Spurt og svarað

Hvar eru Mínar síður - launagreiðendavefur og önnur þjónusta fyrir launagreiðendur?
Hér eru Mínar síður - launagreiðendavefur ásamt upplýsingum um þjónustustaði og þjónustuleiðir lífeyrissjóða í rekstri Arion banka.Hvað er iðgjald í skyldulífeyrissparnað hátt?
Skyldulífeyrissparnaður allra starfandi einstaklinga á aldrinum 16-70 ára skal nema 12% af launum fyrir skatt, samkvæmt lögum. Framlag launþega 4% og mótframlag launagreiðanda 8%. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða hvort tveggja og er heildarframlag þeirra því 12%. Hins vegar skal skyldulífeyrissparnaður þeirra sem starfa á samningssviði ASÍ og SA nema 14% af launum fyrir skatt, samkvæmt kjarasamningum. Framlag launþega 4% og mótframlag launagreiðanda 10%. Sjálfstæðum atvinnurekendum er frjálst en ekki skylt að greiða mótframlag samkvæmt þessu. Þessi hækkun er liður í því að stuðla að jöfnun lífeyrisréttinda opinbera og almenna vinnumarkaðarins og mun mótframlag launagreiðenda hækka enn frekar eða í 11,5% þann 1. júlí 2018, heildarframlagið verður þá alls 15,5%. Um helmingur sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins fá greitt mótframlag samkvæmt lögum en um helmingur taka mið af kjarasamningum ASÍ og SA og fá greitt hærra mótframlag. Flestir sjóðfélagar Lífeyrissjóðs Rangæinga falla undir kjarasamninga ASÍ og SA og fá greitt hærra mótframlag. Hækkunin á hins vegar ekki við um sjóðfélaga EFÍA. Launþegi og launagreiðandi semja stundum um hærra mótframlag, sjá Má launagreiðandi greiða hærra en hefðbundið mótframlag? Loks er vakin er athygli á greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.Hvað er iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað hátt?
Til viðbótar við skyldulífeyrissparnað geta launþegar lagt fyrir allt að 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað og fá 2% mótframlag frá launagreiðanda samkvæmt flestum kjarasamningum. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða hvort tveggja og er heildarframlag þeirra því almennt 6%. Launþegi og launagreiðandi semja stundum um hærra mótframlag, sjá Má launagreiðandi greiða hærra en hefðbundið mótframlag? Loks er vakin er athygli á greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk. Með því að hefja viðbótarlífeyrissparnað snemma eykst svigrúm sjálfstæðra atvinnurekenda og annarra starfandi einstaklinga til að minnka við sig eða hætta í starfi fyrr en ella.Af hvaða tekjum er greitt?
Iðgjald er greitt af öllum launatekjum, að frátöldum ákv. hlunnindum, nánar í 3. gr. laga nr. 129/1997. Greiða skal í skyldulífeyrissparnað í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofsgreiðslum. Það er hins vegar val launþega hvort hann greiðir viðbótarlífeyrissparnað, hægt er að taka tímabundið hlé. Vinnumálastofnun og Fæðingarorlofssjóður greiða ekki mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað.Hvenær eru gjalddagi og eindagi?
Gjalddagi er 10. dagur næsta mánaðar eftir launatímabili og eindagi síðasti dagur næsta mánaðar eftir launatímabili. Sem dæmi þá er gjalddagi vegna marsmánaðar 10. apríl og eindagi 30. apríl. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef greitt er eftir eindaga.Af hverju þarf að skila inn skilagrein?
Skilagrein þarf að fylgja greiðslu í lífeyrissjóð svo að ljóst sé hvernig bóka eigi greiðsluna þ.e. hve mikið er greitt fyrir hvern launþega og fyrir hvaða tímabil. Iðgjöld bera vexti frá og með þeim degi sem skilagrein berst, því er mikilvægt að skilagrein berist frá launagreiðanda samhliða greiðslu. Þegar um fastar mánaðarlegar greiðslur er að ræða, t.d. kröfuáskrift, þarf ekki að skila skilagrein.Hafa flestir val um lífeyrissjóð eða kveða kjarasamningar á um skylduaðild?
Frjálsi lífeyrissjóðurinn er öllum opinn, svo framarlega sem kjarasamningur eða ráðningarsamningur sem launþegi er aðili að kveður ekki á um annað. Það er ekki skylduaðild að Frjálsa lífeyrissjóðnum. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa jafnan frjálst val um lífeyrissjóð og geta því greitt í Frjálsa lífeyrissjóðinn. Sama má segja um fjölmarga launþega. Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífeyrisauki eru opnir þeim sem vilja leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað, en allir hafa frjálst val um hvort og í hvaða sjóð þeir greiða viðbótarlífeyrissparnað. Kjarasamningar kveða hins vegar oft á um skylduaðild að lífeyrissjóði. Launagreiðendum er bent á að hafa samband við samtök vinnuveitenda eða stéttarfélög, til að fá upplýsingar um gildandi kjarasamninga launþega sinna, en í þeim ætti að koma fram hvort skylduaðild sé að ákveðnum lífeyrissjóði. Einnig geta verið sérstök ákvæði um aðild að lífeyrissjóðum í sumum ráðningarsamningum, þá hafa launagreiðandi og launþegi yfirleitt vitneskju um það. Lífeyrissjóður Rangæinga er opinn öllum en skylduaðild aðildarfélaga. EFÍA er aðeins opinn félagsmönnum Félags íslenskra atvinnuflugmanna.Hvernig er iðgjald greitt og skilagreinum skilað?
Hægt er að velja um nokkrar leiðir til að greiða iðgjald og skila skilagreinum, sjá upplýsingar um skilagreinar og greiðslur.Hvernig er greiðslum tekjuskatts háttað?
Það er ekki greiddur tekjuskattur af iðgjaldi við greiðslu í lífeyrissjóð, iðgjaldið er frádráttarbært frá skatti, svo að greiðslu tekjuskatts er frestað þar til kemur að útgreiðslu. Á bæði við um skyldulífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað.Hvaða greiðslumáta er mælt með fyrir sjálfstæða atvinnurekendur?
Sjálfstæðir atvinnurekendur eru hvattir til að vera með fastar mánaðarlegar greiðslur í formi kröfuáskriftar í netbanka sem er mjög skilvirk og þægileg leið. Skilagreinar eru óþarfar þar sem upplýst er um fastar mánaðarlegar greiðslur fram í tímann. Nánar um skilagreinar.Hvar fást notandanafn og lykilorð vegna rafrænna skila í launakerfi?
Þú velur þér sjálfur notandanafn og lykilorð ef launakerfið biður um það, sjóðurinn úthlutar því ekki.Hvernig er mótframlagi sjálfstæðra atvinnurekenda háttað?
Sjálfstæðir atvinnurekendur geta lagt fyrir allt að 4% af reiknuðu endurgjaldi í viðbótarlífeyrissparnað og dregið frá skattskyldum tekjum líkt og launþegar. Til viðbótar geta þeir greitt sér mótframlag sem gjaldfærist í rekstri og myndar stofn til tryggingargjalds. Sjálfstæðir atvinnurekendur nýta sér gjarna heimild til greiðslu hærra mótframlags, sjá Má launagreiðandi greiða hærra en hefðbundið mótframlag? Loks er vakin er athygli á greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.Á að skila núllskilagrein ef upp koma launalaus tímabil?
Já, það er mikilvægt að skila inn núllskilagrein fyrir viðkomandi launþega, ef upp koma launalaus tímabil, til að koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir að ástæðulausu.Sendir RSK frá sér innheimtukröfur?
Sjá hér upplýsingar um innheimtukröfur RSK.Á að segja skyldulífeyrissparnaði upp skriflega?
Það er ekki skylda að segja skyldulífeyrissparnaði upp skriflega, en verður þó að teljast góð regla. Sendu tölvupóst á lifeyristhjonusta@arionbanki.is til að upplýsa lífeyrissjóðinn um að greiðslur hætti, til að koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir að ástæðulausu.Á að segja viðbótarlífeyrissparnaði upp skriflega?
Já. Uppsagnarfrestur er 2 mánuðir. Sendu tölvupóst á lifeyristhjonusta@arionbanki.is til að fá sent uppsagnareyðublað.Á að bíða eftir staðfestingu vörsluaðila áður en greiðslur hefjast í nýjan sjóð?
Þrátt fyrir að nýr samningur um viðbótarlífeyrissparnað ásamt uppsögn á samningi fyrri vörsluaðila hafi borist launagreiðanda, geta greiðslur í nýjan sjóð ekki hafist fyrr en fyrir liggur staðfest uppsögn frá fyrri vörsluaðila um að hann gefi frá sér samning, eða 2ja mánaða uppsagnarfrestur er liðinn.Hvað gerist ef skilagrein berst sjóðnum en engin greiðsla?
Þegar skilagrein berst sjóðnum en engin greiðsla, þá er greiðanda sent greiðsluáskorunarbréf sem veitir 15 daga greiðslufrest á ógreidda skilagrein eftir eindaga. Krafa er mynduð ef hún er ekki þegar til staðar. Ef skilagrein er enn ógreidd 15 dögum eftir að greiðsluáskorun er send þá er hún send til frekari innheimtu til Motus.Hvað gerist ef greiðsla berst of seint?
Berist greiðsla of seint eru dráttarvextir reiknaðir frá gjalddaga til greiðsludags. Innborgun er tekin upp í. Á eftirstöðvar er stofnuð krafa og greiðsluáskorunarbréf er sent til greiðanda.Hvað ef ég greiði aðeins hluta skylduiðgjalda í lífeyrissjóð fyrir launþega mína?
Hafi launagreiðandi aðeins greitt hluta af skylduiðgjöldum í lífeyrissjóð fyrir launþega síðasta iðgjaldaár, þá sendir sá lífeyrissjóður honum kröfu að beiðni RSK, haustið á eftir.Hvað ef ég greiði ekki í lífeyrissjóð fyrir launþega mína?
Hafi launagreiðandi ekki greitt nein skylduiðgjöld í lífeyrissjóð fyrir launþega síðasta iðgjaldaár, þá sendir Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda honum kröfu að beiðni RSK, haustið á eftir. Launagreiðandi getur óskað eftir að greiða kröfuna til annars lífeyrissjóðs. Vegna Frjálsa lífeyrissjóðsins, EFÍA og Lífeyrissjóðs Rangæinga má hringja í 444 6500 eða senda tölvupóst á launagreidendur@arionbanki.is. Frestur til að óska eftir yfirtöku er almennt mánuður frá fyrsta bréfi.Hvar er spurt og svarað um launagreiðendavef Arion banka?
Hér finnur þú spurt og svarað um launagreiðendavef Arion banka.
Hverjir eru helstu kostir viðbótarsparnaðar?
Kostir viðbótarsparnaðar eru fjölmargir enda eitt besta sparnaðarform sem völ er á.
- Mótframlag launagreiðenda er mikill kostur en sá sem er ekki með viðbótarsparnað er í raun að hafna þeirri launahækkun sem felst í mótframlagi launagreiðanda.
- Skattahagræði getur verið umtalsvert því viðbótarsparnaður er frádráttarbær frá tekjuskattstofni við innborgun, tekjuskattur er greiddur við útgreiðslu. Þessi tekjuskattfrestun getur komið sér vel. Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur eða erfðafjárskattur af viðbótarsparnaði.
- Sparnaðarformið er einkar þægilegt þar sem launagreiðandi sér um greiðslurnar.
- Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslur og innheimtuþjónusta er frí.
- Það er óhætt að segja að viðbótarsparnaður sé einföld og hagkvæm leið til að auka fjárhagslegt sjálfstæði.
- Það er ekki hægt að gera fjárnám í viðbótarsparnaði, veðsetja hann eða framselja, enda er honum ætlað að tryggja framfærslu eftir starfslok eða við orkutap.
- Viðbótarsparnaður er þín séreign sem erfist að fullu.
- Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin einnig boðið skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarsparnaðar, sjá hér og fyrirframgreiðslur viðbótarsparnaðar vegna Covid-19, sjá hér.
Hvað má greiða mikið í viðbótarsparnað?
Launþegi getur lagt fyrir allt að 4% af launum í viðbótarsparnað að hámarki og fær 2% mótframlag frá launagreiðanda skv. flestum kjarasamningum. Dæmi eru um að launþegar geti samið við launagreiðendur sína um hærra mótframlag en launagreiðanda er heimilt að greiða í mótframlag sem nemur 12% af launum + 2.000.000 kr. árlega fyrir hvern launþega, samtals í skyldu- og viðbótarsparnað. Iðgjald launagreiðanda getur verið enn hærra hafi verið samið um það í kjarasamningum eða ef það er bundið í lög. Ef iðgjald launagreiðanda fer umfram þessi mörk telst það til tekna hjá launþega og verður skattlagt sem slíkt, sem er ekki skattalega hagkvæmt. Það fer eftir því hve hátt mótframlag launagreiðandi er nú þegar að greiða hvort skattalegt svigrúm er til frekari samninga um hækkun mótframlags til lífeyrissparnaðar. Það er umhugsunarvert fyrir launþega að kanna hvort samningsvilji er fyrir hendi hjá launagreiðanda og láta á það reyna að semja til framtíðar um hærra mótframlag til viðbótarsparnaðar í stað hefðbundinnar launahækkunar. Með því móti getur launþegi notið góðs af þeim hagstæðu skattareglum sem gilda um lífeyrissparnað. Þetta getur verið sérstaklega hagkvæmt fyrir þá sem greiða hluta tekjuskatts núverandi launa í hæsta skattþrep, en reikna með að eftirlaunin fari í lægra skattþrep. Þannig er möguleiki á lægri heildartekjuskattgreiðslum. Sjálfstæðir atvinnurekendur nýta gjarna þennan kost. Sjá umfjöllun í greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.
Get ég valið hvar ég ávaxta viðbótarsparnað?
Þú hefur frjálst val um hvar þú ávaxtar þinn viðbótarsparnað. Þú þarft ekki að greiða hann í sama sjóð og þú greiðir skyldusparnaðinn þinn. Til viðbótar við lífeyrissjóði er bönkum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum heimilt að ávaxta viðbótarsparnað.
Er viðbótarsparnaður aðfararhæfur?
Nei, viðbótarsparnaður er ekki aðfararhæfur og því ekki hægt að ganga að honum vegna fjárhagslegra skuldbindinga.
Ég var að byrja með viðbótarsparnað, af hverju er engin inneign í sjóðnum mínum?
Þegar þú gerir samning um viðbótarsparnað eða breytir um launagreiðanda þá sendir sjóðurinn samninginn á launagreiðanda samdægurs eða daginn eftir. Það getur hins vegar verið alveg eðlilegt að þú sjáir ekki inneign í sjóðnum þínum fyrr en 1-2 mánuðum síðar. Það fer svolítið eftir því hvort þú gerðir samning um viðbótarsparnað fyrir eða eftir miðjan mánuð þ.e. hvort það hefur náð inn í launavinnslu mánaðarins hjá launagreiðanda þínum.
- Fyrsta skrefið er að skoða launaseðilinn þinn, á honum sérðu hvort hluta launa þinna hafi verið ráðstafað í viðbótarsparnað á síðasta launatímabili.
- En jafnvel þó þú sjáir á launaseðli að iðgjald hafi verið dregið af launum þá er gjalddagi ekki fyrr en 10. dag næsta mánaðar á eftir launatímabili og eindagi síðasti dagur næsta mánaðar á eftir launatímabili. Að þeim tíma liðnum ættir þú að sjá inneign í sjóðnum.
- Sjáir þú ekki greiðslur í viðbótarsparnað á launaseðlinum þá er möguleiki að samningurinn þinn hafi ekki borist launagreiðanda fyrir launavinnslu launatímabilsins. Það gætir þú fengið staðfest hjá launafulltrúa.
- Hafi samningurinn ekki borist launagreiðanda þínum geturðu haft samband við sjóðinn þinn og óskað eftir að samningurinn verði sendur aftur.
Hvar og hvernig sæki ég um fyrirframgreiðslu?
Hægt verður að sækja um fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum til 1. janúar 2022.
Hver er hámarksfjárhæð fyrirframgreiðslu?
Hver einstaklingur getur nú að hámarki sótt um fyrirframgreiðslu á þeirri fjárhæð sem hann á uppsafnaða þann 1. apríl 2021 en þó má samanlögð fyrirframgreiðsla á umsóknartímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2022 ekki vera hærri en 12 milljónir. Hafi sjóðfélagi t.d. sótt um 5 milljóna fyrirframgreiðslu árið 2020 þá getur hann sótt um 7 milljóna fyrirframgreiðslu árið 2021, samtals 12 milljónir, samanlagt úr sjóðum allra vörsluaðila.
Fyrir hvaða tíma þarf umsókn að berast, til að fá útgreitt í mánuðinum?
Umsóknarfrestur er til 10. dags hvers mánaðar. Greitt er út 15. dag hvers mánaðar. Þú sækir um með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum.
Hvaða lífeyrissparnaður er laus til fyrirframgreiðslu?
Allur viðbótarsparnaður er laus til fyrirframgreiðslu þ.e. frjáls séreign vegna viðbótarsparnaðar, bæði iðgjöld og ávöxtun. Tilgreind séreign, bundin séreign og frjáls séreign vegna skyldusparnaðar eru hins vegar ekki laus til fyrirframgreiðslu.
Er hægt að breyta umsókn um fyrirframgreiðslu?
Já, þú smellir á hnappinn Persónuupplýsingar efst í hægra horni á Mínum síðum, þar getur þú breytt samskiptaleiðum, bankareikningi og skattaupplýsingum.
Ef þú vilt breyta fjárhæð eða fjölda mánaða þá velur þú Stöðva fyrirframgreiðslu. Eftir það gerir þú nýja umsókn með því að Sækja um fyrirframgreiðslu að nýju.
Óskir þú hins vegar eftir að hætta alfarið við umsóknina þá velur þú eingöngu Stöðva fyrirframgreiðslur.
Þarf ég að greiða skatt af fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar?
Já, tekjuskatt. Vörsluaðili sér um að standa skil á tekjuskatti. Ástæðan er sú að viðbótariðgjöld eru dregin af launum áður en tekjuskattur er reiknaður og greiðslu tekjuskatts frestað fram að útgreiðslu. Skatthlutfall í staðgreiðslu skiptist nú í 3 skattþrep nánar á vefsíðu RSK. Mikilvægt er að sjóðfélagar séu meðvitaðir um í hvaða skattþrepi greiðslan lendir þegar tekið hefur verið tillit til annarra tekna. Líkur eru á að lenda í hærra skattþrepi ef lífeyrissparnaður er tekinn út meðan sjóðfélagi er með önnur laun. Því kann fyrirframgreiðslu að fylgja skattalegt óhagræði. Viðbótarsparnaður er hins vegar undanþeginn fjármagnstekjuskatti, auk þess sem ekki er greiddur erfðafjárskattur af honum við fráfall. Hins vegar þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af ávöxtun almenns sparnaðar og erfðafjárskatt við fráfall.
Get ég nýtt persónuafslátt?
Já, ef nýta á persónuafslátt þarf að taka það fram í umsókn. Persónuafsláttur vegna 2021 er 50.792 kr. á mánuði/609.509 kr. á ári og heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2021. Nánar á vefsíðu RSK.
Ef ég á og sæki um ákveðna fjárhæð – fæ ég þá örugglega þá fjárhæð?
Lækki gengi sjóðsins á tímabilinu getur endanleg fjárhæð sem greidd er út orðið lægri en sú fjárhæð sem var laus til fyrirframgreiðslu við gildistöku laganna, þann 1. apríl 2021. Greiddur er tekjuskattur af heildarfjárhæð.
Á hve langan tíma dreifast greiðslurnar?
Fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á allt að 15 mánuðum.
Hve há er mánaðarleg greiðsla?
Hámarksfjárhæð á mánuði er 800.000 kr. fyrir skatt, en hægt er að óska eftir að jafnar mánaðargreiðslur séu lægri.
Get ég tekið út úr fleiri en einum sjóði?
Já, en aðeins er hægt að taka út 12 milljónir kr. í heildina, samanlagt úr sjóðum allra vörsluaðila. Aðeins er greitt úr einum sjóði í einu, nema þann mánuð sem greiðslum lýkur úr einum sjóði og greiðslur hefjast í öðrum.
Geta allir sótt um fyrirframgreiðslu eða gæti í einhverjum tilfellum verið hentugra að sækja um aðra tegund útgreiðslu?
Já, fyrirframgreiðslan stendur öllum til boða. Ef þú færð framfærsluuppbót samhliða örorkulífeyri frá TR þá gæti verið hagkvæmara að sækja um fyrirframgreiðslu frekar en að sækja um á grundvelli örorku eða aldurs því fyrirframgreiðslan hefur ekki áhrif til lækkunar á framfærsluuppbót. Auk þess dreifist fyrirframgreiðslan á styttri tíma sem gæti í einhverjum tilfellum hentað betur. En í þeim tilfellum sem hægt er að sækja um á grundvelli aldurs (60 ára) eða andláts (erfðaséreign) þá er það almennt hentugri leið því eru þær útgreiðslureglur sem um það gilda eru sveigjanlegri en þær reglur sem gilda um fyrirframgreiðslur.
Hvert er upphæðin millifærð við útgreiðslu?
Einungis er leyfilegt að millifæra á bankareikning á kennitölu sjóðfélaga. Prókúra á reikning nægir ekki. Ekki er millifært á erlenda reikninga. Launaseðlar eru aðgengilegir í netbanka sjóðfélaga.
Þarf ég að sækja um aftur, hafi ég flutt séreign á milli sjóða?
Já, þú þarft að sækja um hjá núverandi vörsluaðila, ef ætlunin er að fá fyrirframgreiðslu. Umsókn frá öðrum vörsluaðila flyst ekki yfir samhliða flutningi á séreign, hvort sem fyrirframgreiðslur voru hafnar eða ekki. Athugaðu að heildarfyrirframgreiðsla úr viðbótarsparnaði verður þó aldrei hærri en 12 milljónir kr. samtals sem þýðir að ef útgreiðslur hófust hjá fyrri vörsluaðila munu þær greiðslur sem þú fékkst þaðan, dragast frá þeirri upphæð sem þú getur sótt um hjá núverandi vörsluaðila.
Er viðbótarsparnaður aðfararhæfur?
Nei, viðbótarsparnaður er ekki aðfararhæfur meðan hann er í séreignarsjóði og því ekki hægt að ganga að honum vegna fjárhagslegra skuldbindinga, líkt og gildir um annan sparnað. Kröfuhafa er því óheimilt að krefjast þess að þú óskir eftir fyrirframgreiðslu á viðbótarsparnaði þínum. Þessi vernd er ekki lengur til staðar á þeirri séreign sem greidd hefur verið út úr sjóðnum, inneign á bankareikningi er t.d. aðfararhæf.
Af hverju þarf að senda launaseðla til Vinnumálastofnunar þegar sótt er um atvinnuleysisbætur?
Til að Vinnumálastofnun geti metið hvort réttur er til atvinnuleysisbóta þurfa upplýsingar um aðrar tekjur að fylgja umsókn. Því er óskað eftir öllum launaseðlum síðustu tvo mánuði. Gildir jafnt um fyrirframgreiðslur viðbótarsparnaðar og aðrar tekjur, jafnvel þó að fyrirframgreiðslur skerði ekki atvinnuleysisbætur. Sjóðfélagar geta nálgast launaseðla um fyrirframgreiðslur í netbanka.
Fæ ég lægri eftirlaun ef ég sæki um framtíðargreiðslur nú?
Það er viðeigandi að hafa í huga að „eyðist það sem af er tekið“. Einn af kostum viðbótarsparnaðar er að hann minnkar tekjulækkun við starfslok. Eðli málsins samkvæmt leiðir fyrirframgreiðsla viðbótarsparnaðar til þess að uppsafnaður sparnaður og útgreiðslur síðar meir verða lægri, sem getur því haft áhrif á lífskjör á eftirlaunaárunum. Það er alltaf góð regla að horfa á heildarmyndina. Ef þörfin fyrir fyrirframgreiðslu nú er brýn, þá er ákvörðunin fljóttekin því þetta getur reynst góð leið til að drýgja tekjur við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag, enda er það tilgangurinn með þessu úrræði. Sumir kjósa hins vegar að fara bil beggja og nýta hluta af heimildinni og eiga hluta til góða við starfslok. Allt eftir þörfum hvers og eins.
Hafa fyrirframgreiðslur áhrif á bótagreiðslur?
Fyrirframgreiðslan hefur ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta, barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta og greiðslna til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, eða bóta skv. lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega (t.d. framfærsluuppbót örorkulífeyris). Nánar í skilmálum umsóknar.
Hvaða úrræði og leiðir eru í boði fyrir skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarsparnaðar?
Úrræðin um skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar eru tvö:
- Sótt er um úrræði fyrstu íbúðar á skattur.is ef minna en 12 mánuðir eru frá kaupsamningi fyrstu íbúðar. Úrræðið nær yfir tíu ára samfellt tímabil að vali umsækjanda sbr. lög nr. 111/2016.
- Sótt er um almenna úrræðið á leidretting.is ef ekki er um fyrstu íbúðakaup að ræða eða ef meira en tólf mánuðir eru frá kaupsamningi fyrstu íbúðar. Úrræðið nær yfir níu ára tímabil frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2023 sbr. lög nr. 129/1997.
Grunnreglur og umsóknarferli úrræðanna eru sambærileg en aðgreiningin felst í mismunandi sérreglum hvors úrræðis um sig. Sömu tvær leiðirnar eru í boði innan hvors úrræðis fyrir sig og nýta margir báðar leiðirnar:
- Húsnæðissparnaður - uppsöfnuð iðgjöld frá 1. júlí 2014 vegna þeirra launatímabila sem þú varst ekki íbúðaeigandi. Sá sem hefur verið íbúðaeigandi óslitið frá 1. júlí 2014 getur ekki sótt um húsnæðissparnað.
- Regluleg ráðstöfun inn á lán - framtíðariðgjöld launatímabila frá því að sótt er um ráðstöfun þar til tímabili úrræðis lýkur. Sá tími sem líður frá íbúðakaupum og þar til sótt er um nýtist ekki.
Spurt og svarað á því við um bæði úrræðin nema annað sé tekið fram.
Hvaða sjö grunnreglur gilda um bæði úrræðin tvö?
- Framlag launþega er skilyrði, framlag launagreiðanda er ekki fullnægjandi eitt og sér.
- Lágmarksiðgjald launþega er 2% eða að lágmarki jafnhátt viðbótariðgjaldi launagreiðanda.
- Hámarksiðgjald launþega er 4% og hámarksiðgjald launagreiðanda er 2%.
- Gildir eingöngu um viðbótariðgjöld, ekki um ávöxtun þeirra.
- Greiðsla er ekki framkvæmanleg fyrr en launagreiðendur hafa gert skil á viðbótariðgjöldum til vörsluaðila.
- Með því að velja fulla nýtingu veitir umsækjandi vörsluaðila heimild til að ráðstafa eins miklu og hægt er inn á lán.
- Með því að velja takmarkaða nýtingu takmarkast heimild vörsluaðila við þá fjárhæð sem umsækjandi skráir.
Vegna ofangreindra takmarkana er ráðlegt að gera raunhæfar væntingar hvað varðar fjárhæðir. Reynslan sýnir að sumir búast við að fá alla uppsafnaða séreign greidda sem húsnæðissparnað en svo er ekki þar sem úrræðin gilda ekki um ávöxtunarhluta, eingöngu iðgjaldahluta og að hámarki 4%+2%. Þá gilda þau eingöngu um viðbótarsparnað, ekki erfðaséreign eða um séreign vegna skyldusparnaðar. Hvað tímasetningu varðar þá er raunhæfara að húsnæðissparnaður nýtist sem afsalsgreiðsla fremur en fyrsta útborgun.
Hvaða sérreglur gilda um hvort úrræði fyrir sig og hvar sæki ég um?
Smelltu hér til að skoða töflu með þeim sérreglum sem aðgreina almenna úrræðið frá úrræði fyrstu íbúðar.
Það er svolítið síðan ég keypti íbúð, er orðið of seint að nýta þessi skattfrjálsu úrræði?
Það er orðið of seint að nýta úrræði fyrstu íbúðar ef liðnir eru meira en 12 mánuðir frá því að kaupsamningur var gerður. En hvort sem þú ert eigandi þinnar fyrstu íbúðar eða annarra íbúða þá gætirðu mögulega nýtt almenna úrræðið.
- Þú getur ekki sótt um húsnæðissparnað hafir þú verið íbúðaeigandi allt tímabilið frá 01.07.2014 og til dagsins í dag.
- Þú getur hins vegar sótt um húsnæðissparnað sem er í raun uppsöfnuð eingreiðsla til íbúðakaupa, hafir þú ekki verið íbúðaeigandi eða verið íbúðaeigandi hluta af tímabilinu. Skattfrelsið gildir um uppsöfnuð viðbótariðgjöld (hámark 4%+2% en ekki ávöxtun) þeirra launatímabila sem þú varst ekki íbúðaeigandi, frá 01.07.2014 eða síðar og til kaupdags íbúðar.
- Þú getur sótt um reglulegar greiðslur inn á lán. Umsóknin gildir ekki aftur í tímann heldur gildir skattfrelsið eingöngu um framtíðariðgjöld (hámark 4%+2%, ekki ávöxtun) launatímabila frá því að þú sækir um hjá RSK þar til úrræði lýkur þann 30.06.2023.
Hvað geri ég til að nýta almenna úrræðið til 30. júní 2023?
Ef þú varst með virka umsókn í almenna úrræðinu til 30. júní 2021:
- Umsókn gilti óslitið frá 1. júlí 2021 ef þú sóttir um framlengingu 30. september 2021 eða fyrr, en ef þú gerðir ekkert þá féll umsókn úr gildi.
- Umsókn gildir á ný frá umsóknarmánuði ef þú sækir um 1. október 2021 eða síðar.
Ef þú varst ekki með virka umsókn til 30. júní 2021:
- Það er enn hægt að sækja um almenna úrræðið, umsókn um ráðstöfun inn á lán gildir þá bara frá umsóknarmánuði til 30.06.2023. Svo er líka hægt að sækja um húsnæðissparnað í eingreiðslu hafir þú ekki verið íbúðaeigandi einhvern hluta tímabilsins frá 1. júlí 2014 en á sama tíma greitt í viðbótarsparnað.
Hvernig nýti ég þessi skattfrjálsu úrræði sem best?
- Krónutölulega séð nýtist skattfrelsið best ef umsækjandi nær að fullnýta hámarksheimild hvers árs fyrir sig. Sumir ná betri heildarnýtingu krónutölulega séð ef „húsnæðissparnaður" væri ekki nýttur eða nýttur í styttri tíma en „reglulegar greiðslur inn á lán" nýttar til lengri tíma. Því fyrr sem byrjað er að leggja fyrir í viðbótarsparnað því meiri húsnæðissparnað hefur umsækjandi möguleika á að nýta þegar þar að kemur og því fyrr sem sótt er um ráðstöfun inn á lán, því fleiri launatímabil nýtast.
- Einstaklingur með 695.000 kr. og samskattaðir aðilar með samtals 1.042.000 kr. í mánaðarlaun ná að fullnýta skattfrelsið ár hvert með 4%+2% iðgjaldi en heimild til ráðstöfunar inn á lán færist ekki á milli ára.
- Þeir sem eru með lægri mánaðarlaun og lægra framlag í viðbótarsparnað en í dæminu hér á undan eiga því ekki möguleika á nýta heimild ársins að fullu.
- Raunin er hins vegar sú þar sem útborgun/afsalsgreiðsla er oft flöskuháls við íbúðakaup þá sækja margir um „húsnæðissparnað" jafnvel þó hámarksheimild hvers árs nýtist þeim ekki að fullu ( t.d. vegna lágra launa, lágs starfshlutfalls eða af því að framlag launþega er 2% en ekki 4%).
- Allt er þetta hins vegar háð aðstæðum og val hvers umsækjanda fyrir sig og hvaða leið sem farin er, þá er ágætt að átta sig á kostunum í stöðunni og taka meðvitaða ákvörðun, svo að ekkert komi á óvart síðar.
- Einstaklingur í almenna úrræðinu mun á endanum eiga 4,5 milljónum kr. meira í íbúð sinni m.v. fulla nýtingu og framlengingu en samskattaðir aðilar samtals 6.750.000 kr. Einstaklingur í úrræði fyrstu íbúðar mun á tíu árum eignast 5 milljónum kr. meira í íbúð sinni m.v. fulla nýtingu.
Hvað má búast við löngum afgreiðslutíma?
Vakin er athygli á að ferlið krefst samvinnu nokkurra aðila þ.e. umsækjanda, RSK og vörsluaðila viðbótarsparnaðar. Einnig lánveitanda þegar um er að ræða „reglulegar greiðslur inn á lán“. Gera má ráð fyrir að frá því að umsókn er móttekin af RSK og þar til RSK hefur staðfest eða hafnað umsókn við umsækjanda, vörsluaðila og lánveitanda geti liðið allt að 2-3 mánuðir og því ekki endilega raunhæft að geta nýtt „húsnæðissparnað" í fyrstu útborganir heldur er afsalsgreiðsla oft raunhæfari kostur.
Ég er búin/n að fá staðfestingu í tölvupósti frá RSK en það er engin greiðsla komin, af hverju?
Staðfesting RSK berst umsækjendum almennt áður en hún berst í kerfi lánveitenda/vörsluaðila, en staðfesting RSK er forsenda fyrir að vörsluaðili/lánveitandi geti framkvæmt greiðslu. Auk þess þarf greiðslugluggi lána að vera opinn og launagreiðandi að vera búinn að greiða iðgjöld þegar um „reglulegar greiðslur inn á lán" er að ræða. Það er því í raun eðlilegt að nokkrir dagar/vika líði frá því að umsækjanda berst staðfesting þar til greiðsla er framkvæmd.
Hvað gæti valdið því að ég fái höfnun á umsókn eða lægri útgreiðslu en ég gerði mér vonir um?
Ástæða höfnunar ætti að koma fram í tölvupósti frá RSK og undir samskiptaflipa á skattur.is (fyrsta íbúð) eða á leidretting.is (almenna úrræðið). Lögum samkvæmt eru ákveðnar takmarkanir á skattfrjálsri ráðstöfun viðbótarsparnaðar sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ráðstafa öllum viðbótarsparnaði skattfrjálst. Ástæður höfnunar gætu t.d. verið eitthvað af neðangreindu:
- Kannski ertu eingöngu að fá mótframlag launagreiðanda í sjóðinn, en framlag þitt (launþega) er skilyrði.
- Kannski er framlag þitt (launþega) í viðbótarsparnað ekki nógu hátt en það þarf að vera 2% eða að lágmarki jafnhátt og mótframlag launagreiðanda. Hámarksiðgjald launþega er 4% og hámarksiðgjald launagreiðanda er 2%.
- Gildir eingöngu um viðbótariðgjöld, ekki um ávöxtun þeirra.
- Hugsanlega er launagreiðandi ekki búinn að standa skil á viðbótariðgjöldum í sjóðinn.
- Hugsanlega valdir þú „takmarkaða nýtingu“ í umsókn þinni en þá má sjóðurinn eingöngu ráðstafa þeirri fjárhæð sem þú skráðir. Með því að velja „fulla nýtingu“ þá veitir þú sjóðnum hins vegar heimild til að ráðstafa öllu framlagi þínu og launagreiðanda þíns sem greitt er í viðbótarsparnað á tímabilinu skattfrjálst að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem fram koma í lögum.
- Þú gætir hafa sótt um í röngum sjóði. Hugsanlega ertu með tilgreinda, bundna eða frjálsa séreign skyldusparnaðar í þeim sjóði en ekki viðbótarsparnað.
- Þú gætir hafa skráð rangt lánanúmer (vegna reglulegra greiðslna inn á lán) eða rangt reikningsnúmer (vegna húsnæðissparnaðar).
- Þú gætir hafa flutt viðbótarsparnað milli sjóða, sem safnaðist upp að hluta til eða að öllu leyti, fyrir 01.07.2014.
- Hámarksfjárhæð hefur þegar verið nýtt.
- Þú greiddir ekki á viðbótarsparnað á tímabilinu.
Hvar get ég fylgst með stöðu umsóknar og hvort eða hve mikið hefur verið greitt?
- Undir samskiptaflipa á skattur.is (fyrsta íbúð) eða á leidretting.is (almenna úrræðið) má fylgjast með stöðu umsóknar og nýtingu. Þar má einnig finna kvittun/staðfestingu á að umsókn hafi verið send, ásamt skilaboðum/athugasemdum umsækjanda og RSK.
- Í netbanka sést greiðslusaga lána.
- Í Arion appi sést hvort greiðslur eru virkar og hve mikið hefur verið greitt.
- Á lífeyrisyfirlitum á arionbanki.is/minarsidur sjást allar útgreiðslur og hreyfingar.
Hvaða ástæður gætu verið fyrir því að reglulegar greiðslur hættu að berast inn á lánið mitt?
Ástæðurnar gætu t.d. verið eitthvað af neðangreindu:
- Að þú endurfjármagnaðir/seldir/keyptir og átt eftir að upplýsa um uppgreiðslu og nýtt lánanúmer. Sést í netbanka, Arion appi og á lánaskjölum.
- Að þú greiðir viðbótarsparnað nú í annan sjóð og átt eftir að upplýsa um nafn nýja sjóðsins. Sést yfirleitt á launaseðli.
- Að þú greiðir ekki lengur í viðbótarsparnað t.d. af því að þú gleymdir að upplýsa vörsluaðila um nýjan launagreiðanda.
- Að lánið er uppgreitt og þú ert ekki með nýtt lán.
- Að heimild þessa árs hefur verið fullnýtt, „reglulegar greiðslur inn á lán“ hefjast aftur á nýju almanaksári, að öðru óbreyttu.
- Að þú sóttir ekki um endurnýjun eftir framlengingu á „reglulegum greiðslum inn á lán“.
Gæti ég þurft að gera einhverjar breytingar á umsókn?
Já, það er á ábyrgð umsækjanda að tryggja RSK réttar upplýsingar á hverjum tíma og bregðast við athugasemdum RSK, ef við á, s.s. um breytingar á högum sínum þ.e. ef þær hafa áhrif á umsókn.
Það er gert á skattur.is vegna úrræðis fyrstu íbúðar en á leidretting.is vegna almenna úrræðisins.
- Uppfæra nafn þess sjóðs/vörsluaðila sem ráðstafa á skattfrjálsum greiðslum úr. Sést yfirleitt á launaseðli.
- Uppfæra lánanúmer. Sést í netbanka, Arion appi og á lánaskjölum. Hafi lán ekki verið skráð á skattframtali bætir umsækjandi númeri við lánalista umsóknar.
- Uppfæra skráningarnúmer íbúðar/fastanúmer nýbyggingar sem sést í íbúðaskrá þjóðskrár á skra.is og á kaupsamningi.
- Skrá breytta hjúskaparstöðu, sem hefur áhrif á samsköttun. Vanti nafn samskattaðs einstaklings skal bæta því við.
- Einnig er hægt er að óska eftir fullri nýtingu í stað takmarkaðrar nýtingar eða öfugt, hafi aðstæður breyst.
Loks er grundvallaratriði að tilkynna vörsluaðila um nýjan launagreiðanda ef skipt er um vinnu. Annars hættir viðbótarsparnaður að safnast upp og þar með húsnæðissparnaður.
Ég ætla ekki að kaupa mér íbúð strax, þarf ég að gera einhverjar ráðstafanir?
Því fyrr sem þú byrjar að greiða í viðbótarsparnað því hærri húsnæðissparnað áttu kost á að nýta þér þegar þar að kemur. Vegna skattfrelsis og mótframlags launagreiðanda er þetta ein hagkvæmasta leiðin til íbúðarsparnaðar og til þess að greiða lán hraðar niður. Þú þarft að tilkynna vörsluaðila um nýjan launagreiðanda ef þú skiptir um vinnu. Annars hættir viðbótarsparnaður að safnast upp. Þú getur gert samning um viðbótarsparnað og tilkynnt um nýjan launagreiðanda í Arion appinu.
Er viðbótarsparnaður það sama og séreignarsparnaður?
Séreignarsparnaður er samheiti yfir viðbótarsparnað, tilgreinda séreign, bundna séreign og frjálsa séreign vegna skyldusparnaðar. Einnig erfðaséreign. Viðbótarsparnaður og viðbótarlífeyrissparnaður er það sama.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna aldurs sjóðfélaga?
Frá 60 ára er viðbótarsparnaður laus til útgreiðslu, að vali sjóðfélaga, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu.
Sækja um útgreiðslu hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna örorku sjóðfélaga?
Verði sjóðfélagi 10% öryrki eða meira getur hann óskað eftir útgreiðslu viðbótarsparnaðar, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Skulu greiðslur að lágmarki dreifast jafnt á sjö ár ef um 100% örorku er að ræða. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum. Eingreiðsla er þó heimil þegar inneign fer undir viðmiðunarfjárhæð, 1.485.014 kr. (2022).
Sækja um útgreiðslu hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna andláts sjóðfélaga?
Við andlát sjóðfélaga verður erfist viðbótarsparnaður að fullu og er oft talað um hann sem erfðaséreign. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu en hvorki erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur.
- Maki og börn erfa séreign: Hafi hinn látni verið í hjónabandi við andlát öðlast maki og/eða börn rétt til helmings séreignar samkvæmt reglum erfðalaga en helmingur er skilgreindur sem hjúskapareign samkvæmt hjúskaparlögum, sjá hér og rennur því eingöngu til maka. Þetta þýðir að maki fær 2/3 af séreign og börn fá 1/3 af séreign þ.e. börn sem eru blóðskyld sjóðfélaga og kjörbörn hans (ættleidd börn), en ekki stjúpbörn eða fósturbörn, sjá hér. Ef barn sjóðfélaga er látið, erfa niðjar hins látna barns hlut þess. Þrátt fyrir framvísun kaupmála, erfðaskrár eða leyfis til setu í óskiptu búi er ekki heimilt að ráðstafa séreign öðruvísi en rakið er hér að ofan en lög nr. 129/1997 fela í sér tilgreinda sérreglu sem kveður á um að séreign erfist framhjá dánarbúi ef sjóðfélagi lætur eftir sig maka og/eða barn, sjá 2. málslið 4. mgr. 11. gr. og 2. málslið 2. mgr. 8. gr. Maki og börn öðlast um leið ráðstöfunarrétt yfir erfðaséreign og geta hvert um sig óskað eftir mánaðarlegum greiðslum, árlegum greiðslum, óreglulegum greiðslum eða eingreiðslu, eftir því hvað hentar hverjum og einum.
- Maki erfir alla séreign: Hafi sjóðfélagi verið í hjónabandi við andlát og lætur ekki eftir sig börn eða niðja.
- Börn erfa alla séreign: Hafi sjóðfélagi aldrei verið í hjónabandi, eða verið skilinn að borði og sæng við andlát eða maki þegar látinn, þá erfa börn sjóðfélaga þann hluta sem maki hefði annars erft.
- Séreign rennur í dánarbú: Láti sjóðfélagi hvorki eftir sig maka eða börn rennur séreign til dánarbús sjóðfélaga. Almennt er greitt inn á reikning dánarbús en ekki á reikninga t.d. systkina eða foreldra.
Sækja um útgreiðslu hér.
Er hægt að hafna erfðaséreign?
Erfingjar, einn eða fleiri, geta hafnað/afsalað sér rétti til erfðaséreignar, áður en útgreiðslur hefjast. Hægt er að hafna til hagsbóta til hvaða skylduerfingja sem er. T.d. geta börn sem vilja að erfðaséreign renni óskipt til eftirlifandi maka sjóðfélaga hafnað sínum rétti en forsendan fyrir að maki fái allt er að öll börn hafni rétti. Höfnun er val, engum er skylt að hafna. Ófjárráða er óheimilt að hafna.
Sækja um höfnun erfðaséreignar hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna brottflutnings erlendra ríkisborgara frá Íslandi?
Erlendir ríkisborgarar geta, skv. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997, sótt um endurgreiðslu iðgjalda við brottflutning frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað skv. milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki sem hér verða nefnd samningsríki þ.e. Bandaríkin og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin.
- EFTA ríkin eru Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Vakin er athygli á að Sviss telst hér til samningsríkja þrátt fyrir að vera ekki aðili að EES samningi ESB ríkjanna og hinna EFTA ríkjanna. Sviss telst hér til samningsríkja vegna aðildar sinnar að Vadus samningi EFTA ríkjanna.
- ESB ríkin eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland, Þýskaland.
Sjóðfélagi sem er með ríkisborgararétt í samningsríki: Ekki er heimilt að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Ef um tvöfalt ríkisfang er að ræða er ekki heimild til endurgreiðslu ef annað er innan samningsríkis. Ríkisföngin þyrftu bæði að vera utan samningsríkja til að endurgreiðsla sé heimil.
Sjóðfélagi sem er ekki með ríkisborgararétt í samningsríki og er ekki að flytja til samningsríkis: Heimilt er að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Þá er framlag sjóðfélaga og launagreiðanda endurgreitt með verðbótum, en án vaxta. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu.
Breskir ríkisborgarar vegna BREXIT: Sérreglur gilda um breska ríkisborgara sem voru með ríkisborgarrétt í samningsríki til 1. janúar 2021 þ.e. meðan Bretland var enn hluti af ESB. Heimilt er að endurgreiða iðgjöld vegna janúar 2021 og síðar, til breskra ríkisborgara sem flutt hafa til Íslands og hafið störf á Íslandi 1. janúar 2021 eða síðar, sbr. útgöngusamning EFTA ríkjanna við Breta frá 1. janúar 2021.
Sækja um endurgreiðslu vegna brottflutnings frá Íslandi hér.