Skráning Solid Clouds á Nasdaq First North

Skráning Solid Clouds á Nasdaq First North

Skráning Solid Clouds á Nasdaq First North - mynd

Hlutafjárútboð stendur yfir 28. - 30. júní

Hlutafjárútboð íslenska tölvuleikjaframleiðandans Solid Clouds hf. hefst kl. 10:00 mánudaginn 28. júní og mun standa yfir til klukkan 16:00 miðvikudaginn 30. júní. Rafrænar áskriftir fara fram í gegnum áskriftarvef útboðsins sem opnar klukkan 10:00 mánudaginn 28. júní.

Solid Clouds þróar tæknigrunn sem nota má til framleiðslu fjölspilunartölvuleikja og framleiðir einnig eigin leiki. Í fyrra var fyrsti leikur félagsins gefinn út og ber hann heitið Starborne: Sovereign Space en rétt um 400 þúsund manns frá 150 löndum hlóðu niður leiknum. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 af Stefáni Gunnarssyni, Stefáni Björnssyni og Sigurði Arnljótssyni, fyrrum forstjóra CCP. Næsti leikur Solid Clouds kemur út um mitt ár 2022.

Alls verða til sölu í hlutafjárútboðinu 40.000.000 hlutir að nafnvirði í formi nýs hlutfjár í Solid Clouds hf. en félagið hefur þó heimild til að stækka útboðið um 18.000.000 hluti. Samtals hefur félagið því heimild til að selja um 58.000.000 hluti í formi nýrra hlutabréfa. Í boði verða tvær áskriftarleiðir, A og B, en þær eru ólíkar með tilliti til stærðar áskrifta.

Ráðgert er að niðurstaða útboðsins og úthlutun verði tilkynnt fimmtudaginn 1. júlí.
Til að kynna sér félagið er fjárfestum bent á opinn kynningarfund sem haldinn verður kl. 12:30 þriðjudaginn 29. júní. Á fundinum munu stjórnendur Solid Clouds kynna félagið og svara spurningum fjárfesta. Vefstreymi á fundinn verður aðgengilegt á vefsíðum Arion banka og Solid Clouds.

Einstaklingar sem eru með skattalegt heimilisfesti á Íslandi og taka þátt í áskriftarbók A fyrir að lágmarki 300.000 kr. uppfylla skilyrði um frádrátt frá tekjuskatts- og/eða fjármagnstekjuskattsstofni sínum fyrir allt að 75% af fjárfestingu sinni, að því gefnu að þeir eigi hlutabréfin í að lágmarki þrjú ár.

Arion banki er umsjónar- og söluaðili útboðsins.

Nánari upplýsingar um útboðið má nálgast hér.