Viðbótarlífeyrissparnaður
Lífeyrisauki, viðbótarlífeyrissparnaður Arion er einföld leið til að auka tekjurnar og spara um leið. Hvort sem þú ert að spara til efri áranna eða til að auðvelda þér íbúðakaupin þá er viðbótarlífeyrissparnaður góð leið.

Spurt og svarað

Hvar eru Mínar síður - launagreiðendavefur og önnur þjónusta fyrir launagreiðendur?
Hér eru Mínar síður - launagreiðendavefur ásamt upplýsingum um þjónustustaði og þjónustuleiðir lífeyrissjóða í rekstri Arion banka.
Hvað er iðgjald í skyldulífeyrissparnað hátt?
Þann 1. janúar 2023 hækkaði skylduiðgjald (lágmarksiðgjald) í lífeyrissjóð, lögum samkvæmt, úr 12% af launum í 15,5%. Framlag launagreiðanda er 11,5% og framlag launþega 4%. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða hvort tveggja. Dæmi eru um að launþegar semji um hærra mótframlag frá launagreiðanda. Sjá undantekningar frá iðgjaldsstofni í 3. gr. laga nr. 129/1997. Samhliða lífeyrisiðgjöldum greiða launagreiðendur 0,10% í VIRK starfsendurhæfingarsjóð.
Hvað er iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað hátt?
Til viðbótar við skyldulífeyrissparnað geta launþegar lagt fyrir allt að 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað og fá 2% mótframlag frá launagreiðanda samkvæmt flestum kjarasamningum. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða hvort tveggja og er heildarframlag þeirra því almennt 6%. Launþegi og launagreiðandi semja stundum um hærra mótframlag, sjá Má launagreiðandi greiða hærra en hefðbundið mótframlag? Loks er vakin er athygli á greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk. Með því að hefja viðbótarlífeyrissparnað snemma eykst svigrúm sjálfstæðra atvinnurekenda og annarra starfandi einstaklinga til að minnka við sig eða hætta í starfi fyrr en ella.
Af hvaða tekjum er greitt?
Iðgjald er greitt af öllum launatekjum, að frátöldum ákv. hlunnindum, nánar í 3. gr. laga nr. 129/1997. Greiða skal í skyldulífeyrissparnað í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofsgreiðslum. Það er hins vegar val launþega hvort hann greiðir viðbótarlífeyrissparnað, hægt er að taka tímabundið hlé. Vinnumálastofnun og Fæðingarorlofssjóður greiða ekki mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað.
Hvenær eru gjalddagi og eindagi?
Gjalddagi er 10. dagur næsta mánaðar eftir launatímabili og eindagi síðasti dagur næsta mánaðar eftir launatímabili. Sem dæmi þá er gjalddagi vegna marsmánaðar 10. apríl og eindagi 30. apríl. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef greitt er eftir eindaga.
Af hverju þarf að skila inn skilagrein?
Skilagrein þarf að fylgja greiðslu í lífeyrissjóð svo að ljóst sé hvernig bóka eigi greiðsluna þ.e. hve mikið er greitt fyrir hvern launþega og fyrir hvaða tímabil. Iðgjöld bera vexti frá og með þeim degi sem skilagrein berst, því er mikilvægt að skilagrein berist frá launagreiðanda samhliða greiðslu. Þegar um fastar mánaðarlegar greiðslur er að ræða, t.d. kröfuáskrift, þarf ekki að skila skilagrein.
Hafa flestir val um lífeyrissjóð eða kveða kjarasamningar á um skylduaðild?
Frjálsi lífeyrissjóðurinn er öllum opinn, svo framarlega sem kjarasamningur eða ráðningarsamningur sem launþegi er aðili að kveður ekki á um annað. Það er ekki skylduaðild að Frjálsa lífeyrissjóðnum. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa jafnan frjálst val um lífeyrissjóð og geta því greitt í Frjálsa lífeyrissjóðinn. Sama má segja um fjölmarga launþega. Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífeyrisauki eru opnir þeim sem vilja leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað, en allir hafa frjálst val um hvort og í hvaða sjóð þeir greiða viðbótarlífeyrissparnað. Kjarasamningar kveða hins vegar oft á um skylduaðild að lífeyrissjóði. Launagreiðendum er bent á að hafa samband við samtök vinnuveitenda eða stéttarfélög, til að fá upplýsingar um gildandi kjarasamninga launþega sinna, en í þeim ætti að koma fram hvort skylduaðild sé að ákveðnum lífeyrissjóði. Einnig geta verið sérstök ákvæði um aðild að lífeyrissjóðum í sumum ráðningarsamningum, þá hafa launagreiðandi og launþegi yfirleitt vitneskju um það. Lífeyrissjóður Rangæinga er opinn öllum en skylduaðild aðildarfélaga. EFÍA er aðeins opinn félagsmönnum Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Hvernig er iðgjald greitt og skilagreinum skilað?
Hægt er að velja um nokkrar leiðir til að greiða iðgjald og skila skilagreinum, sjá upplýsingar um skilagreinar og greiðslur.
Hvernig er greiðslum tekjuskatts háttað?
Það er ekki greiddur tekjuskattur af iðgjaldi við greiðslu í lífeyrissjóð, iðgjaldið er frádráttarbært frá skatti, svo að greiðslu tekjuskatts er frestað þar til kemur að útgreiðslu. Á bæði við um skyldulífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað.
Hvaða greiðslumáta er mælt með fyrir sjálfstæða atvinnurekendur?
Sjálfstæðir atvinnurekendur eru hvattir til að vera með fastar mánaðarlegar greiðslur í formi kröfuáskriftar í netbanka sem er mjög skilvirk og þægileg leið. Skilagreinar eru óþarfar þar sem upplýst er um fastar mánaðarlegar greiðslur fram í tímann. Nánar um skilagreinar.
Hvar fást notandanafn og lykilorð vegna rafrænna skila í launakerfi?
Þú velur þér sjálfur notandanafn og lykilorð ef launakerfið biður um það, sjóðurinn úthlutar því ekki.
Hvernig er mótframlagi sjálfstæðra atvinnurekenda háttað?
Sjálfstæðir atvinnurekendur geta lagt fyrir allt að 4% af reiknuðu endurgjaldi í viðbótarlífeyrissparnað og dregið frá skattskyldum tekjum líkt og launþegar. Til viðbótar geta þeir greitt sér mótframlag sem gjaldfærist í rekstri og myndar stofn til tryggingargjalds. Sjálfstæðir atvinnurekendur nýta sér gjarna heimild til greiðslu hærra mótframlags, sjá Má launagreiðandi greiða hærra en hefðbundið mótframlag? Loks er vakin er athygli á greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.
Á að skila núllskilagrein ef upp koma launalaus tímabil?
Já, það er mikilvægt að skila inn núllskilagrein fyrir viðkomandi launþega, ef upp koma launalaus tímabil, til að koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir að ástæðulausu.
Sendir RSK frá sér innheimtukröfur?
Sjá hér upplýsingar um innheimtukröfur RSK.
Á að segja skyldulífeyrissparnaði upp skriflega?
Það er ekki skylda að segja skyldulífeyrissparnaði upp skriflega, en verður þó að teljast góð regla. Sendu tölvupóst á lifeyristhjonusta@arionbanki.is til að upplýsa lífeyrissjóðinn um að greiðslur hætti, til að koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir að ástæðulausu.
Á að segja viðbótarlífeyrissparnaði upp skriflega?
Já. Uppsagnarfrestur er 2 mánuðir. Sendu tölvupóst á lifeyristhjonusta@arionbanki.is til að fá sent uppsagnareyðublað.
Á að bíða eftir staðfestingu vörsluaðila áður en greiðslur hefjast í nýjan sjóð?
Þrátt fyrir að nýr samningur um viðbótarlífeyrissparnað ásamt uppsögn á samningi fyrri vörsluaðila hafi borist launagreiðanda, geta greiðslur í nýjan sjóð ekki hafist fyrr en fyrir liggur staðfest uppsögn frá fyrri vörsluaðila um að hann gefi frá sér samning, eða 2ja mánaða uppsagnarfrestur er liðinn.
Hvað gerist ef skilagrein berst sjóðnum en engin greiðsla?
Þegar skilagrein berst sjóðnum en engin greiðsla, þá er greiðanda sent greiðsluáskorunarbréf sem veitir 15 daga greiðslufrest á ógreidda skilagrein eftir eindaga. Krafa er mynduð ef hún er ekki þegar til staðar. Ef skilagrein er enn ógreidd 15 dögum eftir að greiðsluáskorun er send þá er hún send til frekari innheimtu til Motus.
Hvað gerist ef greiðsla berst of seint?
Berist greiðsla of seint eru dráttarvextir reiknaðir frá gjalddaga til greiðsludags. Innborgun er tekin upp í. Á eftirstöðvar er stofnuð krafa og greiðsluáskorunarbréf er sent til greiðanda.
Hvað ef ég greiði aðeins hluta skylduiðgjalda í lífeyrissjóð fyrir launþega mína?
Hafi launagreiðandi aðeins greitt hluta af skylduiðgjöldum í lífeyrissjóð fyrir launþega síðasta iðgjaldaár, þá sendir sá lífeyrissjóður honum kröfu að beiðni RSK, haustið á eftir.
Hvað ef ég greiði ekki í lífeyrissjóð fyrir launþega mína?
Hafi launagreiðandi ekki greitt nein skylduiðgjöld í lífeyrissjóð fyrir launþega síðasta iðgjaldaár, þá sendir Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda honum kröfu að beiðni RSK, haustið á eftir. Launagreiðandi getur óskað eftir að greiða kröfuna til annars lífeyrissjóðs. Vegna Frjálsa lífeyrissjóðsins, EFÍA og Lífeyrissjóðs Rangæinga má hringja í 444 6500 eða senda tölvupóst á launagreidendur@arionbanki.is. Frestur til að óska eftir yfirtöku er almennt mánuður frá fyrsta bréfi.
Hvar er spurt og svarað um launagreiðendavef Arion banka?
Hér finnur þú spurt og svarað um launagreiðendavef Arion banka.
Hverjir eru helstu kostir viðbótarsparnaðar?
Kostir viðbótarsparnaðar eru fjölmargir enda eitt besta sparnaðarform sem völ er á.
- Mótframlag launagreiðenda er mikill kostur en sá sem er ekki með viðbótarsparnað er í raun að hafna þeirri launahækkun sem felst í mótframlagi launagreiðanda.
- Skattahagræði getur verið umtalsvert því viðbótarsparnaður er frádráttarbær frá tekjuskattstofni við innborgun, tekjuskattur er greiddur við útgreiðslu. Þessi tekjuskattfrestun getur komið sér vel. Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur eða erfðafjárskattur af viðbótarsparnaði.
- Sparnaðarformið er einkar þægilegt þar sem launagreiðandi sér um greiðslurnar.
- Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslur og innheimtuþjónusta er frí.
- Það er óhætt að segja að viðbótarsparnaður sé einföld og hagkvæm leið til að auka fjárhagslegt sjálfstæði.
- Það er ekki hægt að gera fjárnám í viðbótarsparnaði, veðsetja hann eða framselja, enda er honum ætlað að tryggja framfærslu eftir starfslok eða við orkutap.
- Viðbótarsparnaður er þín séreign sem erfist að fullu.
- Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin einnig boðið skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarsparnaðar, sjá hér og fyrirframgreiðslur viðbótarsparnaðar vegna Covid-19, sjá hér.
Hvað má greiða mikið í viðbótarsparnað?
Launþegi getur lagt fyrir allt að 4% af launum í viðbótarsparnað að hámarki og fær 2% mótframlag frá launagreiðanda skv. flestum kjarasamningum. Dæmi eru um að launþegar geti samið við launagreiðendur sína um hærra mótframlag en launagreiðanda er heimilt að greiða í mótframlag sem nemur 12% af launum + 2.000.000 kr. árlega fyrir hvern launþega, samtals í skyldu- og viðbótarsparnað. Iðgjald launagreiðanda getur verið enn hærra hafi verið samið um það í kjarasamningum eða ef það er bundið í lög. Ef iðgjald launagreiðanda fer umfram þessi mörk telst það til tekna hjá launþega og verður skattlagt sem slíkt, sem er ekki skattalega hagkvæmt. Það fer eftir því hve hátt mótframlag launagreiðandi er nú þegar að greiða hvort skattalegt svigrúm er til frekari samninga um hækkun mótframlags til lífeyrissparnaðar. Það er umhugsunarvert fyrir launþega að kanna hvort samningsvilji er fyrir hendi hjá launagreiðanda og láta á það reyna að semja til framtíðar um hærra mótframlag til viðbótarsparnaðar í stað hefðbundinnar launahækkunar. Með því móti getur launþegi notið góðs af þeim hagstæðu skattareglum sem gilda um lífeyrissparnað. Þetta getur verið sérstaklega hagkvæmt fyrir þá sem greiða hluta tekjuskatts núverandi launa í hæsta skattþrep, en reikna með að eftirlaunin fari í lægra skattþrep. Þannig er möguleiki á lægri heildartekjuskattgreiðslum. Sjálfstæðir atvinnurekendur nýta gjarna þennan kost. Sjá umfjöllun í greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.
Get ég valið hvar ég ávaxta viðbótarsparnað?
Þú hefur frjálst val um hvar þú ávaxtar þinn viðbótarsparnað. Þú þarft ekki að greiða hann í sama sjóð og þú greiðir skyldusparnaðinn þinn. Til viðbótar við lífeyrissjóði er bönkum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum heimilt að ávaxta viðbótarsparnað.
Er viðbótarsparnaður aðfararhæfur?
Nei, viðbótarsparnaður er ekki aðfararhæfur og því ekki hægt að ganga að honum vegna fjárhagslegra skuldbindinga.
Ég var að byrja með viðbótarsparnað, af hverju er engin inneign í sjóðnum mínum?
Þegar þú gerir samning um viðbótarsparnað eða breytir um launagreiðanda þá sendir sjóðurinn samninginn á launagreiðanda samdægurs eða daginn eftir. Það getur hins vegar verið alveg eðlilegt að þú sjáir ekki inneign í sjóðnum þínum fyrr en 1-2 mánuðum síðar. Það fer svolítið eftir því hvort þú gerðir samning um viðbótarsparnað fyrir eða eftir miðjan mánuð þ.e. hvort það hefur náð inn í launavinnslu mánaðarins hjá launagreiðanda þínum.
- Fyrsta skrefið er að skoða launaseðilinn þinn, á honum sérðu hvort hluta launa þinna hafi verið ráðstafað í viðbótarsparnað á síðasta launatímabili.
- En jafnvel þó þú sjáir á launaseðli að iðgjald hafi verið dregið af launum þá er gjalddagi ekki fyrr en 10. dag næsta mánaðar á eftir launatímabili og eindagi síðasti dagur næsta mánaðar á eftir launatímabili. Að þeim tíma liðnum ættir þú að sjá inneign í sjóðnum.
- Sjáir þú ekki greiðslur í viðbótarsparnað á launaseðlinum þá er möguleiki að samningurinn þinn hafi ekki borist launagreiðanda fyrir launavinnslu launatímabilsins. Það gætir þú fengið staðfest hjá launafulltrúa.
- Hafi samningurinn ekki borist launagreiðanda þínum geturðu haft samband við sjóðinn þinn og óskað eftir að samningurinn verði sendur aftur.
Hvaða skattfrjálsu úrræði og leiðir eru í boði vegna íbúðakaupa?
Úrræðin eru tvö.
- Sótt er um úrræði fyrstu íbúðar á skattur.is ef minna en 12 mánuðir eru frá kaupsamningi fyrstu íbúðar. Úrræðið nær yfir tíu ára samfellt tímabil að vali umsækjanda sbr. lög nr. 111/2016.
- NÝTT! frá 2023 gildir úrræði fyrstu íbúðar einnig um þá sem hafa ekki átt íbúð síðastliðin 5 ár, nánar í sérreglum.
- NÝTT! frá 2023 er heimilt að nýta tilgreinda séreign skattfrjálst í úrræði fyrstu íbúðar, auk viðbótariðgjalda, nánar í sérreglum.
- Sótt er um almenna úrræðið á leidretting.is ef ekki er um fyrstu íbúðakaup að ræða eða ef meira en tólf mánuðir eru frá kaupsamningi fyrstu íbúðar. Úrræðið nær yfir níu ára tímabil frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2023 sbr. lög nr. 129/1997. Ríkisstjórnin hefur gefið út viljayfirlýsingu um að framlengja úrræðinu til 31. desember 2024. Gildir eingöngu um viðbótariðgjöld.
Leiðir beggja úrræða eru tvær:
- Húsnæðissparnaður - uppsöfnuð eingreiðsla iðgjalda frá 1. júlí 2014 vegna þeirra launatímabila sem þú varst ekki íbúðaeigandi. Sá sem hefur verið íbúðaeigandi óslitið frá 1. júlí 2014 getur ekki sótt um húsnæðissparnað.
- Regluleg ráðstöfun inn á lán - framtíðariðgjöld launatímabila frá því að sótt er um ráðstöfun þar til tímabili úrræðis lýkur. Sá tími sem líður frá íbúðakaupum og þar til sótt er um nýtist ekki.
Aðgreining úrræðanna felst í sérreglum úrræðanna. Spurt og svarað á við um bæði úrræðin nema annað sé tekið fram.
Hvaða grunnreglur gilda um bæði úrræðin og gætu valdið höfnun eða lægri fjárhæð?
Ákveðnar takmarkanir gilda um viðbótarsparnað en EKKI tilgreinda séreign:
- Framlag launþega er skilyrði, framlag launagreiðanda er ekki fullnægjandi eitt og sér.
- Lágmarksiðgjald launþega er 2% eða að lágmarki jafnhátt viðbótariðgjaldi launagreiðanda.
- Hámarksiðgjald launþega er 4% og hámarksiðgjald launagreiðanda er 2%.
Gildir bæði um viðbótarsparnað OG tilgreinda séreign:
- Gildir eingöngu um iðgjöld, ekki um ávöxtun.
- Veljir þú takmarkaða nýtingu, veitirðu sjóðnum heimild til að ráðstafa skráðri fjárhæð. En veljirðu fulla nýtingu veitirðu sjóðnum heimild til að ráðstafa öllu framlagi þínu og launagreiðanda þíns sem greitt er í viðbótarsparnað á tímabilinu a.t.t.t. takmarkana laganna.
- Greiðsla er ekki framkvæmanleg fyrr en launagreiðandi hefur gert skil á iðgjöldum til vörsluaðila.
- Hafir þú flutt viðbótarsparnað milli sjóða, sem safnaðist upp að hluta eða öllu leyti fyrir 01.07.2014 er ekki hægt að nýta hann sem húsnæðissparnað.
Fleira getur haft áhrif, sjá svar við spurningunni: Gæti ég þurft að gera einhverjar breytingar á umsókn?
Ástæða höfnunar kemur fram í tölvupósti frá RSK og undir samskiptaflipa á skattur.is vegna úrræðis fyrstu íbúðar og á leidretting.is vegna almenna úrræðisins.
Ráðlegt er að gera raunhæfar væntingar um fjárhæð og útgreiðslutíma. Sumir fá minna en vonast er til vegna ofangreindra takmarkana. Raunhæfara er að húsnæðissparnaður nýtist sem afsalsgreiðsla fremur en fyrsta útborgun.
Hvaða sérreglur gilda um hvort úrræði fyrir sig og hvar sæki ég um?
Smelltu hér til að skoða töflu með þeim sérreglum sem aðgreina almenna úrræðið frá úrræði fyrstu íbúðar.
Ég hef ekki átt íbúð í 5 ár, get ég nýtt mér úrræði fyrstu íbúðar?
Þú getur nýtt þér „úrræði fyrstu íbúðar“ þó þú sért ekki lengur eigandi að þinni fyrstu íbúð, ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
- Ef þú hefur ekki átt íbúð síðastliðin 5 ár fyrir umsókn.
- Ef tekjuskattstofn þinn + heildarfjármagnstekjur eru 11.125.045 kr. eða lægri.
- Ef maki/samskattaður aðili, ef við á, uppfyllir ofangreind skilyrði einnig.x
Þeir sem falla undir „úrræði fyrstu íbúðar“ geta nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst, auk viðbótarsparnaðar. Nýting tilgreindrar séreignar er ekki háð því skilyrði að rétthafi greiði viðbótariðgjöld. Greiði rétthafi viðbótariðgjöld skulu þau, að meðtöldu mótframlagi frá launagreiðanda, þó fullnýtt áður en tilgreind séreign er nýtt í þessu skyni. Tilgreindri séreign skal ekki ráðstafað inn á lán fyrr en fyrir liggur að loknu almanaksári að hvaða marki hámarksfjárhæð skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 111/2016 hefur verið nýtt með greiðslu viðbótar-iðgjalds. Ráðstöfun tilgreindrar séreignar inn á lán skal að jafnaði vera í formi eingreiðslu. Nýta má iðgjöld vegna tilgreindrar séreignar sem greidd eru vegna starfa frá og með 1. janúar 2023.
Þeir sem eru í „almenna úrræðinu“ hafa ekki heimild til nýtingar tilgreindrar séreignar. Aðeins þeir sem falla undir „úrræði fyrstu íbúðar“ hafa heimild til nýtingar tilgreindrar séreignar - bæði þeir sem hafa aldrei átt íbúð og þeir sem falla undir 5 ára regluna.
Það er svolítið síðan ég keypti íbúð, er orðið of seint að nýta þessi skattfrjálsu úrræði?
Það er orðið of seint að nýta úrræði fyrstu íbúðar ef liðnir eru meira en 12 mánuðir frá því að kaupsamningur var gerður. En hvort sem þú ert eigandi þinnar fyrstu íbúðar eða annarra íbúða þá gætirðu mögulega nýtt almenna úrræðið.
- Þú getur ekki sótt um húsnæðissparnað hafir þú verið íbúðaeigandi allt tímabilið frá 01.07.2014 og til dagsins í dag.
- Þú getur hins vegar sótt um húsnæðissparnað sem er í raun uppsöfnuð eingreiðsla til íbúðakaupa, hafir þú ekki verið íbúðaeigandi eða verið íbúðaeigandi hluta af tímabilinu. Skattfrelsið gildir um uppsöfnuð viðbótariðgjöld (hámark 4%+2% en ekki ávöxtun) þeirra launatímabila sem þú varst ekki íbúðaeigandi, frá 01.07.2014 eða síðar og til kaupdags íbúðar.
- Þú getur sótt um reglulegar greiðslur inn á lán. Umsóknin gildir ekki aftur í tímann heldur gildir skattfrelsið eingöngu um framtíðariðgjöld (hámark 4%+2%, ekki ávöxtun) launatímabila frá því að þú sækir um hjá RSK þar til úrræði lýkur þann 30.06.2023.
Hvað geri ég til að nýta almenna úrræðið til 30. júní 2023?
Ef þú varst með virka umsókn í almenna úrræðinu til 30. júní 2021:
- Umsókn gilti óslitið frá 1. júlí 2021 ef þú sóttir um framlengingu 30. september 2021 eða fyrr, en ef þú gerðir ekkert þá féll umsókn úr gildi.
- Umsókn gildir á ný frá umsóknarmánuði ef þú sækir um 1. október 2021 eða síðar.
Ef þú varst ekki með virka umsókn til 30. júní 2021:
- Það er enn hægt að sækja um almenna úrræðið, umsókn um ráðstöfun inn á lán gildir þá bara frá umsóknarmánuði til 30.06.2023. Svo er líka hægt að sækja um húsnæðissparnað í eingreiðslu hafir þú ekki verið íbúðaeigandi einhvern hluta tímabilsins frá 1. júlí 2014 en á sama tíma greitt í viðbótarsparnað.
Hvernig nýti ég þessi skattfrjálsu úrræði sem best?
- Krónutölulega séð nýtist skattfrelsið best ef umsækjandi nær að fullnýta hámarksheimild hvers árs fyrir sig. Sumir ná betri heildarnýtingu krónutölulega séð ef „húsnæðissparnaður" væri ekki nýttur eða nýttur í styttri tíma en „reglulegar greiðslur inn á lán" nýttar til lengri tíma. Því fyrr sem byrjað er að leggja fyrir í viðbótarsparnað því meiri húsnæðissparnað hefur umsækjandi möguleika á að nýta þegar þar að kemur og því fyrr sem sótt er um ráðstöfun inn á lán, því fleiri launatímabil nýtast.
- Einstaklingur með 695.000 kr. og samskattaðir aðilar með samtals 1.042.000 kr. í mánaðarlaun ná að fullnýta skattfrelsið ár hvert með 4%+2% iðgjaldi en heimild til ráðstöfunar inn á lán færist ekki á milli ára.
- Þeir sem eru með lægri mánaðarlaun og lægra framlag í viðbótarsparnað en í dæminu hér á undan eiga því ekki möguleika á nýta heimild ársins að fullu.
- Raunin er hins vegar sú þar sem útborgun/afsalsgreiðsla er oft flöskuháls við íbúðakaup þá sækja margir um „húsnæðissparnað" jafnvel þó hámarksheimild hvers árs nýtist þeim ekki að fullu ( t.d. vegna lágra launa, lágs starfshlutfalls eða af því að framlag launþega er 2% en ekki 4%).
- Allt er þetta hins vegar háð aðstæðum og val hvers umsækjanda fyrir sig og hvaða leið sem farin er, þá er ágætt að átta sig á kostunum í stöðunni og taka meðvitaða ákvörðun, svo að ekkert komi á óvart síðar.
- Einstaklingur í almenna úrræðinu mun á endanum eiga 4,5 milljónum kr. meira í íbúð sinni m.v. fulla nýtingu og framlengingu en samskattaðir aðilar samtals 6.750.000 kr. Einstaklingur í úrræði fyrstu íbúðar mun á tíu árum eignast 5 milljónum kr. meira í íbúð sinni m.v. fulla nýtingu.
Ég fékk staðfestingu RSK en engin greiðsla komin, hvað má búast við löngum afgreiðslutíma?
Vakin er athygli á að heildarferlið krefst samvinnu nokkurra aðila þ.e. umsækjanda, RSK og vörsluaðila viðbótarsparnaðar/tilgreindrar séreignar. Einnig lánveitanda þegar um er að ræða reglulegar greiðslur inn á lán.
Í heild má gera ráð fyrir að frá því að umsókn er móttekin af RSK og þar til RSK hefur staðfest eða hafnað umsókn við umsækjanda í tölvupósti, vörsluaðila og lánveitanda geti liðið einhverjar vikur.
Staðfesting RSK, sem er forsenda fyrir því að vörsluaðili/lánveitandi geti framkvæmt greiðslu, berst umsækjendum almennt áður en hún berst í kerfi lánveitenda/vörsluaðila. Auk þess þarf greiðslugluggi lána að vera opinn og launagreiðandi að vera búinn að greiða iðgjöld. Það er í raun eðlilegt að nokkrir dagar, jafnvel allt að vika líði frá því að umsækjanda berst staðfesting þar til vörsluaðili getur framkvæmt greiðslu úr sjóðnum.
Þar sem heildarferlið tekur dágóðan tíma er raunhæfara að húsnæðissparnaður nýtist til fyrstu útborgana. Afsalsgreiðsla gæti verið raunhæfari kostur.
Hvar get ég fylgst með stöðu umsóknar og hvort eða hve mikið hefur verið greitt?
- Undir samskiptaflipa á skattur.is (fyrsta íbúð) eða á leidretting.is (almenna úrræðið) má fylgjast með stöðu umsóknar og nýtingu. Þar má einnig finna kvittun/staðfestingu á að umsókn hafi verið send, ásamt skilaboðum/athugasemdum umsækjanda og RSK.
- Í netbanka sést greiðslusaga lána.
- Í Arion appi sést hvort greiðslur eru virkar og hve mikið hefur verið greitt.
- Á lífeyrisyfirlitum á arionbanki.is/minarsidur sjást allar útgreiðslur og hreyfingar.
Gæti ég þurft að gera breytingar á umsókn til að skattfrjálsar greiðslur hefjist eða haldi áfram?
Já, það er á þína ábyrgð að tryggja RSK réttar upplýsingar á hverjum tíma og bregðast við athugasemdum RSK, ef við á. Ef þú ert í vafa, þá ráðleggjum við þér að yfirfara þínar upplýsingar á skattur.is vegna úrræðis fyrstu íbúðar og á leidretting.is vegna almenna úrræðisins áður en þú leitar upplýsinga hjá sjóðnum eða RSK.
- Nýr launagreiðandi. Ef þú skiptir um vinnu, þarftu að tilkynna vörsluaðila/sjóði um nýjan launagreiðanda í Arion appinu eða á Mínum síðum sjóðsins. Þá mun sjóðurinn senda lífeyrissamninginn á nýja launagreiðandann og þá getur launagreiðandinn hafið greiðslur í viðbótarsparnað/tilgreinda séreign. í þessu tilfelli þarftu ekki að uppfæra umsókn þína á skatturinn.is eða á leidretting.is
- Nafn sjóðs/vörsluaðila. Ef þú greiðir viðbótarsparnað nú í annan sjóð en áður þarftu að skrá nýja nafnið í umsóknina. Nafnið ætti að sjást á launaseðli/samningi/lífeyrisyfirliti/Arion appi.
- Nafn sjóðs/vörsluaðila. Sjóðurinn sem þú sóttir um í er ekki með viðbótarsparnað eða tilgreinda séreign heldur bundna eða frjálsa séreign skyldusparnaðar. Eigir þú viðbótarsparnað í öðrum sjóði, þá skráir þú nafn þess sjóðs í umsóknina.
- Lánanúmer. Við endurfjármögnun/sölu/kaup þarf að breyta lánanúmeri og senda afrit af lánasamningi. Sést í netbanka, Arion appi og á lánaskjölum. Hafi lán ekki verið skráð á skattframtali bætir umsækjandi númeri við lánalista umsóknar.
- Endurnýjun umsóknar. Þegar almenna úrræðinu hefur verið framlengt þá hafa notendur fengið tölvupóst frá RSK og verið boðið að framlengja reglulegum greiðslum inn á lán. Notandi þarf þá að fara inn á leidretting.is og staðfesta hvort hann vilji nýta sér framlenginguna.
- Heimild ársins fullnýtt: Reglulegar greiðslur inn á lán munu hefjast aftur á nýju almanaksári, að öðru óbreyttu. Algengt er að fyrsta greiðsla ársins berist ekki inn á lán fyrr en í mars þar sem launagreiðandi hefur frest út febrúar til að greiða iðgjöld janúarmánaðar.
- Reikningsnúmer þitt. Á eingöngu við vegna húsnæðissparnaðar.
- Skráningarnúmer íbúðar/fastanúmer nýbyggingar. Sést í íbúðaskrá þjóðskrár á skra.is og á kaupsamningi.
- Hjúskaparstaða. Skrá þarf breytta hjúskaparstöðu, ef við á. Hefur m.a. áhrif á samsköttun. Vanti nafn samskattaðs einstaklings skal bæta því við.
Ég ætla ekki að kaupa mér íbúð strax, þarf ég að gera einhverjar ráðstafanir?
Því fyrr sem þú byrjar að greiða í viðbótarsparnað (frá 01.07.2014) og/eða tilgreinda séreign (frá 01.01.2023) því hærri húsnæðissparnað áttu kost á að nýta þér þegar kemur að íbúðakaupum. Vegna skattfrelsis og mótframlags launagreiðanda er þetta ein hagkvæmasta leiðin til íbúðarsparnaðar og til þess að greiða lán hraðar niður. Þú þarft að tilkynna vörsluaðila um nýjan launagreiðanda ef þú skiptir um vinnu. Annars hættir sparnaður að safnast upp. Þú getur gert samning og tilkynnt um nýjan launagreiðanda í Arion appinu og/eða á Mínum síðum.
NÝTT! frá 2023 er heimilt að nýta tilgreinda séreign skattfrjálst í úrræði fyrstu íbúðar, sjá nánari skilyrði í sérreglum úrræðanna. Nánar um tilgreinda séreign hér.
Hvaða séreign má nýta skattfrjálst til íbúðakaupa?
Séreignarsparnaður er samheiti yfir viðbótarsparnað/viðbótarlífeyrissparnað, tilgreinda séreign, bundna séreign og frjálsa séreign vegna skyldusparnaðar. Einnig erfðaséreign.
- Almenna úrræðið: eingöngu má nýta viðbótarsparnað.
- Úrræði fyrstu íbúðar: nýta má bæði viðbótarsparnað og tilgreinda séreign.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna aldurs sjóðfélaga?
Frá 60 ára er viðbótarsparnaður laus til útgreiðslu, að vali sjóðfélaga, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu.
Sækja um útgreiðslu hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna örorku sjóðfélaga?
Verði sjóðfélagi 10% öryrki eða meira getur hann óskað eftir útgreiðslu viðbótarsparnaðar, þó ekki fyrr en tveimur árum eftir greiðslu fyrsta iðgjalds. Skulu greiðslur að lágmarki dreifast jafnt á sjö ár ef um 100% örorku er að ræða. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum. Eingreiðsla er þó heimil þegar inneign fer undir viðmiðunarfjárhæð, 1.627.089 kr. (2023).
Sækja um útgreiðslu hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna andláts sjóðfélaga?
Við andlát sjóðfélaga verður erfist viðbótarsparnaður að fullu og er oft talað um hann sem erfðaséreign. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu en hvorki erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur.
- Maki og börn erfa séreign: Hafi hinn látni verið í hjónabandi við andlát öðlast maki og/eða börn rétt til helmings séreignar samkvæmt reglum erfðalaga en helmingur er skilgreindur sem hjúskapareign samkvæmt hjúskaparlögum, sjá hér og rennur því eingöngu til maka. Þetta þýðir að maki fær 2/3 af séreign og börn fá 1/3 af séreign þ.e. börn sem eru blóðskyld sjóðfélaga og kjörbörn hans (ættleidd börn), en ekki stjúpbörn eða fósturbörn, sjá hér. Ef barn sjóðfélaga er látið, erfa niðjar hins látna barns hlut þess. Þrátt fyrir framvísun kaupmála, erfðaskrár eða leyfis til setu í óskiptu búi er ekki heimilt að ráðstafa séreign öðruvísi en rakið er hér að ofan en lög nr. 129/1997 fela í sér tilgreinda sérreglu sem kveður á um að séreign erfist framhjá dánarbúi ef sjóðfélagi lætur eftir sig maka og/eða barn, sjá 2. málslið 4. mgr. 11. gr. og 2. málslið 2. mgr. 8. gr. Maki og börn öðlast um leið ráðstöfunarrétt yfir erfðaséreign og geta hvert um sig óskað eftir mánaðarlegum greiðslum, árlegum greiðslum, óreglulegum greiðslum eða eingreiðslu, eftir því hvað hentar hverjum og einum.
- Maki erfir alla séreign: Hafi sjóðfélagi verið í hjónabandi við andlát og lætur ekki eftir sig börn eða niðja.
- Börn erfa alla séreign: Hafi sjóðfélagi aldrei verið í hjónabandi, eða verið skilinn að borði og sæng við andlát eða maki þegar látinn, þá erfa börn sjóðfélaga þann hluta sem maki hefði annars erft.
- Séreign rennur í dánarbú: Láti sjóðfélagi hvorki eftir sig maka eða börn rennur séreign til dánarbús sjóðfélaga. Almennt er greitt inn á reikning dánarbús en ekki á reikninga t.d. systkina eða foreldra.
Sækja um útgreiðslu hér.
Er hægt að hafna erfðaséreign?
Erfingjar, einn eða fleiri, geta hafnað/afsalað sér rétti til erfðaséreignar, áður en útgreiðslur hefjast. Hægt er að hafna til hagsbóta til hvaða skylduerfingja sem er. T.d. geta börn sem vilja að erfðaséreign renni óskipt til eftirlifandi maka sjóðfélaga hafnað sínum rétti en forsendan fyrir að maki fái allt er að öll börn hafni rétti. Höfnun er val, engum er skylt að hafna. Ófjárráða er óheimilt að hafna.
Sækja um höfnun erfðaséreignar hér.
Hvernig eru útgreiðslureglur vegna brottflutnings erlendra ríkisborgara frá Íslandi?
Endurgreiðsla iðgjalda til ríkisborgara utan samningsríkja við brottflutning frá Íslandi
Erlendir ríkisborgarar geta, skv. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997, sótt um endurgreiðslu iðgjalda við brottflutning frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað skv. milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki sem hér verða nefnd samningsríki þ.e. Bandaríkin og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin.
- EFTA ríkin eru Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Vakin er athygli á að Sviss telst hér til samningsríkja þrátt fyrir að vera ekki aðili að EES samningi ESB ríkjanna og hinna EFTA ríkjanna. Sviss telst hér til samningsríkja vegna aðildar sinnar að Vadus samningi EFTA ríkjanna.
- ESB ríkin eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland og Þýskaland.
Sjóðfélagi sem er með ríkisborgararétt í samningsríki: ekki er heimilt að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Ef um tvöfalt ríkisfang er að ræða er ekki heimild til endurgreiðslu ef annað er innan samningsríkis. Ríkisföngin þyrftu bæði að vera utan samningsríkja til að endurgreiðsla sé heimil.
Sjóðfélagi sem er ekki með ríkisborgararétt í samningsríki og er ekki að flytja til samningsríkis: heimilt er að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Þá er framlag sjóðfélaga og launagreiðanda endurgreitt með verðbótum, en án vaxta. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu.
- Breskir ríkisborgarar vegna BREXIT: sérreglur gilda um breska ríkisborgara sem voru með ríkisborgarrétt í samningsríki til 1. janúar 2021 þ.e. meðan Bretland var enn hluti af ESB. Heimilt er að endurgreiða iðgjöld vegna janúar 2021 og síðar, til breskra ríkisborgara sem flutt hafa til Íslands og hafið störf á Íslandi 1. janúar 2021 eða síðar, sbr. útgöngusamning EFTA ríkjanna við Breta frá 1. janúar 2021.
Reimbursement of nationals of non-contracting states when moving away from Iceland
Pursuant to Article 19 (4) of Act No. 129/1997 foreign nationals can apply for reimbursement of premiums when they move away from Iceland provided that this is not prohibited under international agreements to which Iceland is party. Iceland currently has international agreements with more than 30 countries which here will be called contracting states. The contracting states are the United States and members of the EEA, plus Switzerland, i.e. all EFTA and EU states.
- The EFTA member states are Iceland, Norway, Liechtenstein and Switzerland. Please note that Switzerland is considered a contracting state despite not being party to the EEA agreement with the EU states and the other EFTA states. Switzerland is considered a contracting state here by virtue of its being a party to the Vaduz convention of the EFTA states.
- The EU member states are Austria, Belgium, Bulgaria, Croatia, Cyprus (Greek Cypriot administered area), the Czech Republic, Denmark, Estonia, Finland, France, Germany, Greece, Hungary, Ireland, Italy, Latvia, Lithuania, Luxembourg, Malta, the Netherlands, Portugal, Poland, Romania, Slovakia, Slovenia, Spain, and Sweden.
A fund member who is a national of a contracting state: it is not permitted to reimburse the fund member their pension savings when moving away from Iceland. In the case of dual nationality, it is not permitted to reimburse the fund member if one nationality is a contracting state and the other is not. The nationalities both need to be non-contracting states for reimbursement to be permitted.
A fund member who is not a national of a contracting state and who is not moving to a contracting state: it is possible to reimburse the fund member their pension savings when moving away from Iceland. In such case, the contribution of fund members and employers will be reimbursed with inflation compensation, but without interest. Income tax is payable on payouts.
- Information for British nationals post Brexit: special rules apply to British nationals who had citizenship in a contracting nation until 1 January 2021, i.e. while the United Kingdom was still a member of the EU. It is permitted to reimburse premiums for January 2021 and later to British citizens who have moved to Iceland and started working in Iceland on 1 January 2021 or later, cf. exit agreement between EFTA nations and the United Kingdom of 1 January 2021.