Fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir niðurstöður

Fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir niðurstöður

Róbert R. Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og gestaprófessor við lagadeild Oxford háskóla í Bretlandi, staðfestir niðurstöður LOGOS lögmannsþjónustu, varðandi málefni ÍL-sjóðs. Þetta kemur fram í álitsgerð Róberts sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa fengið í hendur.

Íslenskir lífeyrissjóðir fóru fram á það við Róbert að hann legði mat á forsendur minnisblaðs Landslaga – lögfræðistofu fyrir fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og álitsgerðar LOGOS lögmannsþjónustu fyrir íslenska lífeyrissjóði hins vegar, og lýsti afstöðu til þeirra forsendna sem liggja helstu niðurstöðum til grundvallar, einkum að því er varðar eignarréttarvernd kröfuréttinda samkvæmt skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði, nú ÍL-sjóður, í ljósi ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Tilefnið er yfirlýstar áætlanir ráðherrans um möguleg slit og gjaldþrotaskipti sjóðsins með lögum.

Niðurstöður Róberts eru afgerandi og í samræmi við álitsgerð LOGOS. Róbert telur slíkar aðgerðir af hálfu löggjafans andstæðar stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er það jafnframt niðurstaða hans að slit og gjaldþrotaskipti ÍL-sjóðs á þeim grundvelli sem fram kemur í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis frá því í október feli í sér eignarnám sem verði ekki framkvæmt án fullra bóta til lífeyrissjóðanna sem meðal annars taki mið af samningsskuldbindingum ÍL-sjóðs um greiðslu vaxta til framtíðar.

Nánar tiltekið eru helstu niðurstöður Róberts þessar:

(1) Kröfur samkvæmt þremur skuldabréfaflokkum, útgefnum af Íbúðalánasjóði við skiptiútboð á árinu 2004, teljast að fullu „eign“ („possession“) í merkingu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr., 1. viðauka við MSE, þ.m.t. höfuðstóll þeirra, verðbætur, áfallnir vextir og fastir samningsbundnir vextir (3,75%) fram að gjalddögum á árunum 2024, 2034 og 2044.

(2) Löggjöf, eins og sú sem rædd er í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis um ÍL-sjóð, sem myndi heimila gjaldþrotaskipti ÍL-sjóðs, eða önnur sambærileg slit eða fjárhagslegt uppgjör á sjóðnum, felur í sér eignarnám á þeim hluta krafna skuldabréfaeigenda sem ekki fengju fullar efndir á grundvelli skilmála skuldabréfanna. Slík löggjöf þyrfti því að fullnægja kröfum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við MSE.

(3) Ekkert í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis um stöðu ÍL-sjóðs bendir nægilega til þess að löggjafinn hafi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, eða 1. gr. 1. viðauka við MSE, heimild til að setja lög um slit og gjaldþrotameðferð ÍL-sjóðs, sem fælu í sér að kröfur samkvæmt skuldabréfunum féllu í gjalddaga og að höfuðstóll þeirra með verðbótum og áföllnum vöxtum, án tillits til samningsbundinna vaxta eftir það tímamark, yrði gerður upp með eignum þrotabúsins og síðan greiðslu íslenska ríkisins á grundvelli ríkisábyrgðar, án þess að slík löggjöf leiddi til bótaskyldu íslenska ríkisins á hendur skuldabréfaeigendum.

Álit Róberts fylgir hér með.

ÍL-sjóður - Álitsgerð 04.12.2022 

 

Fréttasafn

01. nóvember 2022

Málefni ÍL-sjóðs

LSBÍ er einn af eigendum að skuldabréfum með ríkisábyrgð sem Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á árið 2004...

LESA NÁNAR

26. september 2017

Sjóðfélagayfirlit

Yfirlit sjóðfélaga LSBÍ eru komin í hús. Yfirlitin eru með hreyfingum síðustu átján mánaða...

LESA NÁNAR

29. apríl 2014

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 28. maí...

LESA NÁNAR

29. apríl 2013

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 29. maí...

LESA NÁNAR

16. maí 2012

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 30. maí...

LESA NÁNAR