingar í einstökum óskráðum fyrirtækjum eða hins vegar í sjóði sem sérhæfir sig í fjárfestingum óskráðra fyrirtækja.
     
  • Vísisfjárfestingar (e. Venture Capital)
    Fjárfestingar í nýjum og vaxandi fyrirtækjum sem eru í þróun eða á byrjunarstigi. Í þessum fyrirtækjum eru oft fyrstu fjárfestarnir fjölskylda og vinir en einnig svokallaðir engla fjárfestar (e. angel investor). Þessum verkefnum fylgir mikil vinna við að breyta fjárfestingunni úr hugmynd frumkvöðuls yfir í tekjuberandi arðsamt fyrirtæki. Þessum fjárfestingum fylgir mikil áhætta, en möguleiki á miklum hagnaði ef fyrirtækið nær árangri. Fyrir fagfjárfesta hefur leiðin að sprotafjárfestingum verið að fjárfesta í sjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingu og uppbyggingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
     
  • Innviðafjárfestingar (e. Infrastructure)
    Fjárfestingar í stórum og mikilvægum mannvirkjum og kerfum sem samfélagið notar til dæmis í orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum eða vegagerð. Þetta eru yfirleitt langtíma fjárfestingar sem skila stöðugum tekjum.
     
  • Fasteignaverkefni
    Fjárfestingar í fasteignum, t.d. atvinnuhúsnæði, verslunarmiðstöðvum eða íbúðum. Geta skilað bæði leigutekjum og hagnaði við sölu eignanna.
     
  • Sérhæfð lán og önnur sambærileg verkefni
    Lán sem veitt eru fyrirtækjum eða verkefnum sem ekki falla beint undir hefðbundin bankalán. Oft með sérhæfðum skilmálum og hærri vöxtum vegna meiri áhættu.

Markmiðið með sérhæfðum fjárfestingum er að ná hærri ávöxtun en með hefðbundnum fjárfestingum, þó gera megi ráð fyrir þeim fylgi oft heldur meiri áhætta.

Hlutfallsleg skipting innlendra sérhæfðra fjárfestinga niður á flokka miðað við heildarskuldbindingu frá árinu 2011.

Af hverju fjárfestir lífeyrissjóðurinn í þessum eignum?

Mikilvægt er að dreifa áhættu í eignasafni lífeyrissjóðs með samvali ólíkra eignaflokka. Eftir efnahags-hrunið árið 2008 jókst áhugi sjóðsins á slíkum sérhæfðum fjárfestingum innanlands og frá þeim tíma hefur sérþekking á þessu sviði vaxið hér á landi og fyrirtækjaumhverfið orðið móttækilegra fyrir slíkum fjárfestum.

Sjóðurinn hefur síðustu ár einnig fjárfest í vísissjóðum en slíkar fjárfestingar styðja meðal annars við nýsköpun og vöxt fyrirtækja á Íslandi. Umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hefur verið fremur hagfellt á Íslandi, sem hvetur frumkvöðla til að hefja atvinnustarfsemi. Þessar fjárfestingar nema nú um 6% af innlendum sérhæfðum fjárfestingum sjóðsins.

Hvernig þróast svona fjárfestingar yfir tíma?

Í upphafi líftíma hjá sérhæfðum fjárfestingum má oft gera ráð fyrir að virði fjárfestinga breytist lítið fyrstu misserin. Oft eru fjárfestingartímabil hjá slíkum sérhæfðum sjóðum sem fjárfest er í um fjögur ár og getur fjöldi undirliggjandi eigna verið mismunandi út frá fjárfestingarstefnu og áherslum viðkomandi sjóða. Eignarhaldstíminn á hverri fjárfestingu og rekstrartími sjóðanna getur orðið nokkuð langur, algengt er allt að áratugur og í einhverjum tilvikum getur líftíminn jafnvel verið lengri. Þetta gefur fjárfestingunum tíma til að þróast og skila ávöxtun.

Hvað er J- kúrfa?

Myndræn framsetning í formi línurits sem lýsir hvernig verðmæti sérhæfðra fjárfestinga þróast yfir tíma og er formi ritsins líkt við bókstafinn J. Skýringin er sú að í upphafi fellur oftast til kostnaður við fjárfestingu og fjárfesting í uppbyggingarfasa sem gerir það að verkum að verðmæti lækkar. Að nokkrum árum liðnum má gera ráð fyrir að ábati fjárfestinga byrji að koma til, það er þegar umbreyting hefur átt sér stað og fjárfestingarnar byrja að skila arði. Endanlegt uppgjör á fjárfestingunni liggur samt ekki fyrir fyrr en eignir hafa verið seldar og sjóðnum slitið. Líftímaþróun á verðmæti slíkra fjárfestinga er því gjarnan lík svokallaðri J-kúrfu.

Hvernig hefur þetta gengið hjá LSBÍ?

Frá árinu 2011 hafa innlendar sérhæfðar fjárfestingar sjóðsins skilað um 2.105 milljón króna í hagnað af samtals um 3.845 milljón króna fjárfestingu.

Á myndunum sem fylgja má sjá árangur fjárfestinga eftir stöðu þeirra. Nýhafnar fjárfestingar eru merktar ljósbláum lit, fjárfestingar sem komnar eru vel á veg eru merktar bláum lit og fjárfestingum sem er lokið eru merktar dökkgráum lit. Hver litur gefur til kynna framvindu og stöðu fjárfestinganna á myndrænan hátt.

Framtaksfjárfestingar:
  • Búvellir (Hagar): Árið 2011 fjárfesti LSBÍ í Búvöllum sem var stofnað utan um fjárfestingu í fyrirtækinu Högum. Árleg ávöxtun er ekki mæld þar sem LSBÍ fékk útgreiðslu innan árs. Mælikvarði á árangri af þessari fjárfestingu er því metin þannig að fyrir hverja 1 krónu sem fjárfest var í fékk LSBÍ 1,55 kr. til baka.
  • Stefnir íslenski athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað LSBÍ að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum, Sjóvá og 66 Norður. Sjóðnum var slitið árið 2022. Árleg ávöxtun var um 17%.
  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti LSBÍ í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Senu, Íslands hótelum. Árleg ávöxtun er um 3%.
  • Stefnir íslenski athafnasjóðurinn II: Árið 2014 fjárfesti LSBÍ í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis, íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi, Skeljungi, Verne Global og Icelandia (áður Kynnisferðir). Árleg ávöxtun er um 15%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað LSBÍ að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Sjóðnum var slitið árið 2022. Árleg ávöxtun var um 25%.
  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti LSBÍ í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslands hótelum. Árleg ávöxtun er um 10%.
  • SF V (Festi): Árið 2014 fjárfesti LSBÍ í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í fyrirtækinu Festi, sem á sínum tíma voru meðal annars verslanirnar Krónan og Elko. Sjóðnum var slitið árið 2020. Árleg ávöxtun fjárfestingarinnar var um 27%.
  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti LSBÍ í kísilverksmiðju PCC við Húsavík. Þrátt fyrir að líftíma verkefnisins sé ekki lokið og ekki komið að endapunkti þá hafa erfiðleikar í rekstri og aukin fjárþörf orðið til þess að sjóðurinn hefur fært eignina niður í 46% af fjárfestingu.
  • Sameinað Sílikon: Árið 2015 fjárfesti LSBÍ í kísilverinu United Silicon í Helguvík á Reykjanesi. Sívaxandi rekstrarerfiðleikar og rökstuddur grunur um sviksemi varð þess valdandi að fjárfestingin tapaðist að endingu að fullu árið 2017.
  • Stefnir íslenski athafnasjóðurinn III: Árið 2016 fjárfesti LSBÍ í framhaldssjóði íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Reykjavík EDITION, Terra, HD (áður Hamri), Lyfju og Men&Mice. Árleg ávöxtun er um 15%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN III: Árið 2016 fjárfesti LSBÍ í framtaksfjárfestingarsjóðnum Horn III á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa sem meðal annars fjárfestir í Ölgerðinni, Hópbílum og Bílaleigu Flugleiða. Árleg ávöxtun er um 5%.
  • TFII: Árið 2017 fjárfesti LSBÍ í TFII, upphaflega á vegum Íslenskra verðbréfa, nú í rekstri Landsbréfa, sem hefur fjárfest í Hreinsitækni, Hringrás, Coripharma og Genis. Árleg ávöxtun um 7%.
  • Hvatning (Bláa lónið): Árið 2019 fjárfesti LSBÍ í sjóði á vegum Landsbréfa sem fór með eignarhlut í Bláa lóninu. Félaginu var slitið árið 2024 og bréfin afhent. Árleg ávöxtun var um 8%.
  • Blávarmi (Bláa lónið): Árið 2019 fjárfesti LSBÍ í Blávarma sem fjárfesti í Bláa lóninu. Félaginu var slitið árið 2024. Árleg ávöxtun var um 6%.
  • Coripharma Holding hf.: Árið 2023 fjárfesti LSBÍ í félaginu Coripharma, sem er samheitalyfjaþróunar og lyfjaframleiðslufyrirtæki í Hafnarfirði. Árleg ávöxtun um 1%.

Fjárfestingar í innviðum:
  • Jarðvarmi (HS Orka): Árið 2011 fjárfesti LSBÍ í HS Orku, sem er innviðafjárfesting í tengslum við sölu endurnýjanlegra orkugjafa. Árleg ávöxtun er um 7%.
  • HSV Eignarhaldsfélag (HS Veitur): Árið 2014 fjárfesti LSBÍ í félaginu HS Veitum, sem er innviðafjárfesting í tengslum við vatnsdreifikerfi. Árleg ávöxtun er um 22%.
  • Innviðir fjárfestingar: Árið 2015 fjárfesti LSBÍ í innviðasjóði í rekstri Summu sem m.a. fer með eignarhlut í HS Veitum og Verðbréfamiðstöð Íslands. Árleg ávöxtun er um 9%.
  • Innviðir fjárfestingar II: Árið 2022 fjárfesti LSBÍ í framhalds innviðasjóði í rekstri Summu sem fer m.a. með eignarhlut í Mílu ehf. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn.
Fasteignafjárfestingar:
  • Fasteignasjóður SRE I: Árið 2011 tók LSBÍ þátt í fasteignasjóðnum SRE I á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis sem var stofnað utan um kaup á fasteigninni Þingvallastræti 23 (Icelandair Hótelinu á Akureyri). Sjóðnum var slitið árið 2017. Árleg ávöxtun var um 13%.
  • Fasteignasjóður SRE II: Árið 2012 tók LSBÍ þátt í fasteignasjóðnum SRE II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis þar sem meðal annars var fjárfest í húsnæði Nýherja, Hótel Borg og höfuðstöðvum Advania. Sjóðnum var slitið árið 2019. Árleg ávöxtun var um 24%.
  • FAST - I: Árið 2012 tók LSBÍ þátt í fasteignasjóðnum FAST-I á vegum sjóðastýringarfélagsins Íslandssjóða sem meðal annars fjárfesti í Höfðatorgi, húsnæði Ríkislögreglustjóra og Fjársýslu ríkisins. Sjóðnum var slitið árið 2020. Árleg ávöxtun var um 9%.

Fjárfestingar í sérhæfðum lánum:
  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2023 hefur LSBÍ fjárfest í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund (II, III, IV), Veðskuld (II, III), ST1 fagfjárfestasjóður, SÍL, SÍL 2 og Landsbréf Veðskuldabréfasjóð (I, II) og við lok árs 2023 í Alda Credit Fund IV og SIV Credit Fund. Um er að ræða fjárfestingu í innlendum veðskuldabréfum þar sem undirliggjandi eru meðal annars skuldabréf með veð í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna er um 8%.
  • Ármúli lánasafn: Árið 2015 fjárfesti LSBÍ í fagfjárfestasjóði í rekstri Stefnis. Um var að ræða eignatryggt skuldabréf til fjármögnunar á skilgreindu lánasafni MP banka. Sjóðnum var slitið árið 2018. Árleg ávöxtun var um 7%.
  • AL 2 fagfjárfestasjóður: Árið 2018 fjárfesti LSBÍ í AL 2 á vegum Stefnis sem var fjárfesting í óskráðum skuldaviðurkenningum fyrirtækja í gegnum Kviku banka hf. Sjóðnum var slitið árið 2021. Árleg ávöxtun var um 5%.

Spálíkan

Þegar fjárfest er í sérhæfðum fjárfestingum, bæði beinum og óbeinum, stofnast jafnan skuldbinding. Í tilviki óbeinnar fjárfestingar í gegnum sjóði skuldbindur fjárfestir sig til að fjárfesta fyrir tiltekna fjárhæð á fjárfestingartímabili sjóðsins. Sjóðurinn „kallar“ svo eftir hluta af peningnum smám saman eftir því sem fjárfestingartækifæri finnast og fjárfest er í.

Seinna, þegar fjárfestingarnar hafa skilað tilætluðum árangri eða rekstrartíma sjóðsins er að líða undir lok, byrjar sjóðurinn að selja eignirnar og greiðir andvirðið, að frádregnum þóknunum, til baka til fjárfestisins. Til að skipuleggja og áætla hvernig slíkar fjárfestingar þróast yfir tíma í eignasafni lífeyrissjóðsins, sem breytist í stærð yfir tíma, notar sjóðurinn spálíkan sem var þróað við Yale-háskóla.

Þetta líkan hjálpar til við að spá fyrir um hvenær líklegt er að sjóðir kalli eftir peningum og hvenær þeir muni byrja að skila arði. Það tekur líka einnig tillit til annarra þátta, eins og hversu hratt sjóðirnir fjárfesta, hversu lengi þeir starfa og hvaða ávöxtun er líkleg. Með hjálp líkansins getur lífeyrissjóðurinn séð hvernig fjárflæði fer inn og út úr fjárfestingum og spáð fyrir um hvernig heildareignirnar þróast yfir tíma.

Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að ákveða hvaða skuldbindingar og fjárfestingar lífeyrissjóðurinn þarf að ráðast í til að ná og halda framtíðarmarkmiðum sínum um samval eignaflokka yfir tíma. Með því að nota þetta líkan getur sjóðurinn betur skipulagt fjárfestingar sínar og tryggt að þær séu í samræmi við langtímamarkmið og áhættustýringu.

 

Framtíðarhorfur

Í tilviki LSBÍ þar sem að lífeyrisgreiðslur eru hærri en iðgjöld þá er mikilvægt að vera með áhættuminni og auðseljanlegar eignir í safninu. Síðustu misseri hefur verið dregið úr fjárfestingum í innlendum sérhæfðum fjárfestingum þar sem þær fela almennt í sér lengri binditíma, eru tregseljanlegri og rekstrartími þeirra getur orðið vel yfir áratug. Markmið sjóðsins í innlendum sérhæfðum fjárfestingum er 5% af eignasafni en núverandi staða er yfir því marki sem má að stórum hluta skýra vegna góðrar ávöxtunar í innviðafjárfestingum sem sjóðurinn hefur tekið þátt í.

 

Fréttasafn

01. nóvember 2022

Málefni ÍL-sjóðs

LSBÍ er einn af eigendum að skuldabréfum með ríkisábyrgð sem Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á árið 2004...

LESA NÁNAR

26. september 2017

Sjóðfélagayfirlit

Yfirlit sjóðfélaga LSBÍ eru komin í hús. Yfirlitin eru með hreyfingum síðustu átján mánaða...

LESA NÁNAR

29. apríl 2014

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 28. maí...

LESA NÁNAR

29. apríl 2013

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 29. maí...

LESA NÁNAR

16. maí 2012

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 30. maí...

LESA NÁNAR